1020. færsla. Af mörgu
Það er nú ekki alveg í lagi að skrifa eina bloggfærslu á mánuði. Tala nú ekki um þegar svo margt drífur á daga manns. Ég man nú ekki allt en hér er eitthvað:
- Fyrst kom Sandy. Heyrði af því að hún væri væntanleg með nokkuð góðum fyrirvara. Hafði ekki áhyggjur þá, en fór aðeins að hugsa um hvirfilbyli, Dóróteu og Oz og fór svona að pæla hvernig maður ætti að bregðast við í svoleiðis aðstæðum. Og fór því að lesa fréttir. Og úff. Það tók mig reyndar nokkurn tíma að fatta að fellibylur er ekki hvirfilbylur, þó að fellibyljum geti fylgt hvirfilbylir eða eitthvað. Það var gert mjög mikið úr hættunni í fjölmiðlum, forsetinnn ávarpaði þjóðina og borgarstjóri Philly gerði slíkt hið sama (og væntanlega ýmsir aðrir). Skólum og opinberum stofnunm var lokað í tvo daga (ákveðið fyrirfram) sem og almenningssamgöngum. Og fólk var eindregið hvatt til þess að búa sig undir hið versta. Ég, sem á það víst til að dramatísera hlutina örlítið, fór í ham og leið eins og ég væri að búa mig undir kjarnorkuvetur. Þetta var eitthvað svo súrrealískt, ég meina, maður er nú vanur ýmsum veðrum á Íslandi, en aldrei svo ég muni til hefur maður mátt búast við margra daga rafmagnsleysi. Ég var á endanum að ærast úr stressi, alveg meira en sólarhring áður en hið versta skall á var ég alveg viðþolslaus yfir því að Einar þyrfti að "hætta" sér út úr húsi (þá var ekkert að veðrinu sko). Við keyptum eldspýtur (áttum kerti), nægan mat sem þarf hvorki að elda né geyma í ísskáp og nægt vatn. Auk þess fyllti ég hvert gallonið á eftir öðru af kranavatni og frysti, en það hefur tvíþættan tilgang: heldur því sem er í ísskápnum köldu lengur og svo getur maður nýtt vatnið ef þarf. Svo var ég heldur sein að pæla í vasaljósi, fannst eins og það væri nóg að hafa kerti, en þarna um sólarhring fyrir áætlað óveður fór ég að hafa áhyggjur af þessu. Kom að lokuðum kofanum í dollarabúðinni, bensínstöðin seldi ekki svoleiðis og í CVS-apótekinu (sem selur allan fjandann) voru öll vasaljós (og batterí í þau, og vatn) búin. Hleraði samt að það væri von á nýrri sendingu seinna um kvöldið og því tókst okkur að næla okkur í vasaljós og batterí í seinni ferðinni. Það var annars fyndin stemming þarna í apótekinu. Þvílíkar raðir, spenna í loftinu og fólk að byrgja sig upp af hinu og þessu. Svo varð þetta eiginlega ekki neitt neitt, hér í Philadelphiu. Þetta varð auðvitað svakalegt á stöðum eins og New York, og þetta hafði einhverjar afleiðingar í Philadelphi, en svo ósköp lítið að maður gat eiginlega ekki setið á sér að hlæja að öllu fárinu. Með fullri virðingu fyrir stöðum sem urðu verr úti.
- Á hæla Sandy fylgdi Halloween. Öllu gleðilegri viðburður, þó að hann eigi nú að vera ógnvekjandi líka. Ég vissi svo sem ekkert við hverju ég ætti að búast, við Einar keyptum þó einn vel stóran nammipoka til að lenda ekki í grikkjum ef litlir púkar berðu að dyrum. Við ÁG fórum í stórskemmtilega skrúðgöngu í hverfinu. Foreldrar og börn söfnuðust saman og svo var gengið hring undir fjörugum trommuslætti. Einn trommarinn var í dragi, mjög svo efnislitlu pilsi, topp og netsokkabuxum. Engu öðru, og það var sko skítakuldi. Hann hlýtur að hafa lamið fast í trommuna. Reyndar fannst mér sum börnin heldur illa klædd miðað við veður. Það var nú ekki hægt að segja um hann Árna Gunnar minn, en ég hafði einhvern veginn misskilið veðrið og hélt það myndi rigna, svo að hann var í stígvélum og regnfötum, ehemm, í mjög þurru veðri. En hann var með prjónuð kisueyru sem ég saumaði á húfuna hans, svo að þetta var í lagi. Gangan endaði svo í lítilli götu. Í henni miðri var stórum borðum raðað í hring, og á þeim var alls kyns (ókeypis!) góðgæti. Kökur, möffins, kökupinnar, ís og eplacider. Í boði fyrirtækja i nágrenninu. Íbúar götunnar og nærliggjandi gatna voru svo margir hverjir úti á palli í grímubúning að gefa nammi. Mér sýnist sem sagt reglan vera sú (allavega í svona stórborg) að ef fólk vill taka þátt í trick or treatinginu þá fer það út á pall með nammiskálina, en krakkar eru ekkert að banka upp á ef enginn er úti. Við fórum ekkert út á pall og því þurftum við ekkert að gefa úr nammipokanum. Næst ætla ég samt alveg pottþétt að gera það, allavega ef við verðum í húsnæði sem býður upp á slíkt.
Ég er svona að velta því fyrir mér hvort Íslendinga vanti ekki svona hausthátíð eins og Halloween er. Tekur aðeins pressuna af jólunum. Fólk getur aðeins skreytt og dúllast, jafnvel sett upp seríu, fyrir Halloween, en það þarf ekki að vera eins extreme og á jólunum. Og þá er fólk kannski ekki eins æst í að byrja að jólast (að mínu mati) allt of snemma.
- Einhver tímann fór ég á Please Touch Museum (endilega snertið-safnið). Það er mikill dásemdarstaður fyrir börn. Fyrst hélt ég að þetta væri barnvænt listasafn þar sem börn mættu snerta listaverkin. Það væri mikill snilldarstaður, en þetta er nú ekki svoleiðis. Eiginlega finnst mér safn ekki vera réttnefni á honum. Húsið er reyndar frekar safnalegt. Stórt og íburðarmikið, svona með glerkúpli í miðju þakinu. Skemmtilegt að svona hús sé lagt undir eitthvað fyrir börn. En þetta er eins konar stórt leiksvæði. Þarna er til dæmis alvöru strætó (eða framhluti hans), sem börnin mega klifra upp í, setjast í bílstjórasætið og ýta á alla takkana. Þarna er líka lítil verslun, með litlum búðarkerrum, leikfangamat og tómum matarílátum, svo að börnin geta verslað og farið svo á kassana, ýmist leikið sér sjálf á kössunum, eða sett matinn upp á borðið og látið starfsfólkið "skanna" hann inn. Og ýmislegt annað. Stórsniðugt.
- Um síðustu helgi fórum við í for-þakkargjörðarmáltíð hjá skólafélaga Einars. Við vorum um tuttugu manns þar, úr hinum og þessum heimshlutanum og lögðum öll eitthvað í púkkið á matarborðið. Þetta var því mjög fjölrétta og fjölbreytilegt matarboð. Mjög skemmtilegt og bragðgott. Það var samt pínu skrítið að smakka sumt af bandaríska matnum. Ég hélt nú að maður þekkti alveg turkey dinner (það var samt ekki kalkúnn, heldur bara kjúlli og fylling), en fyllingin var einhvern veginn allt öðruvísi en þær fyllingar sem ég hef smakkað heima á Íslandi. Sósan var einhvern veginn líka öðruvísi. Við bökuðum lakkrístoppa - án lakkrís, því að almennilegur lakkrís er víst ekki á hverju strái hérna (meira um það síðar). Ég reddaði þessu þó með því að setja í staðinn anísdropa. Það kom furðu vel út. Anísbragðið gerði það að verkum að manni fannst næstum eins og það væru lakkrísbitar í þessu þó að það væru bara súkkulaðibitar. Kökurnar féllu mjög vel í kramið þó að fólki þætti mjög framandi að hafa anísbragð af þessu.
- Skömmu áður fórum við Árni Gunnar líka í alþjóðlegansamskeytahádegismat með "alþjóðlegum mökum". Það er sem sagt félag í Penn (háskólinn) sem er fyrir alþjóðlega maka nemenda, hahaha, pínu sérhæft félag en mér finnst það mjög þarft og er ánægð með þetta framtak, verandi heimavinnandi alþjóðlegur maki. Maður átti að koma með eitthvað þjóðlegt og ég var í stökustu vandræðum með að láta mér detta eitthvað í hug. Allt sem mér finnst íslenskt (og gott) er eitthvað sem er ekki svo auðvelt að verða sér úti um hér. T.d. lakkrís, eða eitthvað með lakkrís í. Svo er svo margt sem manni finnst þjóðlegt en er samt til á svo mörgum stöðum. Mömmuhópurinn minn á netinu vildi endilega að ég steikti kleinur, en ég lagði ekki í það á endanum (hafði sko svo lítinn tíma sko). Auk þess sem það fást ekki kardimommudropar hér, held ég. Þannig að ég gerði lakkrístoppa án lakkríss! Bakaði sem sagt lakkrístoppa án lakkríss, en með anísbragði, tvisvar á mjög skömmum tíma. Þetta var áhugaverður hádegismatur fyrir bragðlaukana. Sumt var venjulegt en gott og svo var sumt sem var frekar óvenjulegt, og jah, kannski kunna bragðlaukarnir mínir bara ekki á þá. Við vorum ekki mörg, kannski um 10, og þar af nokkrar frá Rússlandi eða nágrenni ... og í öllum réttunum þaðan var hvítkál! Það fannst mér alveg rosalega hlægilegt. Veit ekki af hverju.
- Á fimmtudaginn er svo alvöru þakkargjörðahátíðin. Maður hefur náttúrulega engar taugar til þessa hátíðisdags, en manni finnst samt ekki hægt annað en að gera sér einhvern dagamun. Það er líka frí í skólanum hjá Einari og daginn eftir. Bandaríkjamennirnir fara vænti ég flestir heim til sín eða til annarra vina eða ættingja, en við höfum boðið eftirlegukindunum að koma í mat til okkar. Veit ekki hversu mörg við verðum, það á eftir að koma í ljós. Við eigum samt ekki sófa og afar fáa stóla svo að það verður spennandi að sjá hvernig rætist úr þessu:)
Litli kútur er veikur. Ég hef komist að því að það á ekki við mig að vera mamma veiks barns. Ég fer öll í kerfi og hef áhyggjur og vorkenni barninu svakalega. Samt er hann nú líklega ekki mjög veikur. Vonandi fer þetta að ganga yfir. Litla angatetrið mitt.
Annars er hann hress þegar hann er ekki veikur. Er farinn að hoppa, elskar tónlist og dansar mikið. Borðar vel. Klifrar sjálfur upp í tripp trapp stólinn sinn, svo að við urðum að taka ungbarnainnleggið úr svo að hann færi sér ekki að voða, sækir sjálfur mjólk í ísskápinn og er lítill prakkari. En er voða feimminn og forvitinn í senn um ókunnugt fólk. Stendur oft í "öruggri" fjarlægð (ekkert mjög örugg samt) og staaaaaarir á fólk á leikvellinum. Ég verð stundum bara vandræðalega yfir því hversu mjög hann starir.
Ég reyni að láta ekki líða eins langt á milli blogga næst. Ég hef sko örugglega gleymt helmingnum af því sem hefur gerst síðan ég skrifaði síðast.
Bless
8 ummæli:
Æðislegt að lesa um lífið í Philly. Og ég væri mjög til í að sjá starandi barnið...hljómar mjög fyndið.
OOooh, en gaman að lesa :) Hlakka til að koma til ykkar og fara með krakkana á please-touch! Hljómar æðislega. Kannski ég komi líka með þau á Halloween einhvern tímann, væri gaman að prófa ða upplifa þessa hátíð sem ég skil ekkert í :) En bíddu....er Árni Gunnar ekki örugglega enn bara 4 mánuðum eldri en Kári? farinn að hoppa og sækir sér mjólk sjálfur?? Whaaat? Jemundur, hvað ég hlakka til að sjá hann. Og jú jú, ykkur EFS líka :) Batakveðjur til litla mannsins, hann er nú heppinn að eiga svona góða mömmu, knús til ykkar allra, AR
Haha, já Alma, það er pínu fyndið ... eða svona óþægilegt.
Anna, já, alveg endilega, bæði á please touch og halloween, eða, það er allavega gaman!
Sko, samt til útskýringar þá er ísskápurinn á gólfinu (frystirinn er ofan á), og svo er mjólkurfernan hans með tappa, svo að hann getur sótt hana án þess að sulla. En svo þarf maður náttúrulega að hjálpa honum að hella sko!!!
:)
Hvað ætliði að búa í USA lengi?
Námið hans Einars er fimm ár, svo að við verðum hér í fimm ár:)
Já okay - hélt það væri bara eitt ár:)
Ó nei:) Það er sem sagt nægur tími til að koma í heimsókn til mín:)
Já einmitt, og bloggið meikar bara mun meira sens núna þegar veit að þið verðið þarna í 5 ár:)
Skrifa ummæli