mánudagur, september 15, 2014

1039. Hárrétt

Ég fæ stundum þá flugu í höfuðið að ég verði að klippa mig. Og læt þá yfirleitt bara verða af því strax á stundinni og klippi mig sjálf. Það er ekki alveg hættulaust, því að iðulega þegar ég fæ þessa hugdettu er ég á leiðinni eitthvert út og hef ekki mikinn tíma. Auk þess er ég yfirleitt ekkert búin að hugsa út í það hvað ég ætla að gera heldur læt ég skærin vaða umhugsunarlaust í hárið. Hið þriðja, og kannski mikilvægasta, er að ég kann auðvitað ekkert að klippa. Árangurinn er því allt frá því að vera skelfilegur og í að vera sæmilegur. Sem betur fer er ég oftast með tiltölulega sítt hár þegar klippitilraunir mínar hefjast svo að það er svigrúm til að laga. Það verður aftur á móti til þess að ég klippi oft hárið miklu miklu styttra en ég hafði beinlínis ætlað mér.

Fyrir nokkrum dögum fékk ég þessa hugmynd og lét að sjálfsögðu vaða. Hef síðan þá verið smátt og smátt að klippa meira til að jafna þetta út og laga það sem þarf að laga. Í dag gerði ég góðan skurk í þessu. Því miður, í æsingnum og hugsunarleysinu (korter í "partý" sem við vorum á leiðinni í), klippti ég óvart hlýrann af hlýrabolnum sem ég var í í leiðinni. Úbbs. Kannski var þetta undirmeðvitundin í uppreisnarham að segja mér að losa mig við þennan slitla og teygða eldgamla bol.

Ég er bara nokkuð sátt við útkomuna í þetta skiptið. Set inn mynd til sönnunar. Sést kannski ekkert svo vel, enda eru gæðin ekkert mikil í tölvumyndavélinni minni:) Athugið að ég er hlýrabol en ekki þeim sem ég klippti.


OK ég sé það núna að þetta eru mjög léleg gæði. Oh well. Kannski er það bara til bóta.

4 ummæli:

Nanna sagði...

Hahahah :D
En vel gert - sýnist þetta vera mjög flott klipping.
Ég klippti mig líka stundum sjálf þegar ég var með sítt hár :)

Fríða sagði...

Klippa hlýrabol!!! :D

ella sagði...

Ég klippi mig líka oft sjálf. Stundum tekst það bærilega. Þetta með hlírann minnir mig mjög á það þegar næstyngsti bróðir minn var að stytta buxur og klippti sundur málbandið. Það gleður hann yfirleitt ekkert sérstaklega mikið að ég nefni það.

Pabba mínum fannst afleitt að heyra talað um léleg eða góð gæði. Ég tek pabba til fyrirmyndar.
Það er afskaplega gaman að lesa bloggið þitt, kannski gegni ég þér bráðum.

Regnhlif sagði...

Haha, með málbandið.

Já, þetta er eitthvað sem ég myndi alveg pottþétt fetta fingur út í ef ég væri að prófarkalesa. Oft er orðið gæði líka óþarft "mikil gæði" getur oft bara verið "gott". En ég tek mig ekki mjög alvarlega á blogginu og leyfi mér ýmislegt sem ég veit að þykir ekki sérstaklega gott, svo lengi sem mín eigin máltilfinning leyfir það - en svo get ég verið mjög stíf hvað eitthvað annað varðar:)