1021. færsla. Takk, þakkargjörðarhátíð
Ég fíla þakkargjörðarhátíðina. Ætla að halda áfram að halda upp á hana þegar við flytjum til Íslands. Ástæðan er sú að það er svo sniðugt að þurfa að taka til í lok nóvember. Þá ætla ég að hafa planið svona. Taka til og þrífa yfirborðsþrif fyrir takkhátíðina (hitt er bara of langt orð), og svo passar maður sig að halda í horfinu fram að jólum og getur svona verið að dunda sér við á kvöldin að þrífa einn og einn skáp eða eitthvað. Ofsalega sniðugt.
Oh, kötturinn er að reyna að vekja barnið með þessu mjálmi sínu!
En já, við fengum nokkra alþjóðlega nemendur til okkar á fimmtudaginn. Ekkert okkar hafði áður upplifað þakkargjörðarhátíð svo að við renndum svolítið blint í sjóinn. Við vorum fjórir Íslendingar, ein taívönsk, ein bresk, einn kínverskur og einn slóvenskur. Nokkuð gott, ekki satt? Við elduðum aðalréttina en þau hin komu með fullt af gómsætu meðlæti og eftirréttum. Mér leið pínu eins og hálfvita í undirbúningnum, að elda kalkún (bara bringur í þetta skiptið) sem ég hef aldrei eldað áður, fyllingu sem ég hef aldrei gert áður, o.s.frv. Þar að auki hef ég líka bara mjög sjaldan borðað kalkún yfir höfuð, svo að það var ekki nóg með að ég væri að gera þessa hluti í fyrsta skipti, heldur vissi ég eiginlega ekki heldur hvernig þetta ætti að bragðast. Heppnaðist þó bara ljómandi, jah, nema kalkúnninn sem var skraufþurr.
Við drifum í því að kaupa okkur sófa á miðvikudaginn. Það var síðasti hluturinn sem okkur vantaði í íbúðina (búin að fá sjónvarp og rúm og svona flest það helsta). Það var eiginlega algjört möst því að við eigum bara fjóra stóla og því ekki auðvelt að bjóða fimm manns í mat (auk okkar). Við fengum Amy (ertu að nota google translate til að lesa þetta?:) til að passa ÁG og löbbuðum í Second Mile búðina sem er í næstu götu. Þar fást notaðar vörur. Til allarar hamingju fengust þann daginn heilir þrír sófar og tveir þeirra fundust okkur ekki fráleitir. Annar reyndist of stór svo að við keyptum bara hinn, þó að mér finnist hann ekki svo ýkja fagur. Svo bárum við hann heim. Erum við ekki miklir massar?:) Það er ótrúlegt hvað sófi gerir mikið fyrir heimilið. Stofan fór úr því að vera kuldalegt og asnalegt herbergi yfir í það að vera heimilislegt og kósý. Og svo er það svo skrítið að þó að sófinn sé ljótur per se, þá fer hann mjög vel þegar hann er kominn í stofuna. Ég hef algjörlega ekkert auga fyrir slíku og gæti því aldrei verið innanhúsarkitekt. Ég horfi bara á staka hluti og dæmi hvort þeir eru fallegir eða ekki, en sumir hlutir eru bara þannig að þeir verða mjög flottir með öðrum, þ.e. heildarmyndin verður falleg. Svo er sófinn eiginlega perfekt að því leyti að umgjörðin er frekar nett, þannig að maður fær frekar mikið rassapláss án þess að sófinn taki of mikið pláss. En stofan er mjög lítil sko. Svo er alveg hægt að sofa í honum þó að hann sé ekki svefnsófi. Og það er mjög mikilvægt því að við ætlum að fá svo marga gesti frá Íslandi í heimsókn (koma svo, fólk!!!!)
Það var svo fyndið í búðinni þegar við vorum að reyna að átta okkur á lengd og breidd sófans. Í búðinni var ekkert málband sem mældi metra. Við kunnum lítið á tommur og fet og svona svo að við vorum að reyna að finna eitthvað viðmið. Á endanum komumst við starfsmaðurinn að því að sófinn væri einn langur körfuboltamaður á lengd:D Þetta voru frekar skondnar umræður.
En djöfs hvað það er pirrandi (eða erfitt að koma sér inn í það, en verður sjálfsagt lítið mál á endanum) að það getur ekkert verið eins og það sem maður þekkir. Lengd, þyngd, rafmagnsinnstungur (og hvaaaaað er málið að vera með tvær gerðir af klóm og innstungum!! Tölvan mín getur bara verið í sambandi í eldhúsinu, ekki í stofunni, arg), hitastig. Meira að segja stærð á pappír er ekki sú sama:) Og möppur eru ekki tveggja eða fjögurra gata eins og heima, heldur þriggja gata.
Svo fattar maður hvað sumir smávægilegir hlutir eru menningarbundnir (veit ekki alveg hvað ég meina með þessu). T.d. rusl:) Á Íslandi getur maður gengið að því að í skápnum undir eldhúsvaskinum sé rusl. Hér eru allir með ruslatunnu með loki einhvers staðar á eldhúsgólfinu. Fólki finnst ég örugglega mjög undarleg að vera alltaf að opna skápinn undir vaskinu hjá þeim:) Og fólk finnur bara alls ekki ruslatunnuna okkar (þar sem hún er undir vaskinum). Og svo þetta með uppvaskið, hér (og líklega á ýmsum stöðum, allavega á Spáni) notar fólk ekki uppþvottabursta heldur svamp. Það fást uppþvottaburstar, en þeir eru ekki ætlaðir í uppvask heldur þrif, og eru því of stífir. Á Íslandi er þetta akkúrat öfugt, maður notar svampana í þrif en burstann í uppvask (OK, nú er ég tvisvar búin að skrifa "uppvax", er ég orðin eitthvað hljóðvillt?).
Jæja, það er farið að styttast ískyggilega í það að við komum heim (nú er "heim" orðið ruglandi - getur vísað heim til Íslands og heim til Fíladelfíu). Ég segi ískyggilega af því að ég á eftir að kaupa allar jólagjafirnar. En mikið verður nú gaman að koma heim og hitta alla
5 ummæli:
Það er svo frábært að lesa bloggið þitt. Betra en að horfa á bíómynd. Stundum soldið eins og að horfa á Bridget Jones, en samt miklu betra. Ef þú mundir gefa út bloggbók mundi ég pottþétt kaupa hana og vita hvað ég ætti að gefa fólki í jólagjöf ... :)
Hahaha, Nanna. TAKK!!! En ég gæti sagt nákvæmlega það sama um þitt blogg (bíddu, ætli við séum skyldar eða eitthvað fyrst við erum svona frábærir bloggarar (og höfum sama smekk á blogg, hehe))!
Kannski ég geri það bara að jólagjöf næsta árs:) Og gefi ÖLLUM sömu jólagjöfina:)
Mér finnst miklu betra að nota svamp (með stífu grænu skrúbblagi) til að þvo upp, nota bara bursta á hnífapör og óslétta fleti. Ég er samt hreint ekkert amerísk. Já ég tók eftir þessu þegar ég var í USA einu sinni í nokkrar vikur og þó var ég bara inni á heimilum Íslendinga. Undarlegt að þeir skuli ekki gert hlutina eins og "venjulegt" fólk.
Hahaha... Ég kannast við þetta með uppþvottaburstann og svampana. Við búum hérna 6 saman og það nota allar svamp nema ég. Ein stelpan frá Suður Kóreu botnaði bara ekkert í þessu, hún hafði aldrei séð svona áður :)
Kveðja,
Auður Benjamíns.
Skemmtileg sófa-sagan, sé ykkur í anda burðast með heilan sófa um hverfið... we are the vikings :) Ekki hægt annað en brosa að þessu. Bestu kveðjur til ykkar í borg bróðurkærleikans.
Helga Ellen.
Skrifa ummæli