750.færsla. röfl
Píndi sjálfa mig til þess að taka góðan krók á heimleiðinni af Þjóðó til að ná lágmarkinu fyrir lífshlaupið. Þurfti svo sem ekki mikið til, þar sem lágmarkið er bara 30 mínútur. En það var meira en að segja það af því að ástæðan fyrir því að ég var að fara heim af Þjóðó var sú að ég var þreytt, svöng og geðstirð (verð alltaf geðstirð* með svengd). En þegar ég var komin af stað þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri einmitt það besta við geðstirð. Og ég hætti að vera svöng.
Sem minnir mig á það þegar pabbi kom með ráðleggingu til okkar dætra hans þegar við vorum eitthvað að ræða holdafar og mataræði: "Þegar þið verðið svangar, farið þá bara í göngutúr. Í svona TVO KLUKKUTÍMA". Einmitt. Ef ég hefði nú tíma til þess í hvert skipti sem ég verð svöng ... (mér finnst eins og ég sé áður búin að skrifa um þetta á blogginu. Hvað veit maður. Búin að blogga svo lengi)
Pabbi hefur mjög skrítnar skoðanir á hollustu. Verður alltaf rosa hneykslaður á svipinn ef maður er eitthvað að tala um hollustu í kringum hann. Segir vanalega að honum finnist þessi meinti óholli matur ekkert "óhollur Á BRAGÐIÐ".
Þegar ég kom heim úr litlu kraftgöngunni minni (ekki beint samt kraftaganga, því ég labba alltaf svo hægt. Ég neyddi mig samt til þess að labba rösklega, en það hefur örugglega verið löturhægt að annarra mati)hlakkaði ægilega í kærastanum. Hann hafði farið á bókamarkaðinn og keypt, af öllum bókum, Sögu Keflavíkur í þremur bindum! Svo vildi hann að ég myndi finna pláss fyrir þetta! Ég ætla að hefna mín og leita að Sögu Kópavogs.
*Ég þurfti að kíkja í vefbækur Eddu til að vera viss um að stirður væri skrifað svona. Finnst það líta svo asnalega út. Þá sá ég að í skýringunni fyrir stirður stendur "stífur, sem trauðla sveigist eða svignar". Mér finnst nú algjört rugl að nota orðið trauðla í orðabókarskýringu. Lágmark að nota orð sem allir eða flestir skilja í orðabókarskýringum. Það er erfitt ef fólk þarf að fletta upp orðunum í skýringunni til þess að skilja hana. Þá er ég náttúruleg að meina fólk sem er kannski ekki með brjálaðan orðaforða í íslensku, unglinga, útlendinga... Annars má fólk alveg nota trauðla sko mín vegna, flott orð.
3 ummæli:
:) ægileg hefnd! að leita að sögu Kópavogs. Athugið "leita", ekki endilega kaupa.
Ég hefði nú talið að Kópavogur sé trauðla nógu gamall til að búið sé að gefa út sögu hans. Að minnsta kosti trauðla í þremur bindum?
Jújújújú. Kannski ekki gamall. En merkur.
Skrifa ummæli