791.færsla. mi casa es mi casa
Ég er komin heim. Ótrúlega skrítið samt að ég er að fara aftur til útlanda á þriðjudaginn. Það hefur aldrei liðið svona stutt milli ferða hjá mér áður. Við kærastinn ákváðum að bæta aðeins aðskilnaðarsumarið mikla með því að ég færi með í næstu ferð (sem sagt á setningafræðiráðstefnu í Edinborg) og þannig verða þetta bara þrjár ósameiginlegar ferðir og ein sameiginleg í sumar. Ég hef samt engan vegin efni á þessu né heldur tíma Ma-ritgerðarlega séð, en seinni rökin leystust einhvern vegin upp þegar leiðbeinandinn hvatti mig til að fara í ferðina. Nú, ég get þá alltaf sagt að þetta sé honum að kenna ef allt fer á versta veg. Því miður þá missi ég á meðan af 55 ára afmæli pabba míns og 80 afmæli afa míns (þeir feðgar eiga afmæli dag eftir dag)... en það þykir mér mjög miður. Ég hafði bara ekki áttað mig á því að ferðin næði yfir þessar dagsetningar (kenni talnablindunni um. Mér finnst að ríkið ætti að veita mér fjárstuðning út af þessum kvilla mínum. Hann hefur ótrúlega mikil áhrif á líf mitt. Ég er reyndar bara með sjálfsgreiningu en ég tel mig fullbæra um að greina mig sjálf). Og svo í gær rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég átaði mig á því að ég væri að fara í ferð til Bretlandseyja með fjórum karlmönnum á fótboltatímabili!! Hélt í vonina um að kannski myndu þeir ekkert ætla að eltast við þetta en sú von varð að martröð þegar ég sá á skrifborði leiðbeinandans (sem er einn þeirra sem fer í ferðina) útprentaða dagskrá mótsins. Nú kem ég upp um vanþekkingu mína en ég veit ekki hvenær sólarhringsins leikirnir eru sýndir. Ef þeir eru um dag er þetta vitaskuld ekkert vandamál þar sem til er einfallt ráð við hvers kyns leiðindum í útlöndum: fatabúðir, þrátt fyrir glymjandi tómarúm í fjárhirslum Hlífar (því eins og sagt er glymur hæst í tómri tunnu)
En jæja, margt athyglisvert gerðist í Espánarferðinni.
- stal að mér sjálfri óafvitandi einum skó úr búð. Skilaði honum samt þegar ég uppgötvaði ránið (um klst. síðar) en búðarkonurnar áttuðu sig hvorki á þjófnaðinum né endurheimtingu skósins.
- Brann a.m.k. þrisvar á litlum blettum sem höfðu einhvern vegin orðið útundan í annars verulega samviskusömum sólarvarnaráburði.
- Var bitin af ósvífnum moskítóflugum á mjög svo ósmekklegan hátt. Einhver bölvuð flugudrusla beit mig í andlitið, ekki einu sinni, heldur fjórum sinnum. Tvö bitanna voru sem betur fer frekar smá en hin tvö voru stór, eldrauð og bólgin. Hvort á sínu kinnbeininu, en flugufjandinn gat ekki verið svo tillitsamur að gera þetta symmetrískt, svo ég leit út eins og ósymmetrískur trúður síðasta sólarhringinn.
- Var tvisvar spurð til vegar sama daginn. Fyrst á ensku, um staðsetningu næsta stórmarkaðar (lít ég út fyrir að búa þarna?) og svo á frönsku, af gömlum hjónum, um staðsetningu herbergis þeirra. Þeim svaraði ég á blöndu af spænsku, ensku og handapati og við skildum hvert annað fullkomlega.
- Borðaði á versta buffeti lífs míns og besta. Hið fyrrnefnda var á hótelinu og var vægast sagt óspennandi (þó ekki viðbjóður) og hitt var á asískum veitingastað rétt hjá hótelinu. Fullt fullt af hráefni sem maður valdi sér sjálfur á disk og horfði síðan á kokkana grilla það fyrir mann. Þetta var fullkomið: ég gat smakka rosalega margt og sleppt öllu þessu vonda og hljóp um eins og óð manneskja af kæti.
- Smakkaði, að ég held, froskalappir í fyrsta skipti á fyrrnefndum veitingastað.
- Tók tvisvar þátt, við mikla kæti sjálfrar mín, í Mini-diskói, niðri í hótelgarðinum um kvöld, en þetta var skemmtidagskrá fyrir börn en ég fór í fylgd litlu 3 ára frænku sem var allt of feimin til að taka þátt ein. Mér sýndist ég skemmta mér best af öllum börnunum þarna.
- Hlutstaði endalaust á stórskemmtilegt orðabrengl þeirrar litlu. Dæmi: Bíkíkín = bikiní, París= tennis, skónana=skóna, frukka= þvo/bleyta. Auk margra síendurtekinna setninga, eins og : „Núna mátt þú ekki koma í afmælið mitt“ (þ.e. þegar einhver gerði eitthvað sem féll í grýttan jarðveg hjá henni (hún á by the way afmæli í febrúar)), „Ég sé hótelihúsið okkar!" (alltaf þegar við nálguðumst hótelið), „Það er komin nótt“ (á hverju kvöldi, barnið virtist furða sig á því að mega vera úti eftir sólsetur).
- Drakk óhemju mikið áfengi í litlum skömmtum. Næsti farmiði sem mútta og syz gefa mér verður líklega ekki til útlanda heldur í meðferð.
- Fékk að heyra það að ég væri besservisser. What? Þó ég þættist stundum sérfræðingur í brjóstagjöf og svefnháttum ungbarna (4 mánaða sonur syz var með í för)! Ég get ekki að því gert hvað ég veit mikið og er vel gefin!
- Komst að því að það er ekki auðvelt að ferðast á milli landa með 2 öðrum fullorðnum, tveimur litlum börnum, öllum farangrinum + einum vagni + einni kerru (samtals 12 hlutir sem voru stimplaðir inn í flugvél, ofan á það bættist náttúrulega handfarangurinn)
- Fór í dýragarð. Á ströndina. Í vatnsrennibrautagarð (rosalega óþjált orð).
- Sá nokkurnvegin tilsýndar þar sem við bjuggum í Torre um árið. Held ég hafi líka séð götuhornið þar sem ég vann í viku, en var ekki hundraðprósent viss. Hefði viljað rölta í rólegheitum um Torre, en gafst ekki tóm til þess.
- Gerði kostakaup í H&M og keypti 3 buxur, 1 pils, 2 blússur, 2 boli, 4 hlýraboli, íþróttabuxur, 5 nærbuxur, 5 sokka, 2 leggings, hálsmen, tösku, náttkjól, teygjur, armbönd, hárbönd, 2 boli á Einar, 1 peysu á Einar og kannski eitthvað meira. Kostaði 30.000 kr.
- Eyddi meiri pening í einni verslun en ég hef nokkurn tíman gert áður
- Keypti mér nýja, stóra ferðatösku úti. Á einhvern undarlegan hátt var hún, og taskan sem ég kom með í ferðina, báðar fullar.
Á meðan ég var úti gerðist það að Aubban mín útskrifaðist og líka Nanna frænka og Kjartan „frænka“. Næstelsta barn sysktkina minna varð 13 ára (ég trúi ekki að litla krúttið mitt sé orðinn táningur), elsta barn systkina minna náði aldeilis stórglæsilegum árangri í samræmdu (9.3, svo ég monti mig af honum;) (og það sem enn betra er er að hann ku hafa séð ljósið og er hættur við að fara í versló en hefur þess í stað ákveðið að fara í MR!! Eða það var allavegar staðan fyrir 3 vikum (ég öskraði YESS yfir skírnarveisluna sem ég var í þegar mamma hans sagði mér fréttirnar). Núna hef ég smávegis áhyggjur af því að hann verði ekki ánægður í MR og þá finnst mér það vera mér að kenna. Hef samt ekki beitt hann miklum þrýstingi, hef meira talað um þetta á blogginu en við hann sjálfan (held ekki að hann lesi bloggið, en maður veit aldrei!), þannig að ég held ekki að þetta sé vegna áhrifa frá mér, þó mér fyndist auðvitað að börnin sjö (þ.e. börn systkina minna) ættu að verða fyrir miklum áhrifum frá stórufrænku sinni og feta í fótspor mín. Og verða málfræðingar. Sjáum nú til).
Nú er ég hætt! Það sagði ég reyndar líka áðan, en strokaði það út og skrifaði heila romsu í viðbót. Nú er ég hætt. Núna.
10 ummæli:
Þú hefur sömu áhrif á mig og Nína vinkona: bara við það að sjá þig finn ég munnræpuna vaxa og verða að glóandi eldhnetti (beygist hnöttur svona? voðalega er þetta eitthvað skrítið)sem ég veit að mun bana mér spúi ég ekki á þig öllum þeim orðum sem ég kann.
Reyndar hafa fleiri þessi áhrif á mig. Ég er svoleiðis búin að tala Kristínu og Gyðu í kaf. Ákvað að vinna heima í tvo dag til þess að þær myndu ekki fá leið á mér í þessari fyrstu viku minni í vinnunni.
Klukkan er rúmlega þrjú um nótt og ég held ég sé drukkin af svefnleysi.
Annars er ég alveg að fíla það að vera taugabiluð.
"Held ég hafi líka séð götuhornið þar sem ég vann í viku". Gerirðu þér grein fyrir því hvernig þetta hljómar!? Haha. Eða er eitthvað sem þú hefur gleymt að segja okkur?
þetta var skemmtileg færsla ! Hlíf fær verðlaunin Bros dagsins :)
Díana: Þú virðist hafa svipuð á hrif á talstöðvarnar í heilanum á mér, því venjulega er ég mjööög þögul. Það var svolítið í fyndið í fyrra þegar við, sem þekktumst EKKERT, vorum búnar að segja hvor annarri ævisöguna eftir tvo vinnudaga. Svo ef einhver einn kom í viðbót þá þögðum við eins og steinn.
Þórdís: Batnar þetta eitthvað þegar ég segi að stundum hafi verið "school nite" og þá hafi vinnufötin mín verið stutt pils, flegin skyrta og bindi? Sjitt hvað þetta var vafasöm vinna, sérstaklega með það í huga að það er (eða var allavega) mjög mikið af hóruhúsum í Torre. Dópistabretarnir sem við leigðum með í 2 vikur unnu meira að segja sem pimp í aukavinnu (annars unnu þeir á sama götuhorni og ég). Þessar 4-5 vikur sem ég eyddi í Torremolinos 2002 hafa gefið mér nóg af sögum til þess að segja barnabörnunum:)
Sólrún:) takk:)
Hlíf!! hvað varstu eiginlega að gera þarna á þessu götuhorni?
Já, og velkomin til baka og það væri nú gott ef þú myndir ekki vanrækja okkur í bloggheimum svona lengi næst. En, það reyndar gleymist allt þegar svona skemmtileg færsla kemur á eftir vanrækslunni.
Ég var bara að veiða fólk inn á bar.... fékk eina evru fyrir hverja manneskju sem ég dró inn. Maður átti svona svæði. Ég átti rosa stórt svæði því ég mátti fara niður á götuhornið og alveg upp götuna að næsta símaklefa. Við símaklefan byrjaði svæði íslenskra vina okkar, þannig að við stóðum oft við símaklefann og spjölluðum:) (en fórum aldrei fram hjá klefanum, því þá vorum við komin á svæði hins:))
Hahah þetta síðasta var fyndið. Og færslan líka. Nauh áhugaverð eða skemmtileg eða eitthvað svoleiðis vinna
fyrir hvaða bar varstu aftur að vinna? þið voruð allar í einhverju svona vinnu...man að auður vann fyrir kínverska veitingarstaðinn...og var ekki Gerður þarna niðri á san miguel götu? æ man þetta ekki alveg...
Ég vann (í mjög stuttan tíma samt) fyrir bar sem hét Bar Nanas (bananas). Gerður vann á Bar 1 (hún vann samt inni á barnum sko).
oh, mig langar til Spánar...og í H&M....aldeilis góð kaup sem þú gerðir þar!
Skrifa ummæli