mánudagur, október 06, 2008

833.færsla. Okkar eigin 11. september.

Geigvænlegar fréttir berast, Geirharður nefnir þjóðargjaldþrot og biður fyrir þjóðinni.

Verslanir tala um vöruskort og fólk hamstrar. En ég, sem dragnaðist draugþunn í Bónus í gær keypti bara frosið mangó og rjóma. Nauðsynjavörur. Í staðinn fyrir hrísgrjón, pasta og dósamat.

Æ, Ó! að eiga ekki frystikistu! Þá hefði ég tekið slátur, farið í berjamó og skorið rabbabara. Og lifað á því í vetur. Jæja, mágur minn er veiðimaður. Hann getur kannski skotið dúfur eða eitthvað ef við verðum matarlaus.

Guð hjálpi okkur öllum!

Hver bað þessa banka að verða svona stórir? Og svo situr þjóðin öll í súpunni. Ekki högnuðumst við neitt á þessu. Ekki voru kjörin neitt sérstaklega góð á meðan bankarnir skiluðu hagnaði. Þetta er nú meiri djöfulsins vitleysan allt saman.

En eins og ég segi: Ég var fátækur námsmaður í góðærinu - verð fátækur námsmaður í kreppunni. Frekar lítill munur þó að maður finni svosem að vöruverð hækki.

Það er í það minnsta mjög gott að ég sé á leiðinni í átak. Þá borða ég minna. Sparnaður.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

aldrei verið jafnfegin að eiga ekki neitt! Fínt að vera bara fátækur námsmaður í kreppunni... Betra en að vera bankamaður í kreppunni :)

Heimir Freyr sagði...

Ja, þið megið þakka fyrir að búa ekki í útlandinu! Ég lít með hryllingi á hraðbankana og posa og bið helst ekki um kvittun ... svo er tímakaupið mitt farið að nálgast launin í unglingavinnunni. En, þetta eru svo sem bara peningar.

Sei sei.