860.færsla.
Það er svo margt að segja.
Smá stresstörn er lokið. Síðustu vikuna í nóvember var mikið að gera í kennslunni sem endaði með munnlegu prófi á föstudeginum. Það fannst mér örugglega álíka stressandi og nemendunum. Svo fór ég á fund með mastersnefndinni og þaðan beint á koffíhás að hitta stelpurnar. Við hittumst allt of sjaldan. Á laugardeginum var síðan laufabrauðsmaraþonið, en ég held við höfum skorið út og steikt 160 kökur. Ég sat án gríns í tæpa fimm tíma og skar eins og ég ætti lífið að leysa. Mér finnst þetta samt svo ógjó gaman að ég kvarta ekki undan því. Á sunnudeginum fór ég síðan á yndislega útgáfutónleika hjá Nýja kvartettinum, en Addi elsti bróðir minn spilar í honum. Mæli alveg með þessari plötu. Og svo bjó ég til aðventukrans. Fyrsta aðventuhelgin var sem sagt mjög jólaleg og góð.
Svo tók við seinni hluti stressins, en við Einar höfðum ákveðið að halda saman fyrirlestur á stórri ráðstefnu sem var núna um helgina. Samvinnan gekk asskoti vel, sem kom mér eiginlega á óvart því að það er ekki alltaf auðvelt að vinna með fólki sem er svona náið manni. En þetta endaði auðvitað í heljarinnar stressi, sérstaklega daginn fyrir ráðstefnuna þegar allt sem við höfðum gert gufaði upp fyrir klaufaskap. Til allrar hamingju gat reiknistofnun fundið skjalið (reyndar eldri gerð) sveimandi á veraldarvefnum, eða eitthvað. Svo um kvöldið fékk ég allt í einu þá tilfinningu að við værum algjörlega að klúðra hugtökunum og fannst ég ekki skilja NEITT í þessu. Fékk smá svona taugaáfall en það reddaðist:) Svo hélt ég fyrirlesturinn eftir mjög lítinn svefn, og var frekar illa undirbúin fyrir flutninginn, sem stressar smá þegar maður þarf að halda þetta á útl-ensku. En svo gekk þetta bara vel:) Allavega fengum við hrós frá frægum útlenskum málfræðingi og það er ekki leiðinlegt. Svo erum við Einar, samkvæmt ráðstefnubæklingnum, doktorsnemar sem hlýtur að þýða það að ég þurfi ekkert að vera að gera þessa mastersritgerð fyrst ég er þegar komin í doktorinn:) eða hvað.
Sem sagt: mikill léttir að vera búin að þessu.
Í gær hittumst við mæðgur og bökuðum á fullu heima hjá Önnu sys. Já og pabbi líka og Garðar Þorri en þeir fengu ekkert að baka, sá fyrrnefndi passaði þann síðarnefnda svo við fengjum frið til bakstursins. Magga litla var rosa dugleg að baka, það var bara heilmikil hjálp í henni þó að hún sé ekki einu sinni orðin fjögurra.
Já og nú á ég bara eftir að redda 4000 jólagjöfum eða svo. Einhverjar þeirra eru í vinnslu, en það tekur skrambi langan tíma. Ég hef ekki einu sinni hugmynd um hvað ég ætla að kaupa handa neinum. Jæja þetta reddast. Fyrst jólin 2002 redduðust þá reddast allt. Þá var ég í prófi til 21.des, mætti, ósofin og taugatrekkt, beint eftir prófið í laufabrauðsmaraþonsskurðinn, og síðan um kvöldið var próflokafagn með vinkonunum. Vaknaði þunn og þreytt þann 22., og átti þá eftir að kaupa ALLAR jólagjafirnar, hringdi í bankann og komst að því að ég átti bara tæpar 2000 krónur inni á reikningnum. En það reddaðist: svo það reddast allt.
Og ég hlakka ýkt til.
2 ummæli:
Hefur maður sem sagt tíma til að jólastússast þegar maður verður fullorðinn (þótt alltaf sé stressið eitthvað greinilega)? Sjitt hvað ég hlakka til. Dett alltaf út í próflestri og fer að palan hvenær ég ætli að gera þetta og hitt. Og samt var ég búin að gera helling í nóvember. Á nær engar gjafir eftir, búin að baka tvær sortir og plana afmælið mikla.
En ég er samt óvenju tjilluð. Bitnar samt á prófunum. Er allt of tjilluð þegar kemur að þeim.
dr
þar sem ég þekki þig svolítið þá styð ég tjill heilshugar.
Jú, maður hefur meiri tíma þegar maður verður fullorðinn hef ég heyrt. En ég veit það ekki því ég er ekki fullorðin. Nei, reyndar, þá held ég maður hafi ekki meiri tíma, bara öðruvísi, af því að ég held það bætist alltaf við það sem maður þarf að nýta tímann í.
Skrifa ummæli