fimmtudagur, september 17, 2009

925.færsla. pirr

Ég vaknaði upp við þann vonda draum áðan að í dag er 17. en ég átti að sækja um húsaleigubætur fyrir þann 16. ARG. Í þetta skiptið var ekki bara aulahætti mínum um að kenna, heldur hjálpaði þetta:

[Fyrir mánuði síðan. Unga parið skokkar glatt inn til sýslumanns. Parið hélt að það væri með allt á hreinu, af því að það vissi að það þyrfti fyrst að þinglýsa húsaleigusamningi áður en hægt væri að sækja um húsaleigubætur]

Ég: Góðan daginn. Ég ætlaði að þinglýsa húsaleigusamningi
Hún: Já, ertu með húsaleigusamninginn?
Ég: já
Hún: á löggiltum skjalapappír?
Ég: já
Hún: ertu með afrit af samningnum?
Ég: uuu
Hún: þú þarft að koma með afrit af samningnum á LÖGGILTUM SKJALAPAPPÍR
Ég: óó
Hún: þú þarft að fara á þennan stað til að kaupa pappírinn
Ég: óó. Og ljósrita ég svo bara samninginn á hann?
Hún: nei, nei, við gerum það fyrir þig hér ... þú þarft bara að útvega pappírinn
Ég [inni í mér] heimska heimska kerfi, afhverju í andsk. er pappírinn ekki bara seldur þarna?
Hún: ég sé það hérna að sú sem bjó áður í íbúðinni hefur ekki afþinglýst húsaleigusamningnum.
Ég: [inni í mér]ARG
Hún: Leigusalinn þarf að fylla út þetta eyðublað
Ég: [inni í mér] ARG [leigusali býr úti á landi]

Löngu seinna eftir að ég hafði haft samband við leigusala, sem aftur hafði samband við fyrrv. leigendur, og loks tókst að afþinglýsa.

Aftur hjá sýsló

Ég: [sigri hrósandi með löggilta pappírinn] Já, ég er að þinglýsa húsaleigusamningi
Hún: 1300 kr [augljóslega ekki efniskostnaður]
Hún: Þú getur sótt þetta á fimmtudaginn
ég: [inni í mér] why?
ég: [við hana]ok

Svo kom fimmtudagurinn, sem var fimmtudagurinn fyrir viku. Og ég steiiiingleymdi þessu. Eins og fyrr segir ranka ég svo við mér í dag, prenta út eyðublað til að sækja um húsal.bætur og sé þá mér til hryllings, að þetta þurfti að gerast fyrir daginn í gær. ARG. Af hverju gat ég ekki munað þetta EINUM degi fyrr? Af hverju þurfti maður að bíða tvo daga eftir að geta sótt samninginn? Af hverju voru stelpurnar ekki búnar að afþinglýsa samningnum? Af hverju getur sýslumaðurinn ekki átt löggiltan skjalapappír?

Og ég fer. og sæki samninginn. Og fer og leita að þjónustumiðstöð. Sem er í götunni minni. En ég var samt mjög lengi að finna þetta því að hús númer 21 er hvergi nálægt húsi númer 20. Nei. Það væri of einfalt. Og skila inn eyðublaðinu.

Konan: Þú veist að þú færð bara bætur fyrir október.
Ég: [mjög sorgmæddri röddu] við vorum svo sein ...
Konan: Þú veist að þú hefðir getað sótt um bæturnar OG SVO skilað þinglýsta samningnum.
ég: [aaaaarg, djöfulsins, andsk.]Nei, ég vissi það ekki!

Heimskulega rugl. Kostar mig væntanlega 18.000 krónur.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Úff þetta er ljót saga, ég samhryggist.
Kv. Helga Björg

ella sagði...

Vaáá.

Nafnlaus sagði...

oj bara! Þetta minnir mig á þegar ég fór á pósthúsið í Costa Rica og ætlaði að senda bréf. Þeir seldu hvorki umslög né frímerki og á endanum þurfti ég að fara í tvær mismunandi búðir til að verða mér úti um slíkt. Foj, aumingja þið!

Gyða

Heimir Freyr sagði...

Ef það er einhver huggun, er kerfið hér í Hollandi ekki síður tregt, seinvirkt og ógagnsætt. (Reyndar hef ég heyrt ófáa brandara innan þess kerfis, þegar ég segi hlutina gerast öðruvísi á Íslandi --- þá sé ekki skrítið hvernig fyrir Íslandi er komið.)

Tinnuli sagði...

Meiri vitleysan, eigið alla mína samúð, varðhundar valdsins eru alls staðar og veigra sér ekki við að sýna illskulegar tennur!

Nafnlaus sagði...

SKO - hafandi unnið sjálf við þinglýsingar.....það er afar mikilvægt og reyndar beinlínis lögskylt að taka tvo daga í þetta! Fyrri daginn er skjalið dagbókarfært, en þann síðari er því þinglýst! Og allskonar markmið að baki þessu, sem eru barasta alveg lögmæt. Svo mæli ég bara með reminder.....ég man EKKERT svona nema það poppi upp í símanum mínum! Leitt að þetta fór svona. Knús, A.