929.færsla. Samfarastjóri
Sko Útsvar er uppáhalds sjónvarpsþátturinn minn en mér finnst rosalega erfitt að horfa á leikinn. Vorkenni alltaf svo fólkinu sem er að leika og fólkinu sem er að giska. Öskra svolítið leiðbeiningar til fólksins, í von um að það bæti frammistöðu sína "farðu á fjóra fætur, maður", "hrærðu, hrærðu", "leiktu sleif!!" Yfirleitt heyrir fólkið lítið í mér, eða lætur sem það heyri ekki. Ég veit samt að það er eiginlega mikilvægara að fólk sé gott að giska heldur en það hvernig leikarinn stendur sig. Hef sjálf oft reynt það á eigin skinni. T.d. þegar ég lék listavel "að kæfa í fæðingu" og eina giskið sem hópurinn minn gat stunið upp var "kæfifæðing"- Kæfifæðing ... hvað er það? Ég skal þó viðurkenna að ég lék þetta kannski full vel og var víst ansi grafísk og fólkið mátti ekki mæla fyrir hlátri, skilst mér.
Þegar ég hugsa um þetta þá hefði ég klárlega átt að verða grínleikari. Ég er ekkert endilega góð í að koma fólki í skilning um það hvað ég er að leika, en fólk hlær allavega nógu mikið, stundum. Held ég hafi t.d. næstum því drepið samfararstjórana mína (hahahahahahaha. Var að hugsa um "fararstjóra" og "sam-" eins og í "samnemendur" og þetta varð útkoman) í Hollandi þegar ég lék flugnaspaða. Mér datt ekki í hug að láta eins og ég væri að drepa flugur með flugnaspaða (það hefði verið of auðvelt), heldur þóttist ég sjálf vera flugnaspaði, stóð pinnstíf, og lét mig svo skyndilega detta hratt á dýnur hér og þar. Þurfti að detta ansi oft áður en samfararstjórarmínir gátu stunið upp úr sér réttu svari. En þau hlógu að minnsta kosti. Verð að viðurkenna að ég var líklega ekki langt frá því að nefbrjóta mig í eitt skiptið þegar ég lét mig detta á andlitið.Ég held að þetta hafi orðið til þess að ég þótti "the funny one" meðal fararstjóranna þó að ég sé nú annars ekki svo fyndin. Það er reyndar lygi. Ég er ógeðslega fyndin. Fólk veit bara oftast ekki að ég er að grínast. Og ég hlæ inni í mér. Hehe.
p.s. ég hef það sterklega á tilfinningunni að ég hafi bloggað áður um bæði kæfifæðinguna og flugnaspaðann, en ég get náttúrulega ekki fundið neitt á þessu bloggi. Ætlaði alls ekkert að tala um þetta, var að tala um útsvar. Þetta kom bara svona.
2 ummæli:
hahahhaha nú hef ég tekið gleði mína á ný :)
Hahahah:)
Skrifa ummæli