963. færsla. Donostia - San Sebastián
Hér er ég í Sanse, Donostia eða hvað maður á nú helst að kalla þetta. Við Einar vorum að koma af barnum með JGJ og HÞ, þar sem við horfðum á fótbolta (já, ég líka) og drukkum unas cervezas (por favor). Þar áður borðuðum við pinchos. Spænskur matur er skrítinn, ég fer ekki ofan af því.
Borgin er yndisleg og stórfenglega falleg, það finnst mér. Æðisleg strönd, fjöll og fallegar byggingar. Sól en ekki of heitt. Hæðótt, kastali, gamla hverfið. Skútur á voginum og þegar maður kemst til þess að sjá út fyrir voginn sér maður endalaust Atlantshafið. Ótrúlega fallegt. Mig langar ekkert að fara héðan. Ef Katla ætlar á annað borð að gjósa á næstu árum, þá vil ég vinsamlegast biðja hana að byrja núna svo að ég þurfi ekkert að fara heim frá Spáni á næstunni.
Í fyrrinótt vorum við í Madríd. Það var ótrúlega súrrealískt eitthvað að vera aftur í Madríd. Mér leið pínu eins og ég væri bara í ókunnugri borg, en við og við helltust yfir mig gamalkunnar tilfinningar og skyndilega var ég fimm árum yngri og var hluti af Madríd en ekki ókunnugur ferðamaður. Ég held ég trúi því ekki enn að ég sé aftur komin til Spánar og fái að ganga um götur Madrídar. Mér finnst eins og ég sé alls ekki sama manneskjan og ég var þegar ég bjó þar.
Mér fannst líka eins og kannski kæmist ég ekkert í þessa ferð. Fyrir ferðina, þegar við Einar fengum staðfestingu á því að við kæmumst inn á ráðstefnuna, og ákváðum að vera nokkra daga í Madríd, fannst mér næstum því að þetta væri of gott til að vera satt og ég gæti varla byrjað að hlakka til strax. Þar að auki var ég náttúrulega að fara á júróvisjón á undan og sú ferð var eins og óraunverulegur draumur, ótrúlegt en satt, ég átti að upplifa júróvisjón sjálf, með eigin augum. En sú ferð fór ekki eins og ætlað var, Siggi bróðir minn dó, og mér leið virkilega eins og þetta hefði í raun verið of gott til að vera satt. Eins og ég hefði hlakkað of mikið til og þessi mikla spenna hefði snúist upp í andhverfu sína. Eftir þessi miklu vonbrigði og alla sorgina var ég á nálum yfir næstu ferð. Var í móðursýkiskasti yfir því að ég gæti mögulega fengið hlaupabólu og ekki komist í ferðina. Fékk martraðir um að einhver annar fjölskyldumeðlimur dæi. En ég komst samt sem áður og vona að ég geti leyft mér að njóta þessar ferðar og soga að mér spænska andrúmsloftið sem ég hef saknað svo mikið.
Ég var samt ekki sátt þegar ég uppgötvaði að veskinu mínu hafði verið stolið með ótrúlega miklum pening í því. Mér finnst ótrúlega ósanngjarnt af lífinu að ég skyldi ekki bara geta fengð að njóta þessarar ferðar eftir allt sem á undan er gengið. Fannst í svolitla stund eins og allt væri ónýtt, en með hjálp Einars tókst mér að muna að peningar eru bara peningar og skipta í raun og veru engu máli. Ég er samt sem áður ótrúlega heppin að vera hérna og fá að upplifa þetta allt saman. Ég myndi ekki vilja missa af því.
Á morgun byrjar ráðstefnan og verður allan daginn. Hún er haldin í einhverri höll. Hlakka til að sjá hvernig þetta verður allt saman.
Besitos
4 ummæli:
Mér finnst oft vont að finnast eitthvað oft gott til að vera satt því þá er maður, eins og þú segir, alltaf á nálum.
Stundum er hlutirnir ekki of góðir til að vera sannir og stundum á maður þá virkilega skilið. Einmitt þess vegna held ég að þú sért komin heil á höldnu til Spánar og hafir fengið í nokkra daga að ferðast aftur í tímann í Madrid.
Ég er svo glöð fyrir þína hönd að þú sért að njóta þín. Gott að þú lést steliþjófinn ekki eyðileggja fyrir þér og gott að þú ert ekki ein heldur hefur Einar með þér.
Nos vemos chela.
dr
Njóttu lífsins frænka mín.
Eftirskrift: Það verða mjög sennilega fleiri jóróvisjónir.
Af óþekktum ástæðum breyttist ú í ó. Hlýtur það ekki bara að vera einhvers konar hljóðvarp?
Takk Díana mín og Ella mín.
Hm, Ella. Ætla að rannska þetta í næsta fyrirlestri:)
Skrifa ummæli