þriðjudagur, desember 14, 2010

974. færsla. Gladiator

Úff. Er enn að jafna mig á ævintýrum næturinnar.

Ég var nefnilega skylmingaþræll. Það var svaaakalega stressandi. Ég var alveg með hjartað í buxunum. Fyrst mætti mér stórt og ógnvekjandi ljón. Ég vissi svo sem alveg að það þýddi ekkert fyrir mig að reyna að berjast við það svo að ég taldi betra að reyna að leika á það á einhvern hátt. Reyndi að hlaupa undan því, en gekk illa. Við vorum sko upp á áhorfendapöllunum (skyldi reyndar ekki af hverju ljónið vildi bara éta mig, en ekki alla áhorfendurna), svo að ég hljóp hratt í áttina að enda pallsins, en snarbeygði svo til vinstri þegar ég var alveg komin að endanum, en ljónið sá þetta ekki fyrir, gat ekki stoppað sig og hrapaði niður.

Þarna hélt ég sko að ég væri sloppin!

En ó nei, það var sko ekki nóg að sigra einn andstæðing, það þurfti einhver áhorfandi úr salnum að kaupa mig lausa. Og áhorfendunum fannst ekki nóg komið, svo að næstu ófreskjunni var sigað á mig: morðóðum manni. Þetta var svona rymjandi vöðvafjall með keðjur. Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að losna undan honum (var aftur komin upp í áhorfendastúku). Sá þarna einhvern reipisspotta liggjandi, sem virtist fastur í einhverns konar járnstólpa, og ég hugsaði með mér að ef ég myndi tosa í reipið, þá myndi kannski járnstólpinn losna, og ég gæti þá notað hann sem vopn. Ég tosaði og tosaði, en sá fljótlega að þetta myndi ekki ganga, en var þarna komin með heljarinnar langan reipisspotta, og gat notað hann til að klifra niður þennan sama vegg og ljónið hafði hrapað niður rétt áður. Þá var ég búin að losna við morðóða manninn - en ég veit þó ekki af hverju hann gat ekki bara elt mig niður reipið, þetta var svolítið auðveld lausn.

En þá loksins sá einhver áhorfandi aumur á mér (enda búin að sigra tvo bandbrjálaða andstæðinga!) og keypti mér frelsi.

Úff, ég var nú alveg eftir mig eftir þetta allt saman auðvitað. Var samt áfram í sambandi við veljörðarmann minn sem hafði bjargað mér þarna. Ég og kærastinn minn (sem var kannski Einar, en kannski einhver annar, enda var ég reyndar ekki ég, heldur Ragnhildur Steinunn (why?)) kíktum í heimsókn til mannsins og kærastans hans og fórum að segja þeim frá plönum okkar um að flytja til útlanda eftir tvö ár. Þá varð "velgjörðarmaðurinn" ekki ánægður: "bíddu ertu að segja mér að ég hafi þig bara í tvö ár? - Það gengur ekki".
"Hvað áttu við"- spyr ég hálf óttaslegin.
"Nú, þar sem ég keypti þig lausa þá ég rétt á því að láta þig berjast einu sinni á ári næstu 25 árin til að standa undir kostnaði"
ARG - þetta var náttúrulega hræðilegt sjokk. Ég segi ekki neitt en fer strax að hugsa að við verðum bara að flýja land og fara huldu höfði, ég geti ekki lent í svona bardaga aftur. En - þá virtist maðurinn alveg skilja hvað ég var að hugsa og festi á mig svona ökklasendi (gps), á báða ökkla, svo að hann gæti alltaf vitað hvar ég væri. Þá var ég í vanda stödd. Ef ég nefnilega bryti tækið til að ná því af ökklanum, fengi hann strax boð um það. Ég yrði því að vera algjörlega tilbúin með flóttaplan svo að okkur tækist að flýja á mjög skjótan hátt eftir að ég bryti tækið af.

Jæja, í millibilinu er einhver garðveisla í blokkinni þar sem við Einar búum og líka "velgjörðarmaðurinn" og kærasti hans. Þar kynnumst við Einar öðrum skylmingaþræli, sem hafði tekist að flýja af leikvanginum í gegnum skolpþróna. Hann var alveg þakinn í skít og ógeðsleg kúkafýla af honum. Jæja, við verðum vinir hans og ég hugsa með mér að hann (svona undirheimamaður) gæti örugglega hjálpað mér að losna við gps-tækin án þess að þau gæfu frá sér viðvörunarmerki. Svo komu á svæðið tvær vinkonur sem ég hugsaði með mér að ég gæti látið fá sitthvorn sendinn, til að villa um fyrir velgjörðarmanninum. En svo fannst mér ég ekki geta komið þeim í slíka hættu. En skyndilega varð eitthvað til þess að ég missti mig alveg og braut helvítis sendana af mér, en þetta var í raun góður tímapunktur til þess, þar sem velgjörðarmaðurinn og kærastinn hans voru uppteknir í garðveislunni og voru því hvergi nærri tölvu til að fylgjast með mér. Við Einar drifum í því að taka okkur til fyrir flóttann ...

Og þá vakanaði ég. Með DÚNDRANDI hjartslátt! Sjitt, þetta var svakalegt.

Þessi draumur hafði allt til að bera: ljón, morðótt vöðvafjall, gps-senda, ríka homma, Ragnhildi Steinunni, flótta, garðveislu, flótta í gegnum skolp, undirheimalýð ...

Spurning um að hafa samband við Hollywood.

5 ummæli:

Fríða sagði...

já, það er sem ég segi, það er kannski eins gott að maður man fæsta drauma, spáðu bara í hvað þú hefur verið að gera allar hinar næturnar þar sem þú hefur gleymt draumunum!

Regnhlif sagði...

Já, það er pínu ógnvekjandi!:)

ella sagði...

Og hvenær á maður svo að hvíla sig?

Regnhlif sagði...

nákvæmlega Ekki skrítið að maður sé þreyttur eftir svona átök.

Kristín Baldurs sagði...

Þetta var nú sérstakur draumur - og mikið er nú gott að þetta var einmitt bara það, draumur. :)