978.færsla. svefn ungbarna
Kannski er ég rugluð, en mér finnst þessi texti alveg sprenghlægilegur (tekið af ljósmóðir.is)
"Upp í hjá foreldrum
Ef foreldrar kjósa að láta ungbarn sofa uppi í rúmi hjá sér þarf að gæta vel að öryggi barnsins. Hafið í huga sömu þætti og þegar ungbarn er lagt til svefns í eigin rúmi þ.e. svefnstellingu, undirlag, strekkt lak og hluti í nánasta umhverfi.
Öruggast er að flytja dýnur á gólfið til koma í veg fyrir fall úr rúminu. Ef það er ekki gert þarf að huga að því að fjarlægja höfuðgafl, fótagafl og hliðargafla sem mögulegt er að ungbörnin geti meitt sig á.
Einn af kostum þess að hafa ungbarn upp í rúmi hjá móður er að það auðveldar brjóstagjöf að nóttu. Ef barni er gefið brjóst í hliðarstellingu, gætið þess þá að leggja barnið til svefns á bakið eftir að brjóstagjöf er lokið.
Reykingar foreldra auka líkur á vöggudauða og því ætti aldrei að reykja á heimili ungbarns. Foreldrar sem reykja ættu ekki að láta ungbarn sofa upp í hjá sér.
Þar sem viss hætta er á að fullorðinn einstaklingur leggist ofan á ungbarn sem sefur í rúminu er í raun öruggast að það sé aðeins móðirin sem deilir rúmi með ungbarninu til að minnka þessa áhættu. Það er hins vegar ljóst að í mjög mörgum tilfellum sefur faðir barnsins einnig í sama rúmi en eldri systkini ættu t.d. aldrei að sofa í sama rúmi og ungbarnið. Það er í raun hvorki hægt að segja að það sé fullkomlega öruggt eða hættulegt að ungbarn sofi upp í hjá báðum foreldrum.
Rannsóknir hafa sýnt fram á aukna hættu á vöggudauða ef móðir er þyngri en 80 kg. og deilir rúmi með ungbarni sínu. Rannsakendur telja að þetta megi skýra m.a. með því að aukin hætta sé á að móðir sem er þyngri en 80 kg. leggist ofan á ungbarnið í svefni.
Móðir ætti aldrei að deila rúmi með ungbarni sínu ef hún hefur neytt róandi lyfja, eiturlyfja eða áfengis."
Í fyrsta lagi: já, auðvitað, allir nýjir foreldrar flytja bara rúmdýnuna á gólfið og sofa þar á meðan þeir eru með ungabarn! Auðvitað:) Það eru náttúrlega allir með nægt gólfpláss í svefnherberginu til þess ...
Í öðru lagi: ef maður einhverra undarlegra hluta vegna ákveður EKKI að setja rúmdýnuna á gólfið, þá á maður að fjarlægja alla gafla, "sem barnið getur meitt sig á". Ég skil bara ekki alveg hvernig ungbarn getur meitt sig á þessu. Mér dettur tvennt í hug: a) barnið gæti slengt höfðinu af öllu afli í höfðagaflinn. b) Barnið gæti einhvern veginn fest sig í gaflinum. En reyndar verð ég að segja að ég sé ekki fyrir mér að annað af þessu gerist, þar sem ég hélt nú eiginlega að ungabörn gætu ekki hreyft sig mikið ... jú þau geta baðað út öllum öngum og svona ... en mér finnst þetta eiginlega mun hættulegra fyrir aðeins eldri börn.
Í þriðja lagi: "Það er hins vegar ljóst að í mörgum tilfellum sefur faðir barnsins einnig í sama rúmi" - hahahaha (maður myndi ætla að svo væri)
Í fjórða lagi: Foreldrar sem reykja ættu aldrei að láta ungbarn sofa uppi í hjá sér. Hmm... er það þá út af því að ef maður er nýbúinn að fá sér smók og legst strax upp í rúm þá gæti maður verið að anda reyk á barnið? Eða geislar reykingafólk bara frá sér óhollustu í langan tíma? Er þá yfir höfuð óhætt fyrir barnið að sofa í sama herbergi?
Í fimmta lagi: Ef móðir er þyngri en 80 kíló þá er aukin hætta á vöggudauða. Líklega vegna þess að móðurinni er þá hættara við því að leggjast óvart ofan á barnið. Þetta finnst mér alveg sprenghlægilegt. OK. Ef maður er aðeins of þungur, veit maður þá ekkert hvað maður er að gera lengur? Sefur maður fastar? (ekki geri ég það að minnsta kosti) Rúllar maður um í rúminu án þess að gera sér grein fyrir því? Ég sé fyrir mér akfeitt fólk sem kemst ekki út um venjulegar dyr og að þá gætu keppirnir óvart flætt einhvern veginn yfir barnið. En 80 kíló? Ef kona er meðalhá, segjum 170 eins og ég, þá er 80 kíló vissulega of þungt en samt ekkert svakalegt. Og ef kona er segjum, 185 á hæð, ætli 80 sé ekki bara fín þyngd fyrir hana? Er kannski líka hættulegt fyrir barnið ef maður er langur og mjór? Maður gæti þá verið með oddhvassa olnboga ... sem gætu meitt barnið.
Varúð! Kaffið er heitt!
(Ekki kæra mig samt til barnaverndarnefndar, ég stefni að því að gæta fyllsta öryggis þegar ég eignast barn og mun örugglega ofvernda það ef eitthvað er. Eins kann að vera að þessir punktar séu allir mjög mikilvægir og ég sé bara að snúa út úr)
5 ummæli:
Margt er skrýtið í kýrhausnum.
Djís. Skrítinn texti
Ég legg til að þú setjir gamladagabloggið mitt inn á frænkulistann þinn af því að það er svo fjölskyldulegt.
búin, Ella
Ég dey! Þetta er svo fyndið.
Aðeins over the top svona.
Annars eiga víst öll skaðlegu efnið að koma út um svitaholurnar á reykingarfólki í einhvern tíma eftir smók.
Það eru engar gaflar á okkur rúmum og ég var ekki búin að lesa þennan texta svo ég var ekki með dýnur á gólfinu. Röskva svaf vært með brjóstagjafapúðann í kringum sig og slengdi höfðinu hvorki eitt né neitt þegar það eina sem hún kunni var að opna munn og augu og loka aftur.
Skrifa ummæli