þriðjudagur, júní 07, 2011

994.færsla.

Þegar ég skrifaði síðustu færslu þá datt mér ekki í hug að ég þyrfti bara að bíða í 10 daga eftir að allt færi af stað.

Reyndar er ekki alveg rétt að færsla 993. (með innihaldið "Ég hlakka svo til" - sem vísaði auðvitað í ófæddan soninn) sé síðasta færsla, því að ég var einmitt í miðjum klíðum að blogga þegar þetta gerðist allt saman. Um júróvisjón. Sem var auðvitað mjög seint í rassinn gripið, því að daginn eftir, eða 10. maí, var fyrri undankeppnin í júróvisjón.

Ég var líka nýbúin að spyrja Einar hvort við ættum ekki bara að panta pítsu því að ég nennti ekki að elda.

Ég var líka búin að eiga í dramtísku og löngu samtali við Ásu vinkonu. Það samtal hefði án efa verið hápunktur dagsins, ef allt hefði ekki farið af stað.

Ég var líka nýbún að spjalla við Eyrúnu, sem hafði verið óléttufélagi minn, en hún var sett sex vikum á undan mér, en átti svo barnið 2 vikum fyrir tímann svo að ég bjóst við því að það yrðu að minnsta kosti 8 vikur á milli barnanna okkar. Sú varð nú ekki raunin.

Þennan dag hafði ég líka farið í sund. Guði sé lof að ég fór fyrr um daginn en ekki klukkan, segjum, sex.

Ég hafði líka prjónað góða stund úti í sólinni barnateppið sem ég var nýbyrjuð á. Mér fannst þetta pínu tæpt hjá mér að byrja svona seint, en hey - ég hafði mánuð. Hélt ég.

Ég var síðan einmitt að sækja prjónadótið, klukkan um sex um kvöldið, þegar allt fór af stað. Ég beygði mig aðeins fram yfir stofuborðið - og þá gerðist það. Vatnið fór. Ég var nú svosem ekkert viss hvað væri að gerast fyrst, hélt kannski að ég væri farin að missa þvag! Mjög fljótlega varð þó ljóst hvers kyns væri, því að þetta gusaðist bara þvílíkt. Buxurnar urðu rennblautar niður í sokka og góður pollur myndaðist á baðgólfinu - þar sem ég stóð, starði á vatnið og ofandaði.

Sjitt hvað ég bjóst aldrei við þessu! Bara aldrei. Með fyrsta barn reiknar maður alltaf frekar með því að ganga fram yfir. Nema kannski ef eitthvað hefur verið óvenjulegt á meðgöngunni. En svo var nú ekki hjá mér, allt hafði gengið mjög vel, ekkert sem benti til meðgöngueitrunar eða nokkurs annars sem gæti framkallað fyrirburafæðingu. Ég held ég sé ennþá að átta mig á þessu bara. ÉG BJÓST SVO EKKI VIÐ ÞESSU. Ég sver það.

Svo að ég fékk að prófa að fara í sjúkkrabíl. Það var nokkuð gaman bara - þrátt fyrir sjokkið. Drengurinn var nefnilega ekki skorðaður og þá á maður víst bara að leggjast niður og hringja á sjúkranbíl. Sem ég gerði (lagðist meira að segja niður á baðgólfið, við hliðina á pollinum, með vigtina sem kodda, hmm hvað ætli höfuðið á mér vegi?) - en hringdi reyndar fyrst upp á fæðingardeild þar sem mér var sagt að ég mætti færa mig inn í rúm! Ferðalagið í sjúkrabílnum var nú samt ótrúlega stutt þar sem ég bý nú bara í sömu götu og spítalinn er. Ég hefði getað labbað þangað ef aðstæður hefðu verið aðrar. Fyndið samt að fara svona með sjúkrabíl. Ég var held ég berfætt og fór náttúrulega ekkert í skó, enda var mér bara vippað úr rúminu yfir á börur. Kjánalegt samt að vera fullfrískur (ófrískur reyndar) og þurfa að hegða sér eins og maður geti ekki hreyft sig.

Merkilegt líka svona þegar vatnið fer með látum. Mér fannst bara eins og óléttubumban hefði horfið á svipstundu. Greinilega mikið pláss sem vatnið tekur.

En til að gera langa og of grafíska sögu stutta, þá var drengurinn fæddur tæpum tólf tímum eftir að vatnið fór. Akkúrat 4 vikum fyrir tímann. Fæðingin gekk að mestu leyti vel. Ég fékk engar deyfingar, þó að ég hefði sko alveg kunnað að meta eitt stykki mænudeyfingu, því að þetta var sko bara ekkert þægilegt. En þá var það orðið of seint og maður varð bara að bíta á jaxlinn.

Þetta er undarleg blanda af því að vera stórmerkileg upplifun og að vera á einhvern hátt bara hversdagslegt. Bara svona: já. Eðlilegt einhvern veginn.

Sama með að vera skyndilega orðnir foreldrar: ótrúleg breyting, en samt svo sjálfsagt einhvern veginn.

Ég ætla nú ekkert að vera að dásama drenginn of mikið, en ég verð þó að segja að, mér til nokkurrar furðu, þá virðist hann vera fallegasta barn sem hefur fæðst á jörðinni.

Best að fara að gefa brjóst eða eitthvað.

5 ummæli:

ella sagði...

Mikið var ég búin að bíða eftir þesssari færslu :) takk fyrir hana, hún er góð eins og við var að búast. Njótið lífsins.

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa bloggið þitt elsku Ella mín. Ég sakna ykkar allra svo mikið. Kysstu alla frá mér.
Þín Magga

Fríða sagði...

Þetta er eiginlega bara alveg frábær færsla :)

Nafnlaus sagði...

Oh en ótrúlega frábær færsla.
Hef áður spáð í hvernig það er þegar vatnið fer. Nú veit ég það;)
En já, rosalega gaman að lesa þetta allt:)

Fríða sagði...

Nei, vitiði nú hvað, það er ekki hægt að hætta bara að blogga þegar maður verður mamma, þá fyrst fer nú eitthvað merkilegt að gerast. Og það er ekki nóg að litla barnið hafi bara sína síðu.