996. færsla
Ég byrja stundum á færslum en kemst yfirleitt ekki til þess að klára þær. Og ekki gengur að setja inn eldgamlar færslur löngu seinna.
Ég á lítinn fimm mánaða snúð með stórar kinnar og undirhöku. Hann er glaðvær og alltaf til í að brosa til fólks - nema þegar hann er innan um margt fólk, þá horfir hann svipbrigðalaus í kringum sig. Sonur minn er líka ákveðinn. Fyrst kvartar hann smá - svo ARGAR hann. Ekkert millistig.
Hann er nýbyrjaður að velta sér frá baki yfir á maga. Núna gerir hann þetta auðvitað ótt og títt, maður verður að nota það sem maður kann, jafnvel þó að mann langi stundum alls ekkert að vera á maganum!
Við fórum líka í fyrsta skipti í ungbarnasund á laugardaginn. Okkur fannst það báðum ofsalega skemmtilegt og notalegt. Þetta var ósköp yndælt bara, að hreyfa barnið um í lauginni og syngja með. Seinna verður köfunin æfð, spurning hvort hann verður eins hrifinn af því:)
Ég veit ekki. Þetta á náttúrulega ekki að vera neitt barnablogg. En þetta blogg er nú svo sem ekki neitt neitt í augnablikinu, svo að það getur alveg eins verið barnablogg eins og að vera ekki neitt. Þetta eru allavega minningar sem verður gaman að hafa heimlidir um. Já, kannski ég fari bara að vera duglegri að blogga.
Ósköp er hann nú góður þegar hann sefur úti í vagni og leyfir mömmu sinni að hanga í tölvunni. Þó að faktískt séð ætti mamman líklega að vera að laga til. Eða vaska upp. Eða þvo þvott. Eða ... æ - nenni því ekki. Og þarna byrjar hann að hreyfa sig! Hann á samt að sofa sko lengur. Nú, hann hætti.
3 ummæli:
Barnablogg er fínt. Þegar barnið er fínt. Eðli málsins samkvæmt er þetta fínt barn því það er frændi minn.
kannski ég sé oft með barnabloggfærslur á minni síðu?
Já þú ert það alveg stundum mamma.
En bloggið er jú ennþá um þig og þitt líf, þegar þú skrifar barnablogg:)
Skrifa ummæli