1013.færsla. Er orðin kona einhvers, þ.e. Einars
Ég má ekkert vera að því að blogga.
Ég er gift. Húrra. Það var furðu gaman sko. Míní veisla sem var samt meiri veisla heldur en lagt var upp með í byrjun. Bara allra nánasta þó. Gott kjöt á grillið, freyðivín á palli, bjór í bala, rautt og hvítt. Luktir í trjám. Sæmilegt veður, þurrt að mestu en skýjað að mestu. Þó skein sólin líka. Kaka. Ís. Færðist aukið stuð í mannskapinn eftir því sem leið á kvöldið. Fólk var aðeins farið að slípa skóna á gólfinu.
Svo fór barnið í pössun til Kef. Við Einar fórum heim í glansandi fína íbúð sem svilkona mín og mágur höfðu skreytt fyrir okkur. Eyddum næsta degi í (sjaldséða, nú um stundir) leti. Fengum okkur að borða og fórum í bíó (í fyrsta skipti frá því áður en ÁG fæddist).
Já, bara unaðslegt.
Það eina sem hefði mátt vera betra var að kvöldið áður fékk ég í magann. Ég vil meina að þetta hafi ekki bara verið stress, því að þetta var bara eins og alvöru pest. Ég var því frá í undirbúningi kvöldið áður, gat ekki gert annað en legið á milli þess sem ég hlýddi kalli líkamans (sem var aðallega að kalla mig inn á bað). Lítið varð úr svefni og allt pínu á eftir áætlun af þessum sökum. Blessunarlega, og það var nú ekki lítill léttir, þá rjátlaðist þetta af mér um morguninn og ég var farin að geta borðað (og gat notið þess) í veislunni, jafnvel þó að maginn væri ekki allt of hress.
Ég ætlaði nú ekkert að skrifa um brúðkaupið, annað en það að ég er gift! Sem er undarlegt. Í gær var ég t.d. spurð hvort ég væri konan hans Einars. Ég þurfti að hugsa mig um í örstund. Ekki búin að venjast þessu, en samt er þetta svo ofurvenjulegt og breytir engu, þannig séð, skiljið þið. Þetta er enn eitt dæmið um það sem manni finnst að eigi að vera stór tímamót í lífi manns (og eru það kannski þegar litið er til baka) en er voða svona "jájá".
Allt annað en giftingin er óútkljáð og veldur mér þónokkru stressi. GAAAAAAA. Plís að þetta reddist allt fyrir horn takk fyrir.is. Einar er reyndar kominn með landvistarleyfi. Ekki ég. Ennþá. Þetta reddast. Vona ég. Held ég. Segjum það. Ekki spurning.
1 ummæli:
Þetta reddaðist, gifta kona! Knúsiknús.
Skrifa ummæli