sunnudagur, september 16, 2012

1014. It's always sunny in Philadelphia

Eða sko, það var sól þegar ég byrjaði að blogga en núna, njeh. Ég var pínu farin að ímynda mér að það yrði bara sól og blíða hérna, alltaf. Ég er nefnilega bara búin að spranga um í stuttu pilsi og bol hérna hingað til, og ekki orðið kalt, jafnvel þó að ég hafi verið úti fram í myrkur. Mega næs, og furðulegt, að koma í svona gott veður eftir að maður var farin að venjast tilhugsuninni um haust. Að bakka allt í einu með hlýrri fötin og vera farinn að hafa áhyggjur af því að Árni Gunnar eigi ekki nóg af stuttbuxum. Sem hann hefur annars ekki notað nema yfir sokkabuxur. Fyrr en núna:)

Núna erum við búin að vera hér í sex nætur og ég er smátt og smátt að átta mig á hlutunum. Útilegustemmningin í íbúðinni fer minnkandi þar sem við lögðum upp í langferð í IKEA í gær. Húsgögnin sem við keyptum eru samt svolítið hipsumhaps. Við eigum núna sjónvarpsborð, en ekkert sjónvarp. Sófaborð en engan sófa. Eigum eldhúsborð og einn stól. Eitt glas og einn hníf. Mjög fínt upp á uppvaskið að gera. Muna þetta í framtíðinni: Eiga lítið af borðbúnaði og þurfa aldrei að vaska upp fullan vask. Við bíðum annars eftir því sem við sendum með gámi. Þá fáum við fullt af dótaríi.

Ég er að hugsa um að gerast forlagatrúar. Ég held nefnilega að það að ég væri með yfirvigt hafi komið í veg fyrir að ég missti af tengifluginu mínu í Boston. Svona var þetta. Gisti hjá tengdó í Kef síðustu nóttina á Íslandi. Þegar við komum í Leifsstöð kemur í ljós að önnur taskan mín var allt of þung. Til að redda þessu og sleppa við að borga 11.000 króna yfirvigt, brunaði tengdamamma heim (til sín) og sótti litla tösku sem ég hafði ætlað að skilja eftir heima, ég henti þyngstu hlutunum í hana og tékkaði hana inn (því að við ÁG máttum vera samtals með þrjár töskur, hver um sig mátti bara ekki vera of þung). Allt þetta tók náttúrulega sinn tíma og ég var líklega með þeim síðustu til að tékka mig inn. Í Boston átti ég svo að hafa 2 og hálfan tíma milli fluga, en flugið til Boston tók hálftíma lengur en það áttti að gera, einhverra hluta vegna. Svo að þá hafði ég bara tvo tíma. Vegabréfaskoðunin tók sinn tíma, þó að allt gengi vel. Svo kemst ég að farangursbandinu (því að maður þarf að taka farangurinn sinn á milli fluga, jafnvel þó að maður sé í tengiflugi) en þá kom babb í bátinn. Einhver taska hafði flækst í bandinu og allt var stopp. Töskurnar komust ekki upp á bandið og óljóst hversu langan tíma tæki að greiða úr flækjunni. Þó höfðu öööörfáar töskur komist upp á bandið áður en flækjan varð. Ég stóð þarna og hélt ró minni í nokkra stund áður en mér hugkvæmdist að athuga hvort það vildi nokkuð svo óskaplega vel til að mínar töskur hefðu akkúrat verið þær sem voru komnar upp. Og viti menn! Allar þrjár töskurnar mínar voru komnar upp á bandið! Ég var svo ótrúlega ánægð að ég get ekki lýst því. Svo nefnilega, mátti eiginlega ekki tæpar standa, ég þurfti að fara beina leið inn í flugvél eftir tékk-innið, handfarangursskoðunina og það allt, komst ekki einu sinni á klósettið á milli. Ég held að mínar töskur hafi farið með þeim fyrstu upp á bandið því að ég var með þeim seinustu til að tékka mig inn í vélina, og held því að það ofþyngd töskunnar minnar hafi bjargað mér frá því að missa af tengifluginu:) Er það ekki?

Ferðalagið gekk sem sagt mjög vel. ÁG gerði mér þann greiða að kúka ekkert fyrr en við vorum lent í Philly. Hann var samt ekkert þægur í fluginu get ég sagt ykkur. Og svaf bara í klukkutíma. En grenjaði lítið. Sagði svo „hæ“ við alla sem við gengum framhjá á flugvellinum.

Svo er hann bara eins og hann hafi aldrei verið annars staðar en í Philadelphiu. Ég horfi opinmynnt á allt umhverfið sem mér finnst frekar framandi. En hann gengur bara um eins og ekkert sé eðlilegra. Já, og segir „hæ“ við flesta sem hann sér.

Við ÁG ætlum að hanga mikið á æðislegum leikvelli í garði hér í nágrenninu. Á laugardögum og fimmtudögum er þar líka svona farmers market. Keypti megagóð vínber þar á fimmtudaginn síðasta. Ætla bara að fara á leikvöllinn á hverjum degi og þá hlýt ég að kynnast einhverri mömmunni sem hangir þar líka, hehe. Er reyndar búin að kynnast einni, en það var því miður amma en ekki mamma sem er bara að passa tímabundið. En sú vildi ólm að ég hefði samband við dóttur sína, svo að kannski geri ég það. Á líka eftir að fara í fjölskyldumiðstöðina í Penn, hef ekki gefið mér tíma í það. Og fer kannski ekki strax í það heldur, því að það er víst nóg af IKEA húsgögnum sem á eftir að setja saman heima.

En við erum ekki enn komin með internet heima, ég er núna á kaffihúsi á næsta götuhorni með fremur slitróttu netsambandi. Kem aftur næst þegar ég sendi feðgana á leikvölliunn, ja eða þegar við verðum komin með netið heim.

8 ummæli:

Ásta & allir sagði...

Elsku Hlíf! TIl hamingju með flutninginn. Hrikalega spennó framundan að koma ykkur fyrir og læra á nýjan stað. Hlakka til að fylgjast með :) Ss. vertu DUGLEG að blogga. Gangi ykkur vel !

Nafnlaus sagði...

Nú verður gaman aftur, þú ferð að blogga frá útlöndum og það er svo gaman að lesa bloggið þitt :)

Fríðafrænka

Nafnlaus sagði...

Ooooo, saknisakni! Vildi að ég væri komin til ykkar og gæti hjálpað til við að skrúfa saman ikea-dót og vaska upp lítið sem ekkert leirtau og svona. Hlakka agalega til að koma til ykkar, hvenær sem það verður! Gangi ykkur agalega vel með allt saman, elskurnar. Já, svo vil ég sjá myndir! Knús úr Gbænum.

ella sagði...

Alveg nauðsynlegt að svona útlendingar séu duglegir að blogga.

Nafnlaus sagði...

Hvernig vissuru að þú ættir að taka farangurinn þinn, þí þetta væri tengiflug??

Regnhlif sagði...

Það var tilkynnt á ýmsum stöðum, man samt ekki alveg hvar. En þetta er víst alltaf þannig þegar maður kemur til Bandaríkjanna að maður þarf að taka farangurinn sinn á fyrsta viðkomustað.

Nafnlaus sagði...

Já okay :) Var bara að spá hvernig það verði þegar ég flýg til USA...

Regnhlif sagði...

Flýgurðu ekki beint til New York?