þriðjudagur, september 18, 2012

1015. Þetta reddast!

Dagurinn í dag verður lengi í minnum hafður sem dagurinn þar sem allt reddaðist! OK. Næstum allt. Ég býð enn þá eftir því að nágranninn banki upp á og segist vera búinn að laga wifi-ið sitt og við getum því deilt nettengingunni með þeim. Væri rosa fínt að þeir færu að drífa sig í því, svona fyrir miðnætti nánar tiltekið, svo að þetta yrði dagurinn sem ALLT reddaðist. Næstum því.

Reddunin byrjaði á því að Einar fór í gaskompaníið. Við höfum sem sagt verið gaslaus og höfum því ekkert getað eldað og þurft að fara út að borða eða kaupa tilbúinn mat. Allir voða sorgmæddir yfir því. Ræskj. Og þetta hafði verið eitthvað vesen, þið vitið, ekkert social security number komið, hvar á eiginlega að lesa af mælinum (ekki „afmælinu-m“) og svo frv. En Einari gekk vel og gaskallinn átti að koma einhvern tímann milli 12-16 og ég varð að vera heima á meðan. Svo kom hann bara strax eftir tólf og við ÁG vorum því ekki innilokuð til fjögur. Eftir dramatíska leit að kjallara hússins fann gasstarfsmaðurinn mælana, las á þá og simmsalabimm við vorum komin með gas. Bara á svona örskömmum tíma.

Ég var rétt að jafna mig á gleðinni þegar dyrabjallan ómaði (mjög ómstrítt), ég rýk niður í forundran (svona í ljósi þess að ég þekki afar fáa hér í borg) og þar er maður með sendingu stílaða á Einar. Ég skyldi fyrst ekkert í því hvað þetta gæti verið ... þangað til að maðurinn gefur mér þá vísbendingu að þetta sé mjög mikið. Ó já, allir bókakassarnir, eldhúsdótið, fötin, leikföngin og já, kílóin 400 sem við sendum með skipi. Ég svitnaði af gleði og stressi yfir því hvað ég ætti að gera við þessi 400 kíló sem sátu þarna pent á gangstéttinni fyrir framan húsið mitt (og líka af hitanum, það var heitt, svitinn sko) og hvernig þetta ætti að komast upp á þriðju hæð. Var ég búin að segja ykkur það, við héldum að við værum að fara að búa á fjórðu hæð í lyftulausu húsi, en raunir er sú að við búum á þriðju hæð í lyftulausu húsi. Sá dagur hefur ekki liðið sem ég hef ekki lofað hvarf þessarar fjórðu hæðar, þegar ég held á ÁG í annarri hendi, með tösku/poka á öxlinni og kerru í hinni hendinni, upp á þriðju. Svona er þetta nú sniðugt, ef ég hefði aldrei haldið að ég væri að fara að búa á fjórðu hæð í lyftulausu húsi þá hefði ég aldrei glaðst yfir því að búa á þriðju hæð í lyftulausu húsi. Og það var sko vel þegið í dag að sleppa við síðustu hæðina, þegar við Einara snöruðum þessu upp á skömmum tíma bara við tvö. Ég sem hélt að við myndum þurfa að múta öllum sem við könnumst við hér til að hjálpa.

Svo ætlaði ég að skella mér í kalda sturtu eftir átökin. Svona kassa- og húsgagnaburður er ekkert grín sko í svona hita. En ég ætlaði aðallega í kalda sturtu vegna þess að við höfum verið heitavatnslaus. Við höfðum reynt að redda því áður, en lent í vandræðum. Ekkert social security number, þið skiljið, fórum á vitlausan stað og svona skemmtilegheit. En þar sem ég stend í sturtunni og bý mig undir kalda gusu, þá finn ég bara ylvolgan straum. Heitavatnið var bara allt í einu komið. Nú spyr maður sig, kom heita vatnið með gasinu? Það var allavega þannig á Spáni, að gasið hitaði vatnið. Hélt samt ekki að þetta væri svona hér ... en hvur veit. Mjög dularfullt. En mjög gott. Gátum eldað OG vaskað upp með heitu vatni OG hefðum getað drukkið úr sitthvoru glasinu ef við hefðum bara verið búin að taka upp úr kössunum. Sem við vorum ekki. Og erum ekki. Og guð má vita hvenær við verðum búin að því.

Held meira að segja að Einar hafi verið að panta handa mér tölvu ... svo að það er virkilega allt að reddast. Vantar bara sófa. Já og sjónvarp. Og kannski bókahillur. Einhverja hirslu inn á bað. Nýjar gardínur. Og netið auðvitað.

Ef þið drífið ykkur í heimsókn núna (ANNA RAGNHILDUR) þá fáið þið að hjálpa mér að taka upp úr kössum OG kannski auka ikeaferð... spennó?

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Svo gaman að lesa bloggið þitt elsku Hlíf og frábært að heyra hvað dagurinn hefur verið góður. Netið hlýtur að detta inn á morgun... eða sjónvarpið haha :) Bestu kveðjur til ykkar allra, þó sérstaklega til Árna Gunnars, uppáhaldsfrænda míns :*

Kv. Ásta Rut

Nafnlaus sagði...

Hahaha, skemmtileg lesning Hlíf, búin að skella upp úr nokkrum sinnum alein hér á skrifstofunnni... fyndið með 4. hæðina :)
Gaman að þessu, bestu kveðjur :*
Helga Ellen

ella sagði...

Samgleðst! Sérstaklega fjórðu hæðinni. Viss um að Róbert og Þóra vita nákvæmlega hvað þú átt við þar.

Eyfi sagði...

Gott að vita að þetta er allt að koma. Minnti mig á þegar við Guðrún fluttum á milli íbúða með fullan trukk í SF með Eystein 1 og hálfs, úr íbúð sem var 30 metra frá götunni og upp á lyftulausa 3. hæð (42 töppur). Hef sjaldan verið þreyttari á eftir það.
En varðandi heita vatnið, þá er líklega heitavatnskútur einhverstaðar í kjallaranum eða jafnvel fyrir utan húsið baka til, sem er kynntur með gasi.

Eyfi

Regnhlif sagði...

Takk fyrir kveðjurnar, Ásta, Helga og Ella:)

Hehe, Eyfi, þetta hefur þá verið svipað og hjá okkur, strákarnir álíka gamlir og á Barónsstígnum gat maður náttúrulega svo að segja keyrt alveg upp að hurð:) Já, það hlýtur að vera eitthvað svoleiðis með vatnið

Nafnlaus sagði...

Ji hvað það er gaman að lesa frásögnina þína, Hlíf! Æðislegir svona dagar þar sem allt í einu allt bara reddast... Meira að segja hlutir sem maður var ekkert að búast við að myndu gera það! Frábært! :)

Kv. Gyða

asa sagði...

Það er notla bara klikk að eiga "þetta reddast" dag :) sakna ykkar, gaman að fylgjast með hérna!

Nafnlaus sagði...

OOOOOOOOO hvað mig langar að koma og taka upp úr kössunum þínum!!!!! Þú verður að lofa að skilja nokkra eftir þangað til ég kem...! Dásamleg lesning, mín kæra - þið eruð að massa þetta allt saman! Knús frá þeirri gömlu.

Nafnlaus sagði...

Ég byrjaði á því að búa á sjöttu hæð í lyftulausu húsi - og síðan hefur verið æðislegt að búa bara á þriðju hæð og neðar. Fíla samt ekki að búa neðst, því þar eru kóngulær...

En rosalega er gaman að lesa! :) Og er fegin að ég get aftur farið á bloggið þitt án þess að browserinn minn vilji bara loka sig...