1016. færsla.
Það er kominn tími á nýtt blogg, og vel það.
Lífið færist með hverjum deginum örlítið nær því að ganga sinn vanagang. Enn er íbúðin svolítið ófullkomin, nokkrir kassar sem á eftir að taka upp úr (Anna Ragnhildur) já og nokkrir hlutir sem á eftir að redda, t.d. nettenging og sjónvarp. Og sófi. En ég er komin með tölvu og það er unaðslegt.
Og búðirnar. Maður þarf sko að læra að kaupa gáfulega inn. Það er alls ekkert allt ódýrt hérna í Ameríku, margt í stórmörkuðunum er á svipuðu verði og heima á Íslandi eða jafnvel dýrara. Það sem er hins vegar ólíkt er að hér er oft hægt að finna betri kost. Það er rosalega oft sértilboð á einstökum vöruflokkum. Maður þarf oft að skoða sömu eða svipaða vöru frá mörgum mismunandi framleiðendum til að finna besta kostinn. Þar getur munað mjög miklu. Maður þarf líka að koma sér inn í kúponamenninguna, skoða tilboðin og gera magnkaup. Og internetið, ég er ekki búin að venjast því að það sé hægt að panta eitt og annað ódýrt þar. En kjúklingur er ódýr hér:) Við munum koma gaggandi heim um jólin (allaveg Árni Gunnar, hann er farinn að segja gaggalagú (eða gaggagaaa öllu heldur).
Talandi um barnið. Talandi. Hann tók þvílíkt stökk í vikunni eftir að við fluttum út. Held þó að það hafi ekkert með flutningana að gera:) Allt í einu fóru orðin að hrúgast inn, hann sem hafði mjög lítið sagt áður. Eða orð - þetta eru voða mikið hljóðgervingar "mjámjá", "meme", "mumu", "baba"[sagt með svona urrandi málrómi, ég tel að það sé hans útfærsla á erri, þýðir sem sagt brabra, og já allir fuglar segja brabra, hann varð svo reiður þegar ég reyndi að halda því fram að fuglar segðu bíbí um daginn að hann lamdi mig], díddídd [bílflaut] en svo segir hann líka orð eins og ljóljó (ljós), lóló (róla), gór (skór) og eitthvað fleira sem ég man ekki í svipinn.
Hann elskar öll lög sem hafa hreyfingar við. Verst er að mér þykja flest þessi lög einkar óskemmtileg, sérstaklega þegar maður "neyðist" til að syngja sama lagið 7 sinnum í röð. Hann hefur líka miklar skoðanir á því hvaða lag maður á að syngja hverju sinni, og lætur það mjög skýrt í ljós hvort hann er ánægður eða ekki með lagavalið. Þegar ég á að syngja "þrír litlir apar" réttir hann höndina upp og gerir "tveir" með puttunum. Það gerir hann líka þegar ég á að ýta honum í rólunni [einn, tveir og þríííír], segir líka stundum edd,dei. Sveimér ef þetta barn hefur ekki erft einhver stærðfræðigen frá föður sínum (móðir hans hefur hins vegar talnablindu eins og ég hef marg oft sagt á þessu bloggi en það er ekki víst að þið munið það, það er svo langt síðan ég byrjaði að blogga, hana nú, nú er ég komin með skrifræpu). Honum finnst líka prumpulagið mjög skemmtilegt núna. Það er gaman að syngja það með honum, ég syng og hann sér um að koma með prumpuhljóð á réttum stöðum. Syngur svo lalala þegar það kemur í laginu.
Hann elskar leikvöllinn og sérstaklega að róla. Er bæði mjög áhugasamur um hitt fólkið þar, og feiminn. Já, við bæði kannski bara:)
Ég er rosalega ánægð með staðsetninguna. Þetta heitir University City og það er réttnefni, þetta er eiginlega svolítið eins og sér bæjarfélag og já, fullt af háskólanemum. Það finnst mér mjög skemmtilegt andrúmsloft. Við erum samt ekki alveg við hákskólann, þar eru bræðralagshúsin og líklega mikið partýstand. Mikil umferð. Hér er hins vegar ekki svo mikil bílaumferð en nóg líf. Kaffihús, alls kyns búllur, skrítnir og skemmtilegir staðir, second hand búðir o.fl. Fjölbreytilegt mannlíf. Hverfi með karakter, finnst mér. Mér finnst ég alltaf vera að ramba á eitthvað áhugavert þegar ég labba á leikvöllinn:) Hinum megin við Háskólan er Schuylkill-áin [borið fram Skúkill] og handan árinnar er miðbærinn. Ég er ekkert yfir mig hrifin af honum, en hef þó ekki skoðað hann mikið. Hef bara tvisvar frá því ég kom hingað gert mér ferð yfir Schuylkill, þó tekur það mig alls ekki langan tíma með Subwayinum. En í miðbænum eru samt skemmtilegir hlutir, t.d. Reading Terminal Market. Mér fannst þetta voða undarlegt nafn á markaði, þangað til mér var sagt að þetta hefði verið lestarstöð, og lestirnar fóru í átt að Reading, eða eitthvað álíka. Allavega, þá er þetta eins og mun stærri, mun fegurri og fjölbreytilegri útgáfa af matarhorninu í Kolaportinu. Þarna getur maður fengið gott grænmeti á góðu verði, osta, kjöt, fisk, sælgæti, vín, eldaðan mat, ís, og já, flest það sem tönn á festir. Við fórum einmitt þangað í dag. Ég fór í einn grænmetisbásinn og gat ekki á mér setið að taka mynd af öllum lauk-og kartöflutegundunum. Þá kemur að mér gömul kona sem vill endilega taka mynd af mér fyrir mig, með markaðinn í bakgrunninn. Henni fannst að best væri að taka margar myndir, með ýmislegt í bakgrunninum, helst eitthvað sem væri týpískt fyrir markaðinn, helst eitthvað sem sýndi að halloween nálgaðist:) Hún sættist þó á endanum á að ein mynd væri nóg. En gaf mér góð ráð um bestu kaupin þarna. Sá hana halda áfram að ráðleggja öðrum kúnnum þarna eftir að hún sleppti af mér hendinni. Sannur Reading Terminal Market aðdáandi, rétt eins og parið sem við gistum hjá í febrúar. Þau voru meira að segja svo miklir aðdáendur að þau, eða allaveg hún var fyrirsæta á mynd í auglýsingaherferð fyrir markaðinn.
Svo er líka kínahverfi þarna, handan Skúkill, á eftir að skoða það. Svo er þetta voðalega söguleg borg á Bandarískan mælikvarða. Hér var stjórnarskráin undirritðu, einhver liberty bell sem ég veit ekkert um. Já og Rocky, maður. Stiginn sem hann hljóp upp. Kannski ég ætti að horfa á Rocky.
Jæjajá. Ég þarf að setja inn myndir til að skreyta þessa frásögn en myndavélin með myndunum virðist vera inni hjá sofandi barni. Á þessu heimili er sem minnst óþörf áhætta tekin á að vekja sofandi barn:)
LOVE (það er svona hálfgert einkunnarorð Philly, en ég var bara að vísa í ást mína til ykkar (sumra, ég get ekkert vitað nákvæmlega hverjir lesa þetta, ég er alltaf að búast við því að ég eigi leynda bloggaðdáendur út um allar trissur og ekki séns að ég elski þá alla, sérstaklega ekki ef ég þekki þá ekki).
9 ummæli:
Elsku Hlíf, það svo gaman að lesa um ævintýri þín í útlöndunum. Hlakka til að sjá myndir!
kv.
Silja :D
Ofbeldið hefur hann erft frá afa sínum og nafna, sá sparkaði einu sinni í mömmu sína af því hann datt um þröskuld. (ég vona að ég hafi þetta rétt eftir) Og afinn var líklega á svipuðum aldri og litli nafni hans núna. En ég verð að spyrja nöfnu þína og ömmu betur út í þetta. Hugsanlega fylgir þetta nafnasamsetningunni á móður og barni. Það má velta því fyrir sér.
Fríðafrænka
Haha, Fríða. Uss, ég verð þá að skamma pabba fyrir þetta. ÁG verður einmitt oft reiður út í mig þegar hann meiðir sig. hmmmm ég er reyndar kannski líka svona sjálf
Mér finnst börn alltaf taka svo skyndilega og mikla þroskakippi að foreldrarnir verða oft eftir sjálfir, steinhissa á framförum krílanna.
Bíddu svo bara þangað til þú þaft að lesa sömu bókina á hverju einasta kvöldi (og þá eru þetta ekki einhverjar bendibækur heldur langar, og því miður stundum leiðinlega, sögur). Svo þegar loksins kemur að því að einhver ný bók verður uppáhalds, þá þarftu að lesa hana aftur og aftur og aftur og aftur. Þessa dagana er það Kata og brúðuvagninn.
Röskva verðu mjög reið ef ég kann ekki öll lögin sem Ragnheiður, einn kennarinn hennar, syngur með þeim. Sem betur fer höfum við Hrund forskot sem núverandi og fyrrverandi leikskólastarfsmenn og kunnum flestan viðbjóðinn og öll skemmtilegu lögin líka.
Annars er uppáhaldslagið hennar Röskvu Baby með Justin Bieber og Lazy song. Frekar skrítið að sjá ungann dansa og syngja með lögunum.
Gott að allt gengur vel:)
DR
Röskva dúlla:)
Hahahahah! "Heimska helvítis drasl"??? Hehehe :) Held að ég hljóti líka að hafa "erft" þetta frá pabba - og svo skilað því áfram til minna kríla. "Sjáðu hvað þú lést mig gera!" er algengt að heyrist í þeim þegar þau detta/meiða sig :) Allt er mæðrum þessa heims kennt um! Jæja, farðu nú og finndu myndavélina litla mín og smelltu inn nokkrum myndum. Knús, AR
Haha, Anna, það minnir mig á "ÞÚ KRÍFTIR EKKI!!!"
Silja, ef þú sérð þetta, gleymdi að segja: Gaman að heyra frá þér, allt of langt síðan við höfum sést:)
Þú ert uppáhaldbloggarinn minn! :)
Man ekki hvað ég ætlaði að kommenta, því færslan var svo löng :)
En hljómar eins og frábært hverfi! Elska líka svona stúdentaandrúmsloft.
hahaha! Takk!
Skrifa ummæli