miðvikudagur, febrúar 04, 2015

2015

Hátíðirnar koma og fara og ekkert blogga ég. Síðast á Hallóvín.

Byrjun árs ruglar mig alltaf. Já og haust líka. Ég rugla þessu endalaust saman, þ.e. ég veit ekki hvort nýtt ár er að byrja eða nýtt skólaár. Þannig fannst mér í gær eins og Hallóvín væri á næsta leyti.

Það er ekki eins kalt í vetur og í fyrra. Og það hefur verið lítill sem enginn snjór. Allavega ekki nægilega mikið til þess að fara að renna sér í garðinum, þrátt fyrir hástemmdar aðvaranir um ægilegan "snjóstorm" og blizzard og ég veit ekki hvað sem átti að vera í síðustu viku. Þetta var voða fyndið. Almenningsskólum var lokað í einn og hálfan dag út af veðrinu sem aldrei kom, það kom í mesta lagi sentimetri af snjó hérna. Ég fór út í búð daginn áður en veðrið átti að koma, því að það vantaði kvöldmat, og búðin var full af fólki sem var að byrgja sig upp af mat til að lifa af óveðrið. Hvað er eiginlega að fólki - jafnvel þó að það hefði komið eitthvað ægilegt veður (ég sá nú aldrei að spáin væri ægileg, en veðurfræðingarnir hér voru á öðru máli), þá hefði fólk komist út í búð tveimur dögum seinna! Drama drama. Ég var svo guðslifandi fegin að leikskólanum hans Árna Gunnars var ekki lokað. Hann hafði verið heima lasinn í viku á undan og var loksins orðinn skólafær, hefði orðið verulega svekkt ef hann hefði svo þurft að vera heima tvo daga í viðbót út af smá snjókuski.

Ég er að borða granatepli. Þau eru í algjöru uppáhaldi hjá mér núna. Ég held að það sé fyrst og fremst af því að mér finnst gaman að borða þau, en ekki bragðið endilega, þó að þau séu reyndar mjög góð á bragðið.

Jólin voru mjög yndæl. Þetta voru svona náttfatajól, því að við höfðum engin jólaboð eða slíkt til að sinna. En við borðuðum góðan mat, spiluðum, horfðum á vídeó og svona.

Sá litli er duglegur á leikskólanum. Mér finnst enn pínu skrítið að hann geti bara verið "aleinn" á einhverjum stað án okkar, að litla barnið mitt geti verið svo sjálfstætt:) Hann er samt bara hálfan daginn á leikskólanum, svo að við erum enn megnið af deginum að hanga saman. Hann elskar að leika sér með dýr, og vill þá helst vera í hlutverkaleik með manni og leikirnir snúast ýmist um að bjarga einhverju dýri úr vandræðum, eða að einhver rándýr reyna að ráðast á önnur dýr. Ég hef ekki alveg jafnmikið úthald í þessa leiki og hann. Aftur á móti gæti ég föndrað allan daginn, en því nennir hann í mesta lagi í 30 sekúndur.

Í dag fórum við í feluleik. Ég byrjaði á að fela mig. Þegar Árni Gunnar fann mig, sagði hann "þetta var ekki góður staður!!". Ég var hálfmóðguð og stóð upp en þá sagðist sonurinn ætla að fela sig á þessum stað og sagði mér að fara inn á bað og telja. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að hann ætti ekki að segja mér hvar hann ætlaði að fela sig, en allt kom fyrir ekki, hann vildi bara endilega fela sig á sama stað og ég hafði falið mig og fannst ekkert að því að ég sæi hann fela sig áður en ég fór svo inn á bað að telja. Svo þegar ég "finn" hann, eftir mjög stutta leit, segir hann "þetta var mjög góður staður!!". Svona gekk þetta fyrir sig nokkrum sinnum, hann valdi alltaf sama stað og ég hafði falið mig á, og fannst staðurinn alltaf góður eftir að hann hafði falið sig þar.






3 ummæli:

Fríða sagði...

Dásamlega skemmtilegt barn!

ella sagði...

Ætli hallóvínið sé bara ekki komið aftur..

Nanna sagði...

Ahahaha snillingar! :D