sunnudagur, mars 30, 2008

762.færsla. (ó)þægilega (ó)viðeigandi

Mér finnst óskaplega fyndið þegar maður fær svona litla prufutúpur af einhverjum kremum gefins í snyrtivörubúðum. Það er kannski ekki svo fyndið í sjálfu sér en það fyndna er að starfstúlkurnar virðast fá þau fyrirmæli að gefa "krem við hæfi" . Hugsunin er líklega sú að miðaldra konum sé ekki gefið bólukrem eða eitthvað álíka óviðeigandi, en gallinn er auðvitað sá að ef bólóttum unglingi er gefið bólukrem þá er það náttúrulega óþægilega viðeigandi.

Fyrst lenti ég í þessu í Body Shop á menntaskólaárunum. Konan á undan mér í röðinni var kona á að giska á fimmtugsaldri. Afgreiðslustelpan sagðist vilja gefa henni krem. Konan tók við dollunni og las á hana. "Fyrir appelsínuhúð? [vantrú og hneykslun í röddinni]- Bíddu... Af hverju??"
Stelpan bara: "[vandræðaleg] Uh sko bara nei, við erum bara að gefa prufur"
Kellsa: "Já, allt í lagi, uhhh [mjög hneyksluð og ósátt]"
Síðan kom röðin að mér og mér var gefið eitthvað venjulegt eins og andlitskrem, sem varð til þess að konan (sem var enn við kassann) gaf ekki bara afgreiðslustúlkunni illt auga heldur mér líka.

Næst lenti ég í þessu í apóteki í Hollandi í hittifyrra. Ég man nú ekki hvað vinkona mín fékk en ég fékk prufu af kremi sem hét.... Beautiful bust care! Hahahahahaha. Eins og þið vitið verð ég seint talin flatbrjósta. Það var eins og konan hefði litið á mig og samstundis séð á hverju ég þyrfti mest að halda.
Einhverjir hefðu kannski móðgast en ég held ég hafi hlegið í svona hálftíma. Ég fann þessa prufutúpu aftur núna um daginn og ákvað að prófa þetta þar sem þetta hlýtur að vera farið að liggja undir skemmdum. Ég verð að játa að ég finn ekki fyrir neinum mun... enda hlýtur það að gefa augaleið að það þurfi eitthvað kröftugra en krem (!) til þess að halda brjóstum af minni stærðargráðu uppi.

(eru brjóst bannorð á bloggi?)

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jahá, þú verður að segja; kúlurnar tvær sem eru framan á mér. Engan dónaskap hér á sunnudegi!

Fríða sagði...

ég myndi nú bara ekkert koma inn í þá búð aftur þar sem mér væri boðið appelsínuhúðarkrem. En af hverju hef ég aldrei verið á svona stað þegar maður/kona fær prufur?

Nafnlaus sagði...

Já ég hef aaldrei fengið svona prufukrem. Þetta voru fyndnar sögur, mig langar líka að lenda í svona! :)

Nafnlaus sagði...

Fríða, það stafar sko af því að þú ferð ekki í snyrtivöruverslanir. Een af hverju ætti fólk að verða fúlt? Eru þessi kremdrull ekki öll búin til af einhverri "þörf"? Eigum við þá ekki að gera ráð fyrir því að viðskiptavinir þessara verslana hafi þá þessar "þarfir"? Hvernig í ósköpunum er þá hægt að ætlast til að afgreiðslugreyin geti alltaf giskað á hvað fólkið langar í eða vantar, sem er ábyggilega ekkert alltaf það sama. Þetta hlýtur bara að vera svona eins og happdrætti og hví að vera fúll ef maður fær eitthvað ókeypis? Það má þá bara henda því eða "móðga" einhvern appelsínuhúðaðan. Á maður annars að skammast sín fyrir appelsínuhúð frekar en háralit eða stutt nef eða...

Regnhlif sagði...

Já, ég hef nú bara lent í þessu tvisvar sko. En þar sem ég er ekki mikill snyrtibúðarrápandi hélt ég að þetta væri rosa algengt.

Appelsínuhúð er náttúrlega rosalega algeng og er einn af fáum hlutum sem ég sé enga ástæðu til að hafa áhyggjur af (en annars hef ég áhyggjur af mjög mörgu í heiminum).