811.færsla.dimma
Það er svo furðulegt að búa á þessu brjálaða landi sem fer öfganna á milli eilífrar nætur og eilífs dags. Og það er svo skrítið að ég verð alltaf jafn hissa á vorin þegar fer að birta almennilega, og fyllist bjartsýni og trú á mannkynið. Svo verð ég alveg jafn hissa á haustin (eða sumrin eiginlega) þegar byrjar að dimma á kvöldin. Sem betur fer fyllir myrkrið mig ekki svartsýni í sama mæli og birtan fyllir mig bjartsýni, en samt sem áður verð ég alltaf svolítið myrkfælin. Og kvíðin. Undarlegt hvað þetta hefur mikil áhrif á mann. Mér finnst sérstaklega óþægilegt að koma á nýja staði í myrkri. Til dæmis þegar ég flutti til Madridar, þá kom ég um kvöld, og mér leist ekkert á þetta allt saman. Gatan var lítil og þröng og beint á móti húsinu mínu var hús í hálfgerri niðurníðslu með neglt fyrir gluggana. Og íbúðin fannst mér stórundarleg. Er viss um að þetta hefði litið allt öðruvísi út í dagsbirtu.
Í kvöld tók ég í fyrsta skipti eftir því hvað það er orðið ógeðslega dimmt. Var búin að vera að horfa á vídjó hjá Auði og fannst mjög drungalegt að labba (alla leiðina) að bílnum:) Og auðvitað vill svo óheppilega til að ég er grasekkja. Kveikti öll, hvert eitt og einasta, ljós í íbúðinni þegar ég kom heim:)Svolítið leiðinlegt að vera svona myrkfælin. Ég veit samt ekki almennilega við hvað ég er hrædd... misindismenn sem gætu stokkið á mann? Veit ekki.
Ég var oft sjúklega myrkfælin í herberginu mínu heima. Ástæðan er sú að herbergið opnaðist út á svalir, en þar sem íbúðin er á jarðhæð, er ekkert grindverk fyrir svölunum, heldur bara hægt að labba upp á þær af jörðinni. Þannig að faktískt séð hefði hver sem er getað verið á svölunum fyrir utan gluggann sem ég svaf við. Í þokkabót var alltaf ýmislegt dót geymt á svölunum, dósapoki, bali og eitthvað slíkt, og í hvassviðri fuku þessir hlutir til og hávaðinn magnaðist einhvern veginn upp á svölunum. Fyrir manneskju með fjörugt ímyndunarafl eins og mig var þetta hálfgert stórslys. Ein fjúkandi dós gat á einhvern undarlegan hátt hljómað nákvæmlega eins og misindismaður að labba að glugganum mínum. Oft var ég algjörlega sannfærð um að einhver stæði fyrir utan gluggann, fannst ég meira að segja heyra andardráttinn í einhverjum sem starði á mig.
Einu sinni heyrði ég samt greinilegra en nokkru sinni áður fótatak á svölunum um nótt. Það nálgaðist gluggann minn og síðan var bankað á hann. Ég fraus af hræðslu og lá alveg stíf með augun uppglennt. Hugsunin var sú að ef ég væri alveg kyrr væri möguleiki á því að misindismaðurinn sæi ekki að það lægi einhver þarna. Þorði líklega ekki að anda fyrr en ég heyrði fótatakið fjarlægjast aftur. Greip andann á lofti af feiginleika. Sú tilfinning entist ekki lengi. Fótatakið nálgaðist aftur og aftur var bankað. Ég stífnaði aftur upp og allir vöðvar líkamans herptust af ótta. Hef örugglega verið nálægt því að missa vitið af hræðslu þegar heyrðist hvíslað: „Hlíf, vaknaðu, þetta er Auður“.
Hahaha, það var nefnilega nokkuð hentugt á unglingsárunum að hafa auka inngang að herberginu mínu ef vinum datt í hug að kíkja í heimsókn á óguðlegum tímum. Og það gerðist nú alltaf af og til, en það breytti því ekki að í hvert skipti hélt ég að bandóður axarmorðingi væri á svölunum kominn til þess að drepa mig. Þetta var auðvitað fyrir tíma gsm-símanna (eða allavega útbreiðslu) þeirra... svo fólk droppaði bara óvænt í heimsókn. Mikið var þetta nú samt gaman. Fyrir utan þessa gríðarlegu hræðslu, kannski.
13 ummæli:
Hehehe ég skil þig vel með myrkfælnina. Er svona sjálf. Eins og í nótt td þá var ég ein heima...Róbert Stefán var að vinna. Um kl 2 vaknaði ég við að einhver gekk niður tröppurnar og svo var tekið í hurðarhúninn tvisvar...sem betur fer var læst. Ég fraus gjörsamlega en andaði léttar þegar eigandi fótataksins fór aftur upp tröppurnar. En feginleikinn varði ekki lengi því fótatakið nálgaðist aftur skömmu síðar og nú var lykli stungið í skránna. Þetta var bara eiginmaðurinn að koma heim til að ná í bók...gleymdi lyklunum í bílnum og var bara að athuga hvort það væri ólæst. OMG ég fékk næstum því hjartaáfall. Þannig að Hlíf mín you are not alone!!! Hafðu það gott kv Þóra Robba kona.
En ætlar þú á ættarmót?
Sko... ég held ég komist ekki.
var einmitt að taka eftir því sama... Myrkrið er farið að koma aaaaðeins of snemma á kvöldin og fara aaaðeins of seint á morgnanna. Ég er líka búin að vera ein heima síðustu viku. Sérstaklega finnst mér óþægilegt þegar ég fer niður í þvottahús á kvöldin því þá þarf ég að skilja eftir opið inn í íbúðina og íbúarnir á miðhæðinni hafa þá greiðan aðgang inn til mín. Ræð ekki við það að sjá indverja í hverju horni stofunnar þegar ég kem upp með þvottinn þó að þeim dytti sjálfsagt ekki í hug að fara inn til mín!
Hugrakka ég hef líka fundið fyrir þessu. Ég skelli auðvitað skuldinni á bilaða hormónastarfsemi þegar ég vil helst kveikja öll ljós ef ég þarf á klósettið á nóttunni (þegar ég er ein heima). Skammast mín fyrir að vera svona mikill aumingi.....en hvað getur kona gert?
Haha, rugluð hormónastarfsemi er örugglega nógu góð afsökun:)
Mér finnst þetta einmitt svo gott, en ég er samt svona lampa og kertatýpa, þoli ekki að strákarninr vilja helst hafa ÖLL ljós í íbúðinni kveikt. Lítil lýsing hjálpar líka hér til að gera íbúðina meira kósý og ekki eins gerilsneydda
Snóran í rökkrinu
Þar sem ég þjáist af birtuþunglyndi en ekki skammdegisþunglyndi þá truflar þetta mig ekkert svakalega. Þetta með minnkandi birtu meina ég.
Hins vegar fæ ég ansi mörg kvíðaköst á veturna og þau tengi ég við dimmuna.
Reyndar dett ég yfirleitt alltaf svakalega langt niður í síðustu vikunni áður en skólinn byrjar. Ég var búin að gleyma því.
Sjitt.
dr
Mér finnst líka, á sama tíma og ég verð svolítið myrkfælin, mjög huggulegt þegar ég byrja að dimma. Eitthvað kósí við þetta.
ég á einmitt í svona blönduðu tilfinningasambandi við haustmyrkrið. Það er kósí á kvöldin og allt það, gott að kveikja á kertum en ég er líka pínu myrkfælin þegar ég fer að sofa. Kemur sér að við erum 7 í heimili sem stendur!!
Sjö í heimili? Ertu búin að eignast fleiri börn án þess að maður viti?
Haha, var að taka eftir því að ég skrifaði í síðasta kommenti "þegar ég byrja að dimma" haha-rugluð.
o nei en fólk virðist trúa mér til alls í þeim efnum. Skil ekkert í þessu. Nei bý hjá pa og ma í augnablikinu og samtals erum við 7! Brjálað stuð...
ahaaaaa.
Verður oft stuð á stórum heimilum:) Kannast eitthvað við það (vorum 6 systkinin... þó ekki öll búsett heima í einu, held ég)
Skrifa ummæli