813.niðurstaða
Skyndilega rann það upp fyrir mér að málfræði er þrælerfið.
Ég hef blekkt sjálfa mig til þess að halda hið gagnstæða í mörg ár. Þó að ég hafi án mikillar fyrirhafnar fengið háar einkunnir í flestum málfræðikúrsum (a.m.k. í B.A.-náminu) þá þýðir það ekki að þetta sé auðvelt fag... ;)
Áður en ég held lengra þarf ég að reyna að úskýra hvað málfræði er. Það er ósegjanlega þreytandi að nánast allir, sem í kurteisisspjalli spyrja mann út í námið, virðast halda að ég hafi ákveðið að sérhæfa mig í grunnskólamálfræði. Grunnskólamálfræði er líklega ekki viðurkennt hugtak :)... ég nota það bara hér til þess að fólk skilji hvað ég á við: málfræði sem segir manni hvernig maður á að tala: „Það á að segja MIG langar en ekki MÉR langar“. Eða málfræði svipuð og sú sem birtist í málfræðibókum um önnur tungumál: sögnin „segja“ beygist svona í nútíð germyndar í latínu: AMO-AMAS-AMAT-AMAMUS-AMATIS-AMANT.
Og svo spyr fólk um hvað M.A.-ritgerðin mín fjallar. Ég geifla mig (því ég veit hvaða viðbrögð ég fæ) og segi svo varfærnislega „... þolmynd ...“ og þá verður fólk ÓTRÚLEGA hissa... enda heldur það að ég ætli að teygja eftirfarandi klausu í 100 blaðsíður og skilur ekki hvernig HUGSANLEGA er hægt að skrifa HEILA RITGERÐ um þolmynd:
„Þolmynd er mynduð með hjálparsögninni vera og lýsingarhætti þátíðar af aðalsögninni. Áherslan er á þolandanum en ekki gerandanum.“
Dæmi: Jón var laminn= þolmynd. Einhver lamdi Jón = germynd.
Og þetta er svolítið frústrerandi. Að fólk skuli halda að þetta sé allt og sumt. En faktískt séð væri alveg hægt að skrifa mjög langa ritgerð með þessar tvær setningar (sem eru engan vegin nánda nærri því að lýsa þolmynd til hlýtar) sem útgangspunkt.
Maður ímyndar sér bara að maður sé svolítill heim-mál-spekingur og spyr sig: Af hverju höfum við þörf fyrir þolmynd? Af hverju notum við ekki bara germynd? Út frá því má velta því fyrir sér, og skoða, í hvaða umhverfi þolmynd er notuð. Við hvaða aðstæður er hún notuð? Nota hana allir? Er hún frekar notuð í formlegu tali en óformlegu?
Svo má spyrja sig af hverju þolmynd er mynduð svona. Er hún mynduð eins í öðrum tungumálum? Og þá: er til þolmynd í öllum tungumálum heimsins? Ef svo er: af hverju? Ef svo er ekki: af hverju ekki? Ef þolmynd er til í sumum málum en öðrum ekki, hvað veldur því þá? Hver eru einkenni þolmyndar í öðrum tungumálum? Er hún notuð eins alls staðar? Hvernig varð þolmynd til í íslensku? Af hverju er hjálparsögnin vera/verða notuð en ekki einhver önnur? Er þetta örugglega hjálparsögn?...Hvaða sagnir geta staðið í þolmynd? Allar sagnir íslenskunnar eða bara sumar? Eru svipaðar sagnir útilokaðar í þolmynd í öðrum tungumálum? Eiga sagnirnar sem geta, eða geta ekki, staðið í þolmynd eitthvað sameiginlegt? Hafa þær svipaða merkingu? Eða taka þær sömu föll með sér?
Ég held þið sjáið hvað ég er að meina. Það er hægt að halda endalaust svona áfram. Og þá er ég ekki einu sinni búin að snerta á setningafræði eða hljóðfræði til dæmis.
Ef maður ætlaði að svara spurningunum hérna fyrir ofan væri hægt að skrifa mjög margar M.A.-ritgerðir. Vandamálið felst sem sagt ekki í því að ná að gera þetta nógu langt, heldur að afmarka efnið vel. Og það er ótrúlega mörgum spurningum ósvarað. Eða búið að giska á svarið en ekki athuga nógu vel hvort það á við rök að styðjast.
Málfræði er hrikalega abstract. Maður er alltaf að pæla í einhverju sem er ekki hægt að snerta. Og það eru til hrikalega flóknar kenningar um það hvernig maður myndar einföldustu setningar. Í fyrstu hugsar maður bara: þetta getur ekki verið svona flókið. Ef þetta væri svona flókið þá gæti enginn lært að tala. Allir þyrftu að hugsa í klukkutíma áður en þeir gætu sagt einföldustu setningar. En það furðulega er að þessar flóknu kenningar hafa eitthvað sem styður þær. Það eru til ótrúlegustu reglur sem málnotendur fara eftir án þess að vita þær. Málfræðingar reyna að grafa upp þessar ómeðvituðu reglur... og ætli þeir séu ekki bara búnir að átta sig á toppnum af ísjakanum. Ef maður lendir í því að kenna útlendingum eitthvað um íslensku þá áttar maður sig á því hvað maður veit lítið. Af hverju á maður t.d. að segja „Ég lamdi Guðmund“ en ekki „Ég lamdi Guðmundur“ eða „Ég lamdi Guðmundi“?... við vitum þetta bara. En það er ekki svo að við lærum bara utan að hvaða fall maður á að nota hverju sinni. Tungumál eru svo ótrúlega regluleg... og undantekningarnar eru örugglega bara undirreglur undir aðalreglunni.
Mér finnst oft eins og málfræði snúist um frummyndakenningu Platóns. Við erum á einhvern hátt að leita að frummyndinni fyrir öllum raunverulegum setningum. Eða, réttara sagt, reglunum sem við vitum ekki að við kunnum en valda því að við segjum „Ég lamdi Jón" en ekki „Mér lamdi Jón“ (hvers eiga Jón og Guðmundur að gjalda að vera lamdir svona hérna). Og oft langar mig bara að hætta þessu rugli og fara að gera eitthvað sem gefur af sér einhverja afurð. Mig langar bara að prjóna eða smíða og sjá það sem ég er að gera verða að einhverju. Eða vera læknir og gera eitthvað alvöru gagn. Ég veit ekki til þess að málfræði hafi bjargað lífi einhvers... en maður getur alveg ímyndað sér að einhver fari yfir um af of miklum málfræðipælingum.
Finnst það einhvern vegin ekki svo ólíklegt í augnablikinu.
Svo er nú það að skrifa málfræðitexta. Gæti trúað að málfræðiritgerð líkist einna helst stærfræðiritgerð. Sýna dæmi, setja upp formúlu. Útskýringar sem leiða mann að næsta dæmi eða formúlu o.s.frv. þangað til niðurstaðan er fengin. Ekkert óþarfa kjaftæði. Sýna bara á einfaldan hátt að það sem maður heldur fram stenst. A+B=C. Eða þannig.
Vildi stundum að ég hefði hallast að bókmenntum frekar en málfræði innan íslenskunnar. Eeen þegar ég hugsa um það, þá er bókmenntafræðin ekkert minna abstract. Æ, nú er ég orðin alveg klikkuð hérna. Af hverju var ég eiginlega að fara í háskóla? Jú, ég hef áhuga á þessu. Annars væri ég líklega löngu farin að gera eitthvað annað. En þetta er erfitt. Og ég ætla aldrei aftur að halda öðru fram.
En auðvitað er ekki við vesalings fólkið að sakast sem heldur að málfræðin sem ég er að læra sé sú sama og sú málfræði sem það hefur kynnst um ævina (hvað Á að segja). Eðlilega. En það er samt þreytandi að finna það að fólk haldi að maður sé að læra eitthvað ótrúlega ómerkilegt.
Vá útvarpið las hugsanir mínar og spilaði akkúrat lagið sem ég vildi heyra. ótrúlegt.
Ég á örugglega eftir að sjá eftir þessari færslu á morgun og taka hana út.
17 ummæli:
jeminn... og mér sem fannst það sem ég er að skrifa um flókið....
Nú fæ ég samviskubit yfir því að þú hafir eytt tíma í að lesa þessa löngu færslu daginn fyrir ritgerðaskilin þín... :)
Og það sem þú ert að skrifa um er örugglega alveg jafn flókið:)!!
Mér finnst málfræði skemmtileg og áhugaverð
flott færsla hjá þér!!
mér finnst málfræði ógjó erfið sko!! er hundléleg í henni og hef alltaf verið.
ég er eiginlega hálf öfundsjúk út í fólk eins og þig sem kann hana svona vel!!!
Gangi þér vel með ritgerða skrifin þín...
Ég trúi ekki að þið hafið nennt að lesa þetta:)
Mér fannst gaman að lesa þetta og skemmtilegar pælingar :) Ég er laumumálfræðiáhuganörd og hugsa stundum enn með mér að ég hefði átt að fara í íslenskunám :) Kannski geri ég það bara í framtíðinni, til hvers að hætta í skóla....
Kíki við og við inn á bloggið þitt, veit ekki hvort ég hafi kvittað áður.
Kveðja,
Karen P.
Gaman að sjá þig, Karen:)
Það eru furðu margir laumuáhugamenn um málfræði ...
mæli alveg með íslenskunni, mér fannst hún allavega mjög skemmtileg.
Bíddu ... ertu málfræðinörd Hlíf?
Ég er rosalega góð í bókmenntum og léleg í málfræði.
Svo held ég bara að ég sé með áunninn athyglisbrest og er þess vegna hætt að fá góðar einkunnir.
dr
Mér fannst þetta mjög skemmtileg og góð færsla. Það var allavega mjög gaman að lesa hana. Mér finnst málfræði frekar áhugaverð, mjög skemmtileg stundum, en líka leiðinlegt hvað hún getur verið erfið.
Einu sinni í þýsku var okkur kennt hvernig við gætum vitað hvort nafnorð væri í þolfalli eða þágufalli eftir því hvort sagnorðið væri hreyfing eða kyrrstætt (kann ekki að útskýra þetta). Svona eins og; ég ER í skólaNUM eða ég FER í skólANN. Mörgum fannst svo erfitt að læra þetta, en ég hef alltaf þurft að hugsa þannig þegar ég tala íslensku. Þannig að margar, eða sumar þessar reglur nota ég allavega ekki ómeðvitað..
Svo finnst mér líka stundum svo gaman að spyrja af hverju maður eigi að segja setninguna svona, en ekki eins og ég gerði (ef ég sagði hana vitlaust) og þá fæ ég nánast aldrei svar, nema; öö þetta bara er svona.
Æh þetta varð allt of langt. Ætlarðu að setja þessa ritgerð á bloggið þitt?
Vóh sjitt þetta varð ekki allt of langt heldur aaallt oof langt
Dr: Þetta er rugl og vitleysa í þér Díana
Nanna: neinei, alls ekki of langt. Já, einmitt: þú veist örugglega meira en margir af hverju maður notar t.d. þetta fall, af því að þú hefur (að einhverju leyti) þurft að læra reglurnar utan að. Þeir sem hafa alltaf búið hérna "kunna" regluna en eru bara ekki meðvitaðir um það. Það er oft ótrúlega erfitt að ústkýra af hverju eitthvað er vitlaust, maður veit bara að það er vitlaust.
Haha, ég held ég geti nú ekki sett 100 bls. á bloggið. Eða ég reikna með því að þetta verði kannski í kringum 100 bls. En áhugasamir munu örugglega geta haft samband við mig ef þeir hafa áhuga á ritgerðinni:) haha.
Já nei einmitt. Óttar setti, held ég, einhverja ritgerð á bloggið sitt, eða link. En ég nennti nú ekki að lesa hana sko..
Mér finnst gaman að Íslensku. Meðan ég þarf ekki að læra reglur utan að. Ef þú værir að pæla í forsetningum myndi ég ef til vill spyrja þig af hverju maður fer í suma staði (t.d. Hafnarfjörð) en á aðra (Ísafjörð)Passaði mig sko að velja nöfn sem enduðu eins. Það er útilokað að skýra þetta fyrir útlendingum.
Ella meina ég.
Já, nei. Ég held ég gæti alls ekki útskýrt þetta. Enda gæti þetta nú bara verið orðin málvenja á hverjum stað. En ég sjálf á erfitt með þetta, veit ekki alltaf hvort á að vera "í" eða "á".
namm... gaman að lesa eitthvað sem maður er svona rosalega sammála! Það er skyndilega orðið leiðinlegt að svara því hvað maður sé að gera. "Ég er í íslensku í háskólanum" "Nú, ætlarðu þá að verða kennari?" Eða ef um útlendinga er að ræða "But you already speak Icelandic" Þá þarf maður að útskýra að þetta sé nákvæmlega eins og þegar fólk í þeirra landi fer að stúdera þeirra móðurmál í háskólum... foj hvað fólk getur verið ignorant, mér leiðist það.
Skrifa ummæli