866. færsla. akademískur annáll
Ég hef eytt drjúgum tíma í að vera með samviskubit yfir því að hafa lítið gert í ritgerðinni. Í gær skilaði ég inn skýrslu (vegna sumarvinnunnar síðasta sumar) um fyrirlestra og greinar sem ég hef gert á árinu 2008. Og ég held svei mér þá að ég verði bara að hætta að vera með samviskubit, ég gerði alveg fullt á síðasta ári. Hér kemur það:
Febrúar 2008: Fyrirlestur á Mímisþingi (málþing íslenskunema)
Fyrirlesturinn hét „Það var blotnað í rigningunni“ og fjallaði um þolmynd af sögnum sem venjulega geta ekki staðið í þolmynd, sbr. dæmið í heiti fyrirlestursins (en það fann ég á netinu). Sögn eins og blotna hefur frumlag sem hefur ekki stjórn á atburðinum (maður blotnar ekki viljandi, maður getur hins vegar bleytt sig viljandi)en það virðist vera nauðsynlegt til þess að sagnir geti staðið í þolmynd. Vangavelturnar snérust svolítið upp í það hvenær maður hefur stjórn á atburði og hvenær ekki. Er til dæmis hægt að sofna á mettíma viljandi?
Rosalega gaman að halda fyrirlestur á Mímisþingi, sérlega skemmtilegt andrúmsloft og ekki verra að þar eru áhorfendur bæði úr bókmennta- og málfræðigeiranum sem þýðir það maður getur fengið athugasemdir frá sjónarhorni sem manni hefði aldrei dottið í hug sjálfum.
Apríl 2008: Fyrirlestur á Hugvísindaþingi á málstofunni „Íslenskan öll?“ en fyrirlestrarnir í henni tengdust allir Tilbrigðaverkefninu, sem var stór rannsókn gerð vítt og breytt um landið 2005-2007. Fyrirlesturinn minn hét „Þolanleg þolmynd?“ og fjallaði um niðurstöður um þolmynd í rannsókninni. Þar skoðaði ég svokallaða af-liði (strákurinn var laminn af nemandanum (ég fjallaði samt ekki um þetta dæmi sko, bara að sýna ykkur af-lið)) og aftur vafasama þolmynd eins og á Mímisþingi
Ágúst 2008: Fyrirlestur í DK á „stórfundi“.
Fyrirlesturinn hét „To passively get oneself something“ og fjallaði um þolmynd með afturbeygðum sögnum sem taka tvö andlög, dæmi: það var fengið sér hamborgara. Jájá, þið kannist sjálfsagt ekkert við þetta, en þetta er sko notað á netinu. Skoðaði netdæmin og komst að ýmsu um það hvernig þetta er notað. Var roooooooosalega stressuð fyrir fyrirlesturinn en eftir á að hyggja þá hefði ég ekkert þurft að vera það:) Bara svo stressandi að tala á ensku, en þegar maður er búinn að gera það einu sinni þá er það ekki jafn stressandi næst.
September 2008: Bókarkafli í Tilbrigðabók.
Skrifaði kafla upp úr fyrirlestrinum á Hugvísindaþingi, breytti og bætti (vona ég) og bætti við meiri greiningu á gögnunum. Bókin er sko ekki komin út svo kannski ætti ég ekkert að vera að tala um þetta, kaflinn er ennþá í yfirlestri hjá ritstjórum, kannski komast þeir að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki birtingarhæft. Vonandi ekki samt. Það gæti skapað þrúgandi andrúmsloft á heimilinu því að kæró er aðstoðarritstjóri.
Desember 2008: Fyrirlestur á ráðstefnunni Cultures in Translation á málþinginu The Glory of Babel, sem við kæró héldum saman (en hvað við erum nú samhent par). Fyrirlesturinn hét The glory of non-agreement: The rise of a new passive. Þarna vorum við mest að pæla í föllum á frumlögum og andlögum og pælum svolítið í því hvað gerist þegar undirliggjandi fall er ekki það sama og yfirborðsfallið. Hugsunin er í stuttu máli sú að þó að við sjáum ekki í hvaða falli ákveðið orð er þá hafi það samt fall (skv.þessu hafa til dæmis orð í ensku ekki yfirborðsfall en samt sem áður hafa þau undirliggjandi fall). Og svo tengjum við þetta nýju þolmyndinni (sem ég nenni ekki að fara út í hér), það átti upphaflega að vera aðalatriðið í fyrirlestrinum en á endanum vorum við ekkert svo sannfærð um að það sem við ætluðum upphaflega að segja væri rétt. Einhverra hluta vegna var þetta skemmtilegasti fyrirlesturinn og við eigum ábyggilega eftir að gera eitthvað meira úr þessu.
Mér finnst þetta nú bara heilmikið til að gera á einu ári, ekkert af þessu er skyldubundið, þ.e. ekki hluti af námskeiði eða eitthvað svoleiðis. Svo, nú þarf ég bara að vinna úr þessu öllu þannig að þetta passi sem hluti af ritgerð og þá er ég barast komin heillangt!
8 ummæli:
:) Þetta er skemmtilegt. Held bráðum að ég fari bara að sjá eftir því að hafa ekki farið í íslensku á sínum tíma. Eða mínum.
heilmikil afköst alveg! Þú skalt barasta henda samviskubitinu út um gluggann :)
-Gyða
Maður getur alltaf á sig blómum bætt og farið í íslenskuna:)
Auðvitað ertu búin að vera dugleg. Eins og ég ertu hins vegar ansi góð í að einblína á það sem þú gerðir ekki í stað þess að umbuna þér fyrir allt sem þú gerðir og það vel.
Þegar ég les afrekalista þinn yfir held ég bara að það sé alveg á hreinu að ég hef ekki þennan fræðimann í mér sem ég hélt að ég hefði. Eftir þrigga ára nám hef ég enduruppgötvað það sem ég vissi: Ég er fyrst og fremst góður penni en bara mellufær í málfræði. Eða eitthvað aðeins meira en það á góðum degi.
dr
ps. Takk fyrir rósina :)
Já, við erum svolítið líkar að því leytinu. Og þó að ég sjái það mjög vel þegar þú ert í ruglinu (þ.e. sérð ekki hvað þú gerir margt frábært út af einhverjum smáatriðum sem skipta ekki endilega máli) þá á ég erfiðara með að sjá það hjá mér.
Ég held nú að þetta sé ekki rétt hjá þér, ég held þú sért bæði góður penni og góður málfræðingur:) Held kannski að þig vanti bara smá sjálfstraust þar. En svona lagað fer upp og niður, ég var í mikilli niðursveiflu megnið af mastersnáminu mínu, fannst ég vera á kolrangri hillu og ætti minna en ekkert erindi í þetta nám, en núna er ég ekki lengur þeirrar skoðunar. Í bili:)
Rósin var rosalega lítil gjöf, eiginlega meira til að sýnast. En hún er samt sæt (þó að ég sé ekki hundrað prósent viss um hvernig maður notar svonalagað). En takk kærlega fyrir mig, gaman að fá að smakka á smákökunum þínum og gaman að fá sögu með gjöfinni:)
Og nú vil ég að vinnufamilían fari að hittast. Miss you guys.
Eða er það 'umbuna þig'? Umbunar maður einhvern? Akkúrat núna finnst mér bæði betra. Eða verra meira.
Jájájá vinnufjölskylda að hittast. Getum verið hjá mér. Nema Kristín verði búin að koma sér fyrir í fína herberginu sínu, þá er möst að fara þangað. Æ, já, ég sakna þín sérstaklega þar sem það eru bara nokkrir dagar síðan ég hitti K og G. Alltaf svo gaman saman.
Án þess að ætla að stressa þig ... Hefurðu eitthvað spáð í hvar þú ætlar að vinna í sumar? Bara forvitni ...
dr
Ég er orðin svo vön því að svona rannsóknavinna detti í hendurnar á manni... ef ekki, þá pæli ég í því seinna.
Held alveg örugglega (án þess að ég nenni að gá að því) að maður umbuni e-m. En yfirleitt þegar þú spyrð mig að einhverju segi ég tóma vitleysu.
Þið hafið náttla ekki jafnmikla þörf fyrir hitting því að þið eruð alltaf að hittast:)
Jú, hef alveg jafnmikla þörf fyrir hitting þar sem við erum allar sko.
dr
Skrifa ummæli