920.færsla. Pirr
Ég var eiginlega búin að gleyma helstu gagnsemi bloggsins míns - að vera höggpúði fyrir pirring og kvart. Undarlegt hvað það hjálpar stundum að hella úr skálum pirrings síns á netið.
Ég er sum sé þreytt og pirruð! Pirringurinn er samt held ég í rénun, og ég ætla ekkert að fara nánar út í ástæður hans.
Ástæður þreytunnar eru hins vegar þær að í gærkvöldi týndi ég símanum mínum á kóræfingu. Fattaði það ekki fyrr en seinna um kvöldið. Ég, eins og ég á vanda til, setti upp svolitla dramasýningu fyrir Einar (sem reyndi að skjóta því að að KANNSKI væri það mögulegt að ég myndi finna símann aftur. Hann talaði fyrir daufum eyrum (mínum.)), stundi jafnt og þétt, með grátstafina í kverkunum og endurtók í sífellu í huganum "ó, hvað á ég að gera án síma?! Ó, ég hef ekki efni á að kaupa nýjan!!" En ákvað samt að vakna eldsnemma og freista þess að finna símann í Eirbergi áður en einhver óprúttinn og gráðugur nemandi yrði fyrri til. Svo að ég vaknaði óguðlega snemma og dreif mig út. Dauðþreytt, því að fyrrnefnt dramakast olli því að ég átti erfitt með að sofna. En viti menn, síminn beið bara þarna rólegur eftir mér, liggjandi á flygli. Húrra fyrir því!!!
Fögnuðurinn yfir því að vera ekki búin að tapa mínum elskulega móbíla síma (þrátt fyrir stælana sem eru í honum stundum) hélt mér glaðri í bragði fram eftir degi.
Þangað til pirringurinn tók við. Og þreytan. Æ. Syfj.
Annars er ég með spænskan vin (frá því forðum daga í Sala) í heimsókn. Það er fyndið. Haha. OK. Kannski ekki alveg augljóst af hverju það er fyndið. Veit ekki alveg af hverju. En já. Get ekki talað spænsku. Kannski er ég þess vegna svona þreytt. Ekki hægt að ætlast til þess að maður tali tungum svona snemma dags. Nei.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli