964. færsla. Sorg og gleði
Vikurnar frá því að Siggi bróðir dó hafa verið mjög undarlegar. Eiginlega finnst mér eins og þessi tími hafi bara horfið úr lífi mínu. Tilfinningarnar og allt sem gerðist var svo ólíkt venjulegu lífi mínu að þetta verður mjög óraunverulegt í minningunni.
Það er svolítið skrítið hver sorgarviðbrögð mín eru. Það er ótrúlega sorglegt og súrrealískt að ég skuli geta séð mynstur í því, því að ég hef upplifað þetta tvisvar. Hvað er sanngjarnt við það að tveir bræður mínir skuli vera dánir? (Auðvitað er svarið við þessu það að lífið er einfaldlega ekki sanngjarnt, þetta er ekki heimurinn að hefna sín á mér (enda væri það reyndar mjög sjálfsmiðað sjónarhorn), heldur tilviljun og óheppni). En í bæði skiptin brást ég sumpart öðruvísi við en ég hefði búist við. Maður hefði haldið að þegar einhver svona nákominn manni deyr þá finnist manni fótunum vera kippt undan manni, tilveran umturnist og við taki djúpt þunglyndi. Vissulega var fótunum kippt undan mér en eftir fyrsta sjokkið, fyrstu dagana/vikurnar, og alla þá sorg og vonleysi sem fylgdi þeim, tók ekki við þunglyndi heldur þvert á móti bjartsýni. Það er eins og mér finnist ég þurfa að njóta alls þess góða í heiminum fyrst ég fæ yfir höfuð að upplifa það. Og að í svona mikilli sorg eigi maður einmitt að taka hverju gleðiefni fagnandi, því að sorgin er nógu mikil fyrir.
Mér finnst líka afskaplega sorglegt að viðurkenna það, en ég er reynslunni ríkari núna en þegar Kiddi dó, ég hef lært af þessu (en guð minn góður hvað ég væri til í að búa ekki yfir þessari reynslu). Þá fylgdi hugsununum um Kidda mikil beiskja og sorg yfir því að hann væri dáinn. Það er ótrúlega leiðinlegt af því að það litar minningarnar örlítið dekkri litum. Núna reyni ég meðvitað og ómeðvitað að gleðjast yfir minningunum um Sigga. Það má hlæja að látinni manneskju. Með því er maður ekki að sýna óvirðingu heldur þvert á móti að halda uppi minningu hennar. Maður má ekki hugsa um látnu manneskjuna með lotningu, heldur finnst mér að maður eigi að hugsa um hana eins og manneskjuna sem hún var, með öllum göllunum og kostunum sem hún hafði.
Þetta er það sem er svolítið erfitt í sambandi við svona andlát. Að maður hafi svolítið áhyggjur af því hvað öðrum finnist vera við hæfi. „Guð, hvað ætli fólk segi ef það sér mig brosa núna“. Þegar maður upplifir svona hörmulegan atburð þá ætti maður ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessu. Ég, til dæmis, ákvað að fara á undankeppnina í júróvisjón aðeins fjórum dögum eftir að Siggi dó. Það var að sumu leyti mjög erfitt og ákvörðunin ekki auðveld. Þetta var samt, fannst mér, það skásta í stöðunni (þ.e. að fara á keppnina frekar en að sleppa henni), og ég ákvað að njóta hennar til fulls, þó að mér þætti það svolítið skringilegt. Það var samt auðveldara en ég hélt. Hverjum hefði líka verið greiði gerður ef ég hefði mætt þangað með fýlusvip eða tárin í augunum? Hefði það á einhvern hátt verið betra? Mér fannst líka örlítið óþægilegt að lenda í smávegis viðtali við norskan fréttavef. Mér fannst það í sjálfu sér bara gaman, en hugsaði samt að einhverjum heima gæti þótt þetta óviðeigandi, að ég væri brosandi á einhverri mynd bara nokkrum dögum eftir þetta. Sem betur fer fann ég ekki fyrir neinum slíkum viðbrögðum. Fólk vissi að ég hefði farið á júróvisjón og talaði við mig um keppnina án þess að hneykslast.
Þetta þýðir samt ekki að ég sé ekki sorgmædd. Ég er afskaplega sorgmædd. Hvar sem er og hvenær sem er get ég fengið tárin í augun (t.d. núna,uppi í skóla, það er ekki mjög töff). Ég þarf enn þá að gráta og vera sorgmædd, stundum. Ég höndla stress afskaplega illa (meira en vanalega) og smávægileg vandamál geta virst óyfirstíganleg. En á sama tíma er ég undarlega hamingjusöm. Þegar allt kemur til alls er nefnilega alveg hægt að vera glaður og sorgmæddur á sama tíma.
6 ummæli:
Siggi hefði jú viljað að þú færir á þessa undankeppni. Nú, og svo er ekkert rétt eða rangt í þessum efnum.
Hvað um það, þú ert óvenjulega ung til að missa tvo svona nána ættingja. Svona reynslu ætti maður ekki að fá fyrr en seinna á ævinni.
En spáðu í það, það er nú ekki góð tilhugsun ef maður deyr að fólk sé bara sorgmætt það sem eftir er vegna þess að maður dó. Yngvi bróðir talaði um þetta, hann vissi jú að hann myndi deyja. Hann vildi að allir væru glaðir. Ég segi nú ekki að ég hafi alltaf farið eftir því, en það er í alvörunni mjög gaman að minnast einhvers sem hann sagði eða gerði :)
Það var miklu betra að hann var til þótt hann næði bara að verða 38 ára en ef hann t.d. hefði aldrei verið til. Og það sama gildir um Kidda og Sigga.
Mikið afskaplega er ég með á því sem þú ert að segja. Ég bjó auðvitað að því að þeir tveir sem ég hef misst nánasta mér vissu báðir með allnokkrum fyrirvara hvert stefndi og það er tvímælalaust skárra, þá er hægt að vinna sig í gegn um það að hluta til með viðkomandi. Það er frábært að geta hlegið og má (næstum) alltaf. Passa helst að særa ekki aðra, skítt með þá sem nenna að hneykslast. Það var mikið hlegið á stofunni hjá pabba í fyrra, síðast mjög stuttu eftir að hann dó þá skelltum við upp úr yfir honum þegar Dísa lýsti því hvernig hann brunaði af stað frá kirkjunni þegar Sigga dó, til að láta nú ekki standa upp á sig, á undan Siggu sjálfri og gleymdi tveimur kellingum!!!
Svo grét ég náttúrulega þegar ég kom út í bílinn um leið og ég var svo glöð hans vegna því auðvitað beið hann þess að losna.
Já víst getur verið flókið að vera til. Stórefa að nokkur nái að átta sig á hvernig hann/hún sjálf/ur er áður en yfir líkur.
Áttu ekki annars fínt hjól?
Já, sammála ykkur báðum:)
Ég held líka að voðalega fáir hneykslist eitthvað, maður bara heldur það kannski sjálfur.
Jú, ég á rosalega fínt hjól!! (Man það núna að mig dreymdi það, það var eitthvað vesen á gírunum).
Mér fannst tetta gód færsla. Áhugaverd. Finnst samt pínu rangt ad segja tad. En svo samt ekki.
mér finnst ekkert rangt við að segja segja það:D
Ég bý ekki yfir sömu reynslu og þú en veit af eigin reynslu að öll reynsla er reynsla. Kapísh? :)
Það þarf mikinn styrk og þroska til þess að fagna því góða við reynsluna og það kemur mér ekki á óvart að þér hafi tekist það.
Knús á þig.
dr
Skrifa ummæli