fimmtudagur, apríl 19, 2012

1006. færsla. Sumardagurinn fyrsti

Það besta við það að geyma hjólið sitt í bílskúrnum hjá pabba sínum yfir veturinn er tilfinningin sem maður fær þegar maður hjólar aftur eftir langa pásu. Ókosturinn er samt sá að það eru auðvitað fullt af góðum vetrardögum inni á milli sem hafa ágætis hjólafæri ... en það er bara svo vont að þurfa að geyma hjólið úti í öllum veðrum þegar maður notar það sjaldan. Pabbi kom með hjólið til mín í gær og ég ætla að hjóla í "fyrsta" skipti í dag - viðeigandi á sumardaginn fyrsta:) - og ég GET EKKI BEÐIÐ, ég hlakka svo til að hjóla í þessu góða veðri. Reyndar lítur út fyrir að það hafi dregið fyrir sólu, en það er nú ekkert víst að það endist lengi, og mér er svo sem sama þó að það verði ekki sól.

Ég ætla að hjóla niður í skóla (rím sím) til að mæta á vortónleika kórsins míns, sem ég er reyndar hætt í. Ég væri í pásu, en ekki hætt, ef ég væri ekki að flytja til BNA í haust. En ég mun þó hafa eitthvað hlutverk þarna í dag því að ég hjálpa til í miðasölu eða með veitingarnar eða eitthvað.

Þessi sól og þessir tónleikar fá mig til að hugsa til baka til fæðingarinnar hans Árna Gunnars. Dagana í kringum fæðinguna var líka svona glampandi sól og kalt loft eins og núna. Og ég tengi líka fæðinguna alltaf við kórtónleika því að sólarhringi áður en ég missti vatnið var ég að syngja á tónleikunum, og eins og ég lýsti í færslunni um fæðinguna, þá fannst mér þetta allt mjög mikill brandari því að ég var að grínast með það fyrir tónleikana að einhver af okkur þremur "kas"óléttu kórmeðlimum gæti misst vatnið á tónleikunum. Hefði kannski betur látið þetta grín ósagt því að það rættist svona næstum því. Ég hefði samt frekar veðjað á hinar tvær, hin Hlífin (hversu fyndið er að í litlum kór hafi verið tvær óléttar Hlífar á sama tíma? Ég hafði án gríns áhyggjur af því að við Hlíf myndum eiga sama dag og börnin okkar myndu víxlast óvart) átti að eiga tveimur vikum á undan mér (eða tíu dögum var það kannski) og hin átti alveg eins von á því að eiga fyrir tíman því að með fyrra barn fékk hún meðgöngueitrun og var sett af stað löngu fyrir settan dag. En svo var það bara ég. En gott samt að ég missti ekki vatnið á tónleikunum, það hefði án efa verið skemmtileg saga en ég er ekki svo viss um að ég hefði fílað það á þeirri stundu. En já, þetta eru svo góðar og fyndnar minningar, elska að rifja þetta upp. Það er nú kannski ekki sjálfgefið því að það var nú ekkert góð tilfinning að fara í fæðingu svona óvænt og svona löngu fyrir settan dag. Maður vissi ekkert hvers vegna þetta væri að gerast eða hvort það yrði í lagi með barnið - þó að ég hafi nú alls ekki leyft mér að hugsa svona hugsnir á meðan á þessu stóð. Þetta var mikið sjokk, ég hugsa stundum að fyrstu dagana á eftir hafi mér liðið svona eins og ég hefði lent í bílslysi eða álíka. Höndlaði þetta allt alveg frekar vel, en var samt í sjokki. Og svo var ég náttúrulega EKKI TILBÚIN:) Og þess vegna ætla ég að vera búin að gera flest allt tilbúið löngu fyrir tímann þegar/ef ég verð ólétt næst:) En það sem ég ætlaði að segja er að það er nú gott hvað mér finnst þetta góðar minningar þrátt fyrir sjokkið. Svei mér ef maður hlakkar ekki bara til þeirrar upplifunar að fæða aftur barn (sem ég vona að ég geri einhvern tímann, ekki misskilja mig og halda að ég sé ólétt, það er ég alls ekki:)).

Ég sem sagt hlakka til að hjóla á tónleikana á eftir.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

:D ... Ég elska svona færslur! :)!
En ha? Ertu að flytja til bandaríkjanna? Nú?
Ég hjóla oft og mikið - það er æði:)

Regnhlif sagði...

Hjól og sund er að mínu mati eina hreyfingin sem er skemmtileg:) Eða nei, mér finnst líka gaman í afró og örugglega einhverju öðru sem ég hef bara ekki fundið.

Já, Einar er að fara í doktorsnám í USA!