þriðjudagur, febrúar 12, 2013

1024. færsla. Dagur í lífi fíldelfskrar heimavinnandi húsmóður

Um sex AM (ég er að reyna að læra á þetta AM og PM dæmi): Eiginmaður hringir. Er á leiðinni heim af flugvellinnum í leibba og ég þarf að skottast niður tröppurnar með pening fyrir bílnum. Við förum aftur í bólið í fjölskyldukúr þangað til ÁG vaknar.

Um sjö: Barnið vaknar og ég fer með honum fram. Gef honum gau (graut) og svona, vaska upp og svona. Hann leikur sér með BÍAAA (bíla) sem eru það besta í heiminum að hans mati um þessar mundir. Skelli svo í vatnsdeigsbollur, enda er bolludagurinn. Bakaði reyndar líka bollur í gær en ein uppskrift er nú ekki upp í nös á ketti. Þeytti rjóma, hitaði kaffi og svona.

Um níu: Vek Einar til að koma fram og borða ilmandi heitar bollur (eða einhvern veginn svona orðaði ég þetta til að ná eiginmanninum fram úr). Barnið er afar ánægt með að hafa heimt föður sinn úr helju, eða ráðstefnu í Arisóna.

Óræður tími: Fæ að leggja mig aðeins, Einar er ekki í skólanum fyrr en eftir hádegi á mánudögum, þó að oftast fari hann fyrr af stað til að læra. Faldi mig inni í rúmi með kodda yfir hausnum. Dulargerfið svínvirkaði, barnið fann mig ekki. Nema barnið hafi bara verið svona ánægt með að hafa heimt föður úr helju og því verið sama um staðsetningu móður sinnar. Gæti verið.

Um ellefu: Ég drattast aftur á lappir enda er farið að líða að lúr hjá barninu. Hann þarf að borða fyrst og fá nýja bleiu.

Um hálf tólf: Skrambi er ég þreytt, enn þá. Held ég leggi mig aðeins með barni og eiginmanni.

Um tólf PM: DRRRRR dyrabjallan hringir. Ég hleyp niður. Maður veit aldrei á hvaða skemmtilegu sendingum maður á von. Alltaf þegar dyrabjallan hringir þá er það pósturinn. Þið vitið, fólk hérna er alltaf að panta sér eitthvað á netinu. Alltaf. Í þriðja eða fjórða skiptið í röð opna ég fyrir sama sendlinum. Og tek á móti pökkum nágrannanna (vonbrigði). Við erum að verða miklir vinir, sem er hálf vandræðalegt af því að ég skil hann ekki og hann ekki mig. Ég þarf alltaf að kvitta hjá honum og svo stafa eftirnafnið mitt, honum misheyrist alltaf og ég fer alltaf að stafa á íslensku og eitthvað svona rugl. "Oh, you again! Are you always at home?" "Yes, I am always at home".

Um tólf, nokkrum mínútum síðar: Ákveð að ég skuli fara út úr húsi þegar barnið vaknar. Hefur ekkert með ásökun sendilsins um að ég sé alltaf heima að gera. Tek afgang af hakki og spagettíi út úr frystinum og byrja að hita í potti. Bý til ostabrauð fyrir okkur Einar. Týni til ofan í skiptitöskuna og hef útiföt barnsins reiðubúin. Það rignir.

Korter í eitt: Vek mjög ruglaðan eiginmann sem skilur ekkert í því að klukkan sé korter í eitt né hvaða þýðingu það hafi fyrir hann. Barn vaknar líka. Við borðum öll saman og drífum okkur út úr húsi. Eiginmaður á leið í skólann og við hin á leið á Please Touch Museum.

Tuttugu og fimm mínútur yfir eitt: Komum á stoppustöðina og ég átta mig á því að líklega sé strætó nýfarinn. Ákveð að nýta tímann og fara í dollarabúð þarna rétt við hliðina á sem ég var nýbúin að uppgötva. Ég elska dollarabúðir. Svo mikið drasl sem er til sölu en svo ódýrt. Keypti borðdúk, átta herðatré og sigti á innan við fimm hundruð kell íslenskar. Þegar ég kem út úr dollarabúðinni sé ég að það er maður að selja grænmeti og ávexti í vörubíl þarna fyrir framan. Mig vantaði einmitt kartöflur til að hafa með kjötbollunum.

Um tuttugu mínútur í tvö: Strætó kemur, á réttum tíma. Barnið nýtur þess að fá að ferðast í strætó og ég nýt útsýnisins yfir eitt af hrörlegri hverfum borgarinnar.

Um tvö: Mætt í safnið. Barnið er glatt. Mamman eltir. Það eru ýmsir bílar þarna sem hægt er að setjast upp í. Píanó til að spila á, lítil rennibraut og önnur börn til að óttast.

Um þrjú?: Ég næ syni mínum í fatahengið með loforði um "nammi" (í hans munni "minna"), sem er seríós með bláberjabragði. Sonur strýkur þó nokkrum sinnum og lætur mömmu sína hlaupa þvert yfir andyrið. Rétt missum af strætó en ég les á skilti til minningar um afrísk-amerískan hafnabolta (þetta hljómar eitthvað undarlega hjá mér).

Um hálf fjögur: Förum í Aldi. Geri mjög góð kaup á hakki fyrir kjötbollugerð kvöldsins.

Um fjögur: Heimkoma. Það er alltaf strembið. Upp með barn og vörur en í þetta skiptið skildi ég kerruna eftir niðri (allt hakkið sem ég keypti var svo þungt). Fyrir utan dyrnar beið mín skemmtileg sending, afmæliskort sem Magga Anna skrifaði á og fullt af lakkrís:)

Um hálf fimm: Barn fær jarðarber og appelsínusafa. Mamman fær lakkrís.

Um hálf sex: Kjötbollugerð hefst. Í fyrsta skipti sem ég geri kjötbollur frá grunni. Voðalega fullorðin eitthvað. Voðalega mikið af kjötbollum en sumar verða frystar.

Um sjö: Andskotans vesen varð úr þessu, þetta sem var svo einfalt eitthvað. Eldhúsið á hvolfi. Barnið búið að horfa of lengi á sjónvarp. Eru kjötbollurnar gegnumsteiktar? Oh, setti of mikla mjólk í kartöflumúsina. What? Á þetta bragð að vera af sósunni? Kannski smá salt. Og smá pipar. Og sulta. Rauðvín? Nei, þessi sósa verður bara skrítnari ef eitthvað er. Eiginmaður kemur heim og bjargar barni frá sjónvarpi. Matur borðaður.

Um níu. Eiginmaður sér um að koma barni í ból. Móðirin horfir úrvinda á Batchelor.

Best að blogga.

Og fara svo að sofa.

Svarið er: nei, mér leiðist yfirleitt ekki þó að ég sé heimavinnandi.


4 ummæli:

ella sagði...

Ekkert að vinna? Neei, bara heima.

Fríða sagði...

Ég skil

Nafnlaus sagði...

:) En skemmtilegt :)

Nafnlaus sagði...

Dásamleg lesnig, sé þetta fyrir mér eins og myndskreytt bók... bestu kveðjur til ykkar elsku dúllur.
Helga Ellen