mánudagur, febrúar 18, 2013

1025. færsla. Kaffi

Ég er búin að eignast brauðrist. Fékk hana í afmælisgjöf frá Svövu mágkonu og hennar famelí. Það er sem mig grunaði, að brauðið hérna er mun þolanlegra ristað. Sérstaklega með hummus, sem er nýjasta æðið mitt. En það kemur eitt eldhústæki í stað annars, því að í gær brotnaði pressukannan okkar. Það er náttúrulega ófært með öllu að vera heimavinnandi án kaffis. Svefn sonar míns hefur verið með besta móti upp á síðkastið, en eins og margir vita, hefur í gegnum tíðina verið óttalegt svefnvesen á honum. En samt er ég alltaf þreytt þegar hann vaknar klukkan sjö á morgnanna. Sjö er alls ekki slæmt. Það er mun betra en sex, að ég tali nú ekki um hálf sex, ja eða slitróttan og lítinn svefn alla nóttina. En það er of snemmt fyrir mig, hef ég komist að raun um. Ég er miklu þreyttari eftir átta tíma svefn ef ég vakna klukkan sjö, heldur en eftir jafnlangan svefn ef ég vakna klukkan átta. En samt þegar ég hugsa um þetta þá er þetta óttalegt rugl í mér. En kaffi. Ég dey ekki ráðalaus og hef hellt mér upp á kaffi með því að nota sigti (sem ég er einmitt nýbúin að kaupa í dollarabúðinni, sjá færslu 1024) og "sterkan" eldhúspappír. Eldhúspappírinn á annars að gegna hlutverki blautklúts því að ég er ekki svo hrifin af öllum efnunum sem eru í blautklútunum sem fást hérna. Á Íslandi notuðum við mest grisjur og bleyttum, en stundum líka Neutral-blautklúta. Hér fæst hvorugt, eða grisjur fást, EN ekki í svona pökkum með hundrað grisjum í bunka, heldur kannski tuttugu saman í pakka, þar sem HVERRI GRISJU er pakkað í miklar umbúðir. Tek ekki þátt í slíkri vitleysu, auk þess sem það er dýrt. Var mikið búin að brjóta heilann um það hvað ég gæti notað í staðinn þegar allt í einu kviknaði ljós þegar ég horfið á sjónvarpsauglýsingu um sérstaklega sterkar eldhúsrúllur sem rifna ekki þó að þær blotni. En það er einmitt það sem þarf til að nota á bossa. Hagkvæmt og hentugt. Oh, ég ætlaði ekki að skrifa svona mikið um þetta. En ég er allavega að drekka kaffi núna og það er gott. Að drekka kaffi. Og kaffið er líka ágætt á bragðið. Kannski þurfum við ekkert nýja kaffivél. Nei ég segi nú bara svona.

Annars er það helst að frétta að um næstu helgi er svona prospie weekend. Prospie stendur fyrir "prospective" (líklegur, tilvonandi). Þá er þeim stúdentum, sem háskólinn hefur boðið skólavist, boðið í heimsókn og nemendur og kennarar sýna þeim svæðið og skólann. Þetta er svolítið fyndin stund, því að skólinn er þegar búinn að velja úr hverja hann vill fá, og er því að reyna að sannfæra prospie-ana um að velja þennan skóla en ekki einhvern annan. Sem sagt, hlutverkin hafa snúist við, því að rétt áður voru þessir tilvonandi nemendur að reyna að sannfæra skólann um að velja sig. Þetta er sama heimsókn og við Einar fórum í hingað út fyrir ári síðan. Mikið sem tíminn flýgur. Núverandi nemendur hýsa gestina og erum við því að fá einhvern gaur í gistingu um næstu helgi. Mér finnst þetta pínu fyndið, mér finnst við ennþá svo ný og vitlaus hérna, en eigum núna að vera að kynna borgina fyrir einhverjum öðrum. Ég var líka að átta mig á því að ég hafði alltaf séð fyrir mér að við myndum taka á móti pari, af því að við vorum par í fyrra. Það er hins vegar alveg örugglega ekki algengt, að maki komi með í svona heimsókn. Enda eru flestir samnemenda Einars mun yngri og ólofaðir, hvað þá að þeir eigi barn. En okkur Einari fannst mikilvægt að ég kæmi með í heimsóknina í fyrra því að ákvörðunin hafði jafnmikla þýðingu fyrir mig og Einar, þar sem ég "þurfti" að flytja hingað með honum, og ég hafði ekki einu sinni komið til USA áður:) Allavega - þetta verður athyglisvert. Vonandi verður þetta skemmtilegur gaur sem ákveður að taka skólavistinni:)

6 ummæli:

Regnhlif sagði...

Ég segi samt venjulega ristavél

ella sagði...

Mér finnst þetta heita brauðrist. Eindregið.

ella sagði...

Ætlaði líka að segja að umhverfisvænast er auðvitað að nota klút í sigtið. Þegar ömmur okkar helltu upp á var kaffipokinn að sjálfsögðu úr taui og hann var svo bara skolaður þegar búið var að hella korginum úr. Ekkert einnota drasl né sóun.

Regnhlif sagði...

Hm, já það er rétt (ekki þetta með brauðristina sko). Ég gæti kannski notað bara taubleiu, og skolað á milli. Annars áttum við á Íslandi fjölnota kaffipoka. Fylgdi með vélinni, hann var bara eins og mjög þéttofið sigti. Við föttuðum fyrst ekkert að þetta kæmi í stað kaffipoka, og notuðum þá líka:)

Nanna sagði...

Já ég vona líka að hann sé skemmtilegur.

Nafnlaus sagði...

Halló, það er kominn 1. mars... hvernig fór þetta með gaurinn? Var hann skemmtilegur? Hvar komuð þið honum fyrir, eruð þið með gestaherbergi? Details...
kv. Helga Ellen
P.S. er snjór og vesen hjá ykkur?