miðvikudagur, maí 28, 2014

1034. Af sætum svínum og varðgæsum í miðri stórborg

Það hafa verið margir skemmtilegir dagar hérna hjá okkur í Philly síðustu vikurnar, þ.e.a.s. eftir að við stigum upp úr hundleiðinlegum veikindum og volæði. Á sama tíma og veikindin riðu yfir fóru þrjár vinkonur mínar í löng ferðalög og mömmuhópurinn í hverfinu lognaðist út af (allavega hittingarnir). Þetta fannst mér verulega fúllt. En beint eftir veikindin kom afmælið hans Árna, sól og hiti og stelpurnar sneru til baka ein á eftir annarri. Og Einar kláraði flest verkefnin og hefur því haft meira svigrúm til að skemmta sér með okkur Árna Gunnari.

Einn góðan rigningardag fórum við Árni í bílferð með einni af þessum endurheimtu vinkonum. Okkur finnst mjög gaman að fara í bíl, því að það gerum við svo sjaldan hérna úti (bíllaus lífstíll). Vinkonu mína, sem er þýsk, langaði að kaupa sér rifsberjarunna því að það er ekki mikið framboð á rifsberjum til sölu hérna. Svo að við fórum í gróðrarstöð. Við héldum báðar að þetta væri eins konar bóndabær fyrir utan borgina, sérstaklega af því að hún hafði heyrt að það væri svín þarna, en svo komum við á staðinn og þá var þetta bara alveg inni í borginni. Þannig að við héldum að þetta með svínið væri einhver misskilningur. Hins vegar sáum við strax kanínur sem strákunum okkar fannst gaman að klappa, skjaldbökur í búri og auðvitað rifsberjarunnana:) Svo var bara svín þarna eftir allt saman:) Starfsmaður sagði okkur að það væri í einum enda garðsins, en þar sem það væri rigning væri það nú líklega inni í skúrnum sínum. Við gætum þó prófað að kalla á það með nafni "Milkshake":) Þegar við komum í hornið var svínið hvergi sjáanlegt, en ég ákvað fyrir rælni að prófa að kalla Milkshake, og viti menn, krúttlegt loðið svín kom strax hlaupandi til okkar eins og hundur. Ég gat ekki betur séð en hann/hún (veit ekki) væri brosandi. Það var reyndar pínu erfitt að komast að svíninu, því að þar fyrir framan vappaði ógnvekjandi varðgæs, sem leit út eins og afkvæmi gæsar og kalkúns. Henni fannst við greinlega ekki eiga heima þarna og hvæsti sífellt á okkur og beit í tærnar á syni mínum sem var sem betur fer stígvélaður. Svo voru þarna líka hænur og riiiisastórir pollar. Þegar maður er bara tveggja ára eins og vinur okkar, þá geta svoleiðis pollar náð manni upp í klof. Þó að við værum hundblaut eftir þessa ferð, þá held ég að rigningin hafi gert þetta helmingi skemmtilegra. Það er bara stundum þrælskemmtilegt í rigningu.

Mig langaði bara að festa eiga þessa minningu. Ég held kannski/vonandi áfram að rifja upp fleiri góða daga hér:)

5 ummæli:

Nanna sagði...

Hahah! :) Og mikid er vel gert ad hafa virkilega kallad Milkshake!

Afsaka öll kommentin mín - finnst bara færslurnar thínar skemmtilegar :)

Regnhlif sagði...

Aldrei afsaka komment:) Mjög gaman að fá komment:)

Haha, já, mér leið pínu kjánalega að kalla MILKSHAKE en það var svo fyndið þegar hann/hún kom strax hlaupandi:)

ella sagði...

Rigning getur alveg verið skemmtileg ef ekki er allt of kalt á meðan.

Regnhlif sagði...

Já, einmitt, Ella. Og ef maður þarf ekki að vera of lengi úti í henni í einu.

Unknown sagði...

Þetta minnir mig a þegar ég bjó í berlín og það var stelpa hjá mér niðri i heilar tvær vikur sem byrjaði alla daga á þvi klukkan 5 að spila sama lagið, sem var alveg horror lag by the way. En svo flutti hún út var örugglega einhver með íbúðina í láni