föstudagur, maí 30, 2014

1036. færsla. Um ekkert

Við búum í gömlu húsi sem hefur ekki verið haldið sérstaklega vel við. Gólfin í okkar íbúð eru allavega allsvakaleg. Það brakar verulega í þeim t.d. Og þegar fólkið fyrir ofan okkur gengur um þá heyrist ansi hátt niður til okkar. Og núna virðist nágranni okkar vera að vinna á vöktum sem byrja snemma morguns, og hún virðist vakna seint því að hún hleypur um gólfin, sem veldur þvílíkum drunum niður til okkar. Og við þetta vaknar sonur minn. Klukkan sex á morgnanna. URG. Held samt ekki að nágranninn sé endilega að labba óeðlilega hátt og hún veit örugglega ekki hversu hátt þetta hljómar í okkar íbúð. Og mér væri alveg sama ef sonurinn vaknaði ekki við þetta, því að ég get alveg sofið í gegnum þetta.

Næstu tvær vikurnar verða skemmtilegar! Á laugardaginn förum við í barnaafmæli hjá Lou vini okkar (þessum sem var fór með okkur að heimsækja Milkshake og óð polla upp í mitti). Á sunnudaginn skreppum við svo í strandferð, vúhú. Gistum meira að segja á fancy hóteli með spilavíti:) Þetta er í Atlantic City, sem er strandstaður sem gengur bara út á túrisma. Fyrst byggðist bærinn upp sem strandstaður fyrir íbúða Fíladelfíu (klukkutíma akstur), svo drabbaðist hann niður en byggðist aftur upp þegar hann fékk leyfi til að hafa spilavíti. Svo að það er allt morandi í spilavítum. Við höfum nú engan áhuga á því, en það verður gaman að fara á ströndina. Verst er að það verður ekki svo hlýtt, en við ákváðum samt að skella okkur, fundum tilboð á gistingunni og þetta var eini dagurinn sem gekk upp fyrir okkur. Og ef það er ekki beint sólbaðsveður, þá getur við hangið í innisundlaug og nuddpottum og svo er nú alveg hægt að byggja sandkastala þó að það sé ekki svo hlýtt.

Þetta var eina dagsetningin sem gekk upp fyrir okkur (með stuttum fyrirvara) því að svo fáum við (að öllum líkindum) vinapar frá Íslandi í heimsókn í næstu viku. Þau eru að heimsækja systur stráksins í New Jersey og ætla að kíkja yfir til okkar. Það verður gaman:) Svo í vikunni þar á eftir er það svo bara 10 vikna Íslandsferð:) Wúhú. Svo gott að vera í svona langan tíma til að geta eytt góðum tíma með þeim nánustu, og hitt slatta af þeim ekki nánustu:) Svo er hvort eð er allt of heitt hérna yfir heitasta tímann.

Svo að næstu dagar fara í að undirbúa ferðalög og gestakomu á milli þess sem við gerum eitthvað skemmtilegt.

3 ummæli:

ella sagði...

Ætli séu ekki til eyrnatappar fyrir morgunglaða syni?

Regnhlif sagði...

Ó hvað það væri nú heppilegt ef hann fengist til að nota slíkt:) Vona bara að vaktataflan hjá nágrannanum verði búin að breytast þegar við komum aftur hingað í haust.

Nanna sagði...

Ég segi bara: :):):)