mánudagur, október 20, 2014

1043.færsla. Haust í Philly

Þessi síðasti mánuður hefur verið pínu kreisí. Kreisí góður samt sko.

Í raun og veru hefur verið brjálað að gera frá því að við komum aftur hingað út í lok ágúst. Samt hef ég ekki gert neitt af viti, þ.e. unnið. En ég hef verið mjög busy í lífinu. Nokkrum dögum eftir að við komum heim veiktist Árni Gunnar. Ekki mikið en það tók hann rúma viku að lagast. Undir lokin af veikindum fórum við í helgarferð að heimsækja vini í annarri borg. Við vorum löngu búin að kaupa miða í lestina og heimsóttum lækni um morguninn sem gaf okkur grænt ljós á að fara með barnið í svona ferðalag. Eftir á að hyggja var hann kannski ekki orðinn alveg nógu hress í svona ferðalag, samt gekk þetta vel og honum varð ekki meint af. Svo að líklega var þetta í lagi, þó að ég hafi verið með mömmusamviskubit. Svo liðu tvær vikur og þá byrjaði barnið á leikskóla. Húrra fyrir því:) Löngu kominn tími á það, fyrir okkur bæði, held ég. Mér fannst það samt hræðilega erfitt, mér leið eins og ég væri fyrsta mamman í heiminum sem hefði þurft að skilja barnið svona eftir. Og hann grét, að sjálfsögðu, eins og ég væri að skilja hann eftir í ljónagryfju fyrstu dagana. Það kom mér ekki á óvart, því að hann lét líka svona á Íslandi í sumar ef einhver átti að passa hann, og þá var hann þó hjá fólki sem hann þekkir mjög vel og elskar. Og svo hef ég líka unnið sjálf á leikskóla og veit að mörg börn gráta í kveðjustundinni en taka fljótt gleði sína þegar foreldrarnir eru farnir. En það er allt annað að vita þetta eða vera í aðstæðunum sjálfur. En svo gekk aðlögunin eiginlega fáránlega vel, sérstaklega miðað við það hvað hann er feiminn og háður mér (enda hef ég verið svo mikið með hann, sérstaklega eftir að við fluttum út, þar sem hann er sárasjaldan í pössun) og við nýkomin aftur frá Íslandi, þar sem hann gleymdi talsverðu af enskunni (sem hann talaði auk þess ekki fullkomlega fyrir). Strax á fimmta degi grét hann ekki, í vikunni á eftir grét hann stundum og stundum ekki, og svo eftir tvær vikur hefur hann alltaf kvatt mig sáttur, húrra fyrir því:) Mér finnst það samt alveg ótrúlega fyndið að hann eigi sér líf sem ég er ekki hluti af og veit eiginlega ekki hvað er í gangi í. Hann á vini sem hann talar um, en ég veit ekki einu sinni hvernig þeir líta út. En ég mun nú fljótlega kynnast þessu betur - leikskólinn hans býður foreldrum nefnilega upp á að vinna einn dag í mánuði á leikskólanum og fá í staðinn smá afslátt af skólagjöldunum. Mér finnst það ótrúlega sniðugt, þá kynnist maður starfinu miklu betur og svo hlýtur þetta að veita skólanum aðhald, ef það eru "alltaf" einhverjir foreldrar á svæðinu þá getur varla eitthvað mjög vafasamt viðgengist. Ég verð samt að segja að ég skildi ekki alveg hvernig þetta ætti að ganga upp og gat ekki alveg séð fyrir mér að það væri þægilegt að hafa alltaf foreldra inni á deildinni, sem kunna ekki á starfið og trufla örugglega barnið. En svo er þetta þannig að foreldrarnir eiga fyrst og fremst bara að vera þarna til að eyða tíma með barninu sínu, það er sem sagt ekki ætlast til þess að maður sé á fullu við að vinna eitthvað, heldur bara að vera með og hjálpa eitthvað til ef maður getur. Ég má bara ekki gleyma að mæta í þetta, maður ræður alveg sjálfur hvenær maður gerir þetta.

Þegar ÁG var búinn að vera eina viku á leikskólanum mætti pabbi á svæðið. Það var roslega gaman og við gerðum mjög margt, nýttum það til fulls að vera með bíl og keyrðum mikið út fyrir borgina. Pabbi var hér í níu daga, held ég.

Svo þremur dögum eftir að hann fór, kom Eysteinn frændi í heimsókn. Hann ætlaði upphaflega bara að vera stutt (hann var að ferðast á milli borga að hitta vini sína frá því að hann var í high school í Boston í fyrra) en svo breyttust plönin hans og hann endaði á því að vera líka í níu daga hjá okkur. Það var rosa gaman að fá hann, við túristuðumst aðeins um borgina milli þess sem hann hitti vini sína. Svo eldaði hann rooosalega góðan mat fyrir okkur, namm.

Daginn eftir að Eysteinn fór frá okkur komu mamma og Anna svo til okkur. Það var yndislegt að fá þær, við áttum margar góðar mæðgnastundir, túristuðumst, BORÐUÐUM og versluðum. Og þær fóru í gær. Svo að, í rúmlega fjórar vikur vorum við næstum stanslaust með gesti í litlu íbúðinni. Þau voru öll svo sannarlega aufúsugestir og frábært að fá þau, en það er líka pínu gott að fá smá rólegan tíma núna:) Sérstaklega líka af því að síðasta vika var brjáluð vinnutörn hjá Einari.

Haustið er komið hér í Philly. Hitinn er aðeins farinn að lækka, vindurinn blæs og laufið á trjánum er litríkt. Það er samt enn svona í kringum 15 stiga hiti flesta daga hér, en maður finnur fyrir haustinu í loftinu. Og hrekkjavakan er á næsta leyti, en það er líklega uppáhalds bandaríska hátíðin mín hér. Ég er búin að lofa barninu að sauma á hann fílabúning - ég þarf að fara að vinda mér í það, enda þarf ég að sauma þetta í höndunum, eins og ég gerði í fyrra. Það var reyndar minna mál en ég hélt, mjög auðvelt að vinna með flís. En svo klúðrast þetta örugglega þetta árið. Kannski ekki samt.

3 ummæli:

Nanna sagði...

En fallega skrifað.
Og sniðugt - hafði aldrei hugsað út í að maður geti saumað búninga/föt í höndunum.

Regnhlif sagði...

Já, ég ætlaði að hafa þetta rosa einfalt í fyrra, ætlaði að kaupa brúna hettupeysu á hann og sauma eyru og skott á peysuna. En þá fékkst bara hvergi brún hettupeysa, ég leitaði og leitaði. Svo að ég endaði á því að prófa bara að sauma hettupeysu sjálf úr brúnu flísteppi sem ég fann í second hand búðinni. Það var mjög auðvelt, ég gerði bara mjööög stór spor, svo að þetta tók ekki einu sinni langan tíma. En svo saumaði ég eitthvað smotterí til að festa á hettupeysur fyrir okkur Einar, og notaði gamla stuttermaboli í það, og það var miklu miklu erfiðara, svo að ég mæli ekki beint með því. Og auk þess veit ég ekki hvort apabúningurinn hans ÁG frá í fyrra myndi endast vel ef hann væri notaður meira, ég get ekki sagt að ég hafi vandað til verka, en það er allt í lagi því að hann notaði peysuna bara einn til tvo daga:) Ætla að gera svipað í ár, er búin að kaupa blágrátt flísteppi og ætla að reyna að búa til hettupeysu með fílseyrum, skotti og rana. Sé til með buxurnar:)

Nanna sagði...

Sniðugt að nota flísteppi! Er hægt að fá þau svo ódýrt ju. En heyrðu já, ég man eftir búningnum á myndum á facebook (Y)