laugardagur, nóvember 01, 2014

1044. færsla. Halloween

Það er skítakuldi í húsinu. Sonur minn sefur vært í flísgalla undir þykkri dúnsæng og er alveg mátulega hlýtt. Ég sit í stofunni við ylinn af ótal kertum. Viðeigandi að fyrsta kalda kvöldið sé einmitt á Hrekkjavöku. Graskersluktir og samansafn af mismunandi tegundum af rauðum og appelsínugulum kertum skapa einmitt réttu stemninguna. Á svona kvöldum er best ef maður getur bakað eitthvað í ofni, til að ná upp smá hita. Heppilegt að ég átti einmitt graskersfræ til að rista, fyrst ég náði ekki að skera graskersluktirnar fyrr en í dag. Ótrúlegt magn af fræjum sem eru í svona graskerjum

Ég er gras(kers?)ekkja þessa helgina. Skyldan kallaði eiginmanninn á ráðstefnu í öðru fylki. Nú þegar haustar fyrir alvöru, eiginmaðurinn er í burtu og, tjah, það eru draugar á hverju götuhorni, finn ég örla á myrkfælni. Veröldin er undarlega þögul svo að hið óþreytandi sírenuvæl stórborgarinnar hættir að vera ógreinilegt bakgrunnshljóð og verður að undirspili fyrir dans flöktandi kertaloganna. Merkilegt annars hvað nærvera þriggja ára barns slær mikið á myrkfælni.

Síðustu vikuna hef ég setið sveitt við flest kvöld og handsaumað grímubúning á barnið. Endilega minnið mig á það á næsta ári þegar ég ætla að gera slíkt hið sama, að þetta er ekki eins lítið mál og ég held það sé. Ég var alveg komin í kapphlaup við klukkuna og varð að sleppa ýmsum smáatriðum sem ég hafði ætla mér að gera. Fíllinn varð til að mynda tannlaus, greyið. Fyrir utan smávesen eins og það að skottið leit út eins og skottið á Eyrnaslapa og eyrun voru frekar eins og músareyru og svo hið algjörlega óþolandi smáatriði að sonur minn, sem hefur í nokkrar vikur sagt í hvert einasta skipti sem hann er spurður að hann ætli að vera FÍLL, vaknaði skyndilega í gær harður á því að hann ætlaði að vera API (eins og í fyrra). Ég þorði að sjálfsögðu ekki að hætta við að klára fílabúninginn, svona ef hann myndi jafnsnögglega skipta aftur um skoðun og himin og jörð myndu farast ef hann gæti ekki fengið að vera fíll, og sat einbeitt við að sauma (og horfa á Netflix) til klukkan 1 í nótt. Svo gat ég auðvitað ekki sofnað því að heilinn hélt áfram að sauma þegar ég lokaði augunum. Ég vaknaði því með fullkomið litarhaft afturgöngu í morgun. Barninu fannst réttara að fresta þessari hátíð, enda er hann rétt að komast á aldur til að hafa vit á því að vera smeykur við ógnvekjandi hluti, og fannst fílabúningur hin mesta vitleysa. Hann ákvað reyndar á síðustu stundu að fara sem fíll á leikskólann og bjargaði þar með geðheilsu móðurinnar, sem ætlaði auðvitað ekki að setja pressu á barnið að vera fíll ef það vildi það ekki (þetta snérist víst allt um að hann hefði gaman, þó að stundum sé ekki alveg ljóst hvort okkar fær meira út úr svona hátíðum, eða jú, það er örugglega ég, en ég vona samt að mér takist að yfirfæra ekki mínar væntingar yfir á hann eða eitthvað) en allt þetta maus við þennan hálfmismheppnaða búning hefði bara verið eitthvað svo sorglegt ef hann hefði svo ekki einu sinni viljað prófa að fara í hann. Ekki það, handavinna fyrir framan skemmtilega sjónvarpsþætti er nú ekki sorgleg tímaeyðsla, eiginlega alveg frábær tímaeyðsla ef satt skal segja. En eftir leikskólann vildi hann ekki vera fíll lengur og fékk (með glöðu geði) að vera sami api og í fyrra.

Hann mætti á leikskólann fyrir hádegi til að taka þátt í afmælisveislu og hallóvínveislu, var þar sína fjóra klukkutíma, svo slökuðum á heima í smá stund og fórum svo út í skrúðgöngu og að trick-or-treata. Ég held við séum mjög heppin að það sé svona frábær Hrekkjavökuviðburður akkúrat í hverfinu okkar. Það eru bara einhver íbúasamtök sem skipuleggja þetta - skreyta allt og svo fær maður fullt fullt af kökum, eplacider, og ís frá tveimur mismunandi ísbúðum í hverfinu. Og mjög margir gefa nammi líka. Fyrsta árið var ég dauðhrædd um að týna barninu í mannfjöldanum og var því fegin að hann var í beisli, enda vildi hann hlaupa burt frá mér. Í fyrra var þetta líka svolítið þannig - en núna í ár vildi hann ekki sleppa hendinni af mér, hræddari um að týna mér en ég honum. Það er talsvert auðveldara þannig:) Svo komum við heim og hann bað fljótlega um að fá að fara að sofa, fyrir klukkan sjö! Nátthrafninn minn! Vona innilega að hann sé ekki að verða veikur, því að hann er kvefaður. Ég tel mér trú um að það sé eðlilegt að barn sem vaknaði snemma og tók svo þátt í svona mikilli dagskrá og spennu og útiveru, sé þreytt óvenjusnemma. Bara að honum hafi ekki orðið meint af allri spennunni og dagskránni og útiverunni, verandi með kvef. Annars skrúfast mammviskubitið sjálfkrafa í botn.

Mér finnst eins og tónninn í þessari bloggfærslu sé drungalegri en ég ætlaði mér. Það er líklega stemmingin, kvöldið og kertaljósið.

- Frábær dagur með apa og fíl. Hrekkavakan er uppáhalds bandaríski hátíðisdagurinn minn. Þar á efir kemur Thanksgiving og páskaeggjaleitin um páskana-

Og p.s. Það er ekki svo kalt úti, bara inni. Það eru tíu gráður úti núna klukkan 11 um kvöld. En það er greinilegt að við þurfum að tala við leigusalann um að láta kveikja á hitanum, þetta er alveg við þolmörk sko. Maður er svo góðu vanur.

3 ummæli:

ella sagði...

Láttu hann langa til að vera hestur næst - eða sleðahundur, báðir gætu verið með beisli :)

Regnhlif sagði...

Góð hugmynd:)

Nanna sagði...

:D Jii var bara búin að gleyma hvað bloggið þitt er stórskemmtilegt!