fimmtudagur, nóvember 13, 2008

854.færsla.ástandið

Ég verð að segja að ég er bara þónokkuð leið yfir ástandinu. Maður veit einhvern vegin ekkert hvað gerist og hvernig þetta endar allt saman. Allt virðist vera í hnút og maður sér ekki hvernig þetta á að leysast.

Hræðilegt hvað mörg fyrirtæki eru farin, eða eru að fara, á hausinn. Skítt og laggó með sparnaðinn sem fólk hefur tapað, ég veit það er ömurlegt, en þegar fólk missir vinnuna þá fyrst fer ástandið að vera erfitt.

Einn nemandi minn (en þeir eru allir útlendingar) nefndi það í morgun hvað honum þætti furðulegt hvað Íslendingar væru rólegir yfir þessu öllu saman og að þeir tækju þessu næstum því eins og sjálfsögðum hlut. Í mörgum, eða flestum, eða ÖLLUM, öðrum löndum væri fólk brjálað og mótmælin fælust í einhverju róttækara en nokkrum eggjum.

Mér finnst það ótrúlegur andskoti hvað Íslendingar eru dómharðir á mótmælendur. Um leið og mótmæli færast af rólegheitastigi 1 fara allir að skammast og fordæma mótmælendur. Fjandinn hafi það, mér finnst fullkomlega eðlilegt að fólk SÉ BRJÁLAÐ núna. Að kasta nokkrum eggjum er ekki róttækt. Munið þið ástandið í DK þegar átti að loka ungdómshúsi? Halló! Þá var fólk að kveikja í bílum og ég veit ekki hvað. Eða í Frakklandi í innflytjendahverfunum? Hér á Íslandi búum við við sérstaklega ótryggt ástand, sem hefur ekki bara áhrif á ákveðinn þjóðfélagshóp, heldur næstum því á hvern einasta íbúa landsins. Og það mæta nokkur þúsund manns á MJÖG FRIÐSAMLEG MÓTMÆLI. Ekki það að ég sé að hvetja til ófriðar, mér finnst bara leiðinlegt hvaða augum mótmæli eru litin á Íslandi.

Það virðist hafa komið á daginn að stjórnendur þessa lands hafi gert dýrkeypt mistök: í sambandi við einavæðingu bankanna, í sambandi við eftirlit með bönkunum og að ég tali nú ekki um þegar öll ógæfan dundi á: í samskiptum við aðrar þjóðir (ég er nokkuð viss um að það hefði verið einhvern vegin verið hægt að koma í veg fyrir að málin í Bretlandi lentu í þessum ógöngum, þrátt fyrir að ég telji að það sé mikið til Bretum að kenna), og við eigum ekkert bara að sætta okkur við það. Og ég held að þessi óvissa geri fólki mjög illt. Stjórnvöld þurfa að marka sér einhverja stefnu, þau þurfa að reyna að finna einhverjar lausnir á efnahagsástandinu, þau þurfa að kynna þetta fyrir þjóðinni til þess að fólkið sjái einhverja lausn, einhvers staðar. Manni finnst eins og þetta muni bara halda áfram að versna og versna að eilífu. Ég meina: hvernig endar þetta? Vöruskortur? Matarskortur? Hungursneyð? :) Kannski ekki, en mér finnst ég a.m.k. vera í fáránlegri óvissu, en sjálfsagt er ég að dramatísera hlutina fullmikið eins og fyrri daginn.

Í hversu djúpum skít erum við?

Að þessu öllu sögðu verð ég samt að taka það fram að ég hef ekki mætt á ein einustu mótmæli:) Ég er meira leið heldur en reið, og svo finnst mér næstum því að það að mótmæla efnahagsástandinu væri svona eins og að mótmæla veðrinu. Þetta er eitthvað sem gerðist bara í öllum heiminum og ekkert hægt að gera í því. En ég held ég sé smátt og smátt að komast á aðra skoðun. Þetta hefði ekki þurft að fara svona illa. Og mér finnst við eiga rétt á einhverjum úrbótum.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Og það er nú það.
ella

Nafnlaus sagði...

Við erum í djúpum. Og ég er öskuill yfir því að koma hefði mátt í veg fyrir það með almennri skynsemi. Ákveðnar manneskjur hér á þessu landi hafa hana ekki til að bera eða eru að minnsta kosti einkar lagnar við að ignora hana.

Mér finnst ég bara svo vanmáttug. Hvað í fjandanum get ég gert? Hafa mótmælin einhver áhrif? Og ég er alveg sammála því að viðhorf til mótmæla hér á landi er bara ekki eðlilegt. Það er hið besta mál að mótmæla óréttlæti.

Að því sögðu er ég að hugsa um að skella mér á mótmæli á laugardaginn. Ætla að stinga upp á því við rauðhaus og Sprundina. Þetta er ekki hægt.

Ég vil að minnst kosti hafa REYNT að gera eitthvað þótt það skili engu öðru en því að friða mína eigin samvisku.

Hvernig þetta endar veit ég ekki og sú hugsun hræðir úr mér líftóruna. Þess vegna tek ég einn dag í einu og þakka fyrir það sem ég hef þann daginn.

Sjáumst á laugardaginn. Vííííí ...

dr

Nafnlaus sagði...

Efnahagsástandið er ekki eins og veðrið. Mjög fámennur hópur manna sem bjó til þetta "óveður" og frekar auðvelt að benda á þá. Svo á hinn bóginn kaus ca 65% þjóðarinnar þetta yfir sig en það er svo annað mál.. :)

Regnhlif sagði...

já en þú veist, það er líka kreppa úti í heimi, sem við hefðum örugglega lent í, hvað sem fólk hefði gert. En ég er alveg sammála samt sko