919.færsla. öðruvísi mér áður brá
Ég er einstaklega gjörn á hverfa í eigin heim. Þá veit ég voðalega takmarkað hvað er að gerast í kringum mig. Þetta getur gerst á ýmsum stöðum. Helsti gallinn við þetta er að þegar þetta gerist bregður mér oft svo svakalega. Held að málið sé að ég er svo sokkin í eigin hugsanir að ég tek ekkert eftir því ef einhver nálgast mig. Svo þegar viðkomandi er kominn hættulega nálægt þá bregður mér fáránlega, enda er það svolítið sjokkerandi að einhver geti bara svona sprottið upp úr jörðinni beint fyrir framan mig.
Þegar mér bregður öskra ég yfirleitt mjög hátt og stundum ótrúlega asnalega (svona óperusöngsöskur) og gjarnan fylgir einhver kjánaleg hreyfing með. T.d. hef ég stundum rétt hendurnar þráðbeint upp í loft og hrist fingurna (jazz hands). Ótrúlega töff og ógnandi.
Þetta er svolítið hallærislegt þegar ég geri þetta við ókunnuga eða á almannafæri. T.d. öskraði ég svona svakalega á Einar einu sinni í Krónunni. Hann ætlaði að bíða úti í bíl og ég sökkti mér svona líka ofan í pælingar um kínarúllur. Þess vegna brá mér svona rosalega þegar hann stóð allt í einu við hliðina á mér. Einar lét eins og hann vissi ekkert hver ég væri eftir þetta, þegar öll búðin horfði á mig.
Ég var líka alltaf að öskra á sambýlinginn á Tjarnargötunni. Hann mátti ekki koma inn í eldhús ef ég var þar og var farinn að nálgast mig "voða varlega" eins og hann sagði, sem gerði auðvitað illt verra.
Svo hefur fólk líka nýtt sér þetta ... bekkjarbróðir á fyrsta eða öðru ári í MR uppgötvaði þennan "hæfileika" minn og brá mér u.þ.b. 10 sinnum á dag. Ég var farin að verða vör um mig, en eins og í tilviki Tjarnargötusambýlingsins, þá gerði það bara illt verra því ég var enn þá hvefsnari og var farin að öskra yfir ólíklegustu hlutum. Ég man þetta nú bara af því að a.m.k. þrjú komment í árbókinni minni þetta árið snérust um þessi öskur mín. Þá hlýtur þetta að hafa verið í 3. bekk, ekki satt?
En þá er spurningin: get ég ekki breytt þessu í hæfileika? Gert gott úr illu? Og nýtt mér þetta? Við vorum nefnilega nokkur að ræða í gær hvað það er merkilegt hvað einhverfir geta verið miklir snillingar á ákveðnum sviðum. Við fórum að pæla í því hvort þetta stafaði af því að þeir gætu sökkt sér niður í eitt viðfangsefni en látið önnur algjörlega sitja á hakanum. Við „venjulega fólkið“ erum hins vegar alltaf að hugsa um svo margt í einu og náum aldrei fullkominni einbeitingu. Ég ætti þess vegna að nýta mér þennan hæfileika minn að útiloka allt nema hugsanir mínar til þess að ná ákveðinni snilligáfu, segjum til dæmis í því að skrifa eins og eitt stykki M.A.-ritgerð.
En því miður virðist ég geta sökkt mér niður í HVAÐ SEM ER annað en lærdóminn. Blogg - feisbúkk - smáauglýsingar - sjónvarpsþáttur (hver sem er) - þrif - verð á kínarúllum - ... - en ekki lærdóm.
Sorglegt.
10 ummæli:
:) þetta er alveg pottþétt ekki einhverfueinkenni hjá þér frænka góð.
Við systkinin eigum það öll til að hverfa svona inn í okkar eigin heim, meira eða minna. Við kannski öskrum ekki þegar við komum þaðan. En þetta með að detta svona í einhverjar pælingar, ég held að það megi vel skýra það með því að við, eins og þið systkinin, eyddum fyrstu árum ævinnar meðal margs fólks og vorum vön því að útiloka allskyns truflanir þegar við vorum að lesa eða leika okkur. Sem er bara fínn hæfileiki vil ég meina. Þetta fór hinsvegar all svakalega í taugarnar á barnsföður mínum. Honum fannst ég bara mjög ókurteis þegar ég svaraði ekki alltaf strax ef á mig var yrt. Hann kom úr allt öðruvísi umhverfi. Fátt fólk og mikið pláss þar sem þögn þótti mikil dyggð. Enda varla talandi.
Haha. Þetta er rétt. Þetta er samt pínu erfitt stundum. Get til dæmis ekki talað við fólk ef það er kveikt á sjónvarpinu fyrir framan mig. Skiptir engu máli hvað er í því, ég sekk ofan í það. Ég þyrfti að hafa aðeins betri stjórn á þessu:)
Voðalega er ég glöð að ég er ekki ein um þetta ! ég er sérstaklega slæm inni í eldhúsi yfir pottunum - Justin fær iðullega mikið öskur ef hann leyfir sér að koma inn á meðan ég er að elda... í gær var ég svo utan við mig í strætó að ég gleymdi að fara út úr vagninum....
;)
Hahaha. Já, það hef ég líka gert:)
ég hef oft tekið eftir þessu. Vil bara bæta við að ég er rosa ánægð að þú haldir áfram að blogga. Þetta er uppáhaldsbloggið mitt.
Takk:) Ég reyni ...
Læsa að sér svo að ekki sé hætta á svona truflunum. Gæti samt kostað dálítið bras að drösla með sér hentugu búri eða álíka prívati hvert sem maður fer.
hugsaði til þessarar færslu í morgun eftir að ég öskraði í aumingjans manninn minn, sem vildi bara kyssa mig bless... og svo tók ég gott skræk á samstarfsmann minn í gær... ég er greinilega voða niðursokkin í eigin pælingar þessa dagana.
haha, þið eruð fyndnar. Ella, mér bregður næstum jafnmikið þegar það er dinglað eða bankað þannig að ég held að það bjargi ekki öllu að læsa alltaf að sér.
Sólrún, ég er voða ánægð að vera ekki ein svona. Það er sérstaklega óþægilegt þegar maður er öskrandi á samstarfsmenn eða bláókunnugt fólk:) Sök sér með kærastana...:)
Hehe. Kannast við þetta, sérstaklega við uppvask. En ekki bregður mér þó jafn mikið og þér, --- til dæmis ef síminn þinn hringir!
En ég kann ágætt ráð við einbeitingarskorti: finndu eitthvert gamalt, rykfallið bókasafn þar sem er ekkert þráðlaust net. (Segi ég því að ég hef setið í gamla veislusal Napóleons hér í Trektarsafni og fannst frábært.)
Skrifa ummæli