laugardagur, mars 09, 2013

1026. Færsla. Stutt

Þetta verður bara stutt færsla.

Ég skil ekkert í veðrinu hérna. Í gær var um frostmark og snjóaði slatta. Í dag er hins vegar 15°C hiti, heiðskírt og glampandi sól! Ég trúi samt ekki alveg þessum 15°C ... loftið virtist kaldara þó að sólin væri heit. Það væri yndælt ef vorið væri bara komið hérna:D

Við Einar og Árni Gunnar skelltum okkur í dagsferð til New York á þriðjudaginn. Einar er sko búinn að vera í vorfríi alla vikuna. Við tókum rútu klukkan 10 um morguninn og vorum komin til NY á hádegi. Við byrjuðum á því að fá okkur hádegismat og fórum svo upp í Empire State Building. Það var sko skemmtilegt! Aðstæður voru frábærar, engin röð í miðasölu, lyftu eða neitt, en mér skilst að þær geti vægast sagt verið langar. Og veðrið var fínt, glampandi sól og gott skyggni, þó að það væri ekki hlýtt í skugga. Ég vissi ekki að mér myndi finnast þetta svona skemmtilegt. Það var bara alveg magnað að sjá yfir öll háhýsin, út á sjó, frelsisstyttuna í fjarska og alla gulu leigubílana niðri á götunum alveg eins og litlu leikfangabílana hans ÁG. Eftir þetta höfðum við eiginlega ákveðið að taka subway í Central Park til að leyfa syninum aðeins að teygja úr sér. Þegar til kom ákváðum við þó bara að rölta þetta frekar, þó að gangan væri svolítið löng. Það var sko ekki slæm ákvörðun, mjög gaman að labba bara um göturnar þarna, löbbuðum t.d. bara óvart fram hjá Rockefeller center - sáum skautasvellið og sátum þar á bekk í sólskini og gáfum ÁG að borða. Fórum svo í garðinn en fundum ekki neinn af þessum 21 leikvelli sem á að vera í garðinum. Vorum orðin svo þreytt í fótunum af allri göngununni að við kíktum bara á kaffihús og fórum svo á ítalskan stað og fengum okkur pizzu. Síðan gengum við óvart beint á Times Square. Það var líka mjög gaman, eins lítið og ég hélt að væri varið í það:) Tókum svo rútuna heim klukkan átta. Osom. Verð að játa það að það er pínulítið gaman að geta bara svona skroppið í dagsferð til NY. Held t.d. að maður gæti alveg farið þangað á góðum degi og bara hangið í Central Park, kíkt í dýragarðinn og svona.

Barnið tók annars upp á því að fá hita í gær. Var svolítið vansæll í nótt, vaknaði mikið fyrripart nætur en er svo þónokkuð hress í dag. Hef ekki mælt hann í dag en er nokkuð viss um að hitinn sé lítill sem enginn. Vonandi var þetta bara einhver undarleg sólarhringspest (sakar ekkert að vera bjartsýnn).

Núna eru tæpir tveir mánuðir þar til við komum til Íslands. Við stefnum að því að vera á Ísl í heila þrjá mánuði. Jahá.

2 ummæli:

ella sagði...

Skemmtilegt að margt skemmtilegt skuli bara hafa verið óvart. Það er svo miklu skemmtilegra en að búast við skemmtun sem ekki kemur.

Fríða sagði...

Gaman :)