mánudagur, ágúst 25, 2014

1037. færsla. 3. árið

Jæja, við erum komin út aftur og þriðja árið í útlegðinni hafið. Lofar bara góðu sko. Allt gekk furðulega vel á leðinni út - flugið var á undan áætlun, það var ENGIN röð í vegabréfaskoðunina á JFK (í stað þessara hefðbundnu 45 mínútna). Við merktum við að við værum með kjöt í farangrinum en vorum samt ekki tekið til hliðar og beðin um að sýna það (furðulegt). Sakir alls þessa vorum við komin á rútustoppið 2 klukkustundum fyrir brottfarartíma rútunnar sem við áttum miða í. Til allrar hamingju var næsta rúta, sem fór hálftíma eftir að við komum á rútustoppið, ekki full og við gátum því nýtt miðana okkar í hana og vorum komin heim einum og hálfum tíma á undan áætlun. OK, kannski frekar einum klukkutíma, því að rútan var aðeins of lengi á leiðinni og svo gekk okkur erfiðlega að fá leigubíl þegar við stigum út úr henni. Á mér (og vinum mínum) hefur hvílt fáránleg leigubílaógæfa síðustu misserin í Philly. Hvað er málið með það? Þrátt fyrir þetta verð ég að segja að þetta ferðalag heppnaðist geðveikislega vel. Verður líka auðveldara eftir því sem barnið eldist. Vil samt koma því á framfæri að barnaefnisúrvalið sökkaði í flugvélinni, fyrir aldur litla gaursins míns, allavega.

Svo er náttúrulega bara sumar hér. Ekkert allt of heitt - við lentum inni í nokkrum rigningardögum - kannski um 20-25 stig. Núna í dag var hins vegar 28 stiga hiti og sól. En við vorum að mestu inni, því að barnið er veikt. Rauk allt í einu upp í hita á laugardagskvöldið, en hafði fram að því verið hress, og er ekki með nein önnur einkenni, þó að ég hafi eyrnabólgu undir grun. Og hann er nokkuð hress og glaður bara, ég er eiginlega alveg hissa á því að hann sé ekki slappari. Kannski gengur hann bara á gleðinni yfir því að vera búinn að endurheimta allt dótið sitt. Það er greinilega erfið raun, ef maður er þriggja ára, að vera frá dótinu sínu í svona langan tíma. Þó hafði hann nóg af dóti á Íslandi. Hann er búinn að handfjatla hvert einasta stykki og hvern einasta hlut, og, mér til mikillar gleði, dreifa því öllu gjörsamlega út um allt. En sko, aftur að veikindunum, þá er ótrúlegt hvað ég tek það nærri mér að hann veikist (allavega þangað til við höfum heimsótt lækni). Ég var á leiðinni í partý þegar þetta brast á og hætti snarlega við, jafnvel þó að Einar reyndi að sannfæra mig um að ég hefði gott af því að fara, hann gæti vel hugsað um drenginn (sem var bæþevei sofandi)og svo framvegis. En ég lét ekki sannfærast og sendi Einar í staðinn í partýið. Fyrr um daginn fórum við öll í annars konar partý, til að kveðja vinkonu mína sem er því miður að fara aftur til Þýskalands. Það er gallinn við að kynnast öðrum útlendingum, þeir eiga það til að flytja aftur heim á undan manni, sem er ekkert sniðugt. Annars finnst mér auðveldara að tengjast öðrum útlendingum. En þetta var svona leikstefnumót, samt með bjór ... en fólk var svosem ekkert á fylleríi, held ég. Allavega ekki ég, enda ætlaði ég í partý um kvöldið, en það var áður en ég vissi að barnið væri veikt. Kannski var hann orðinn veikur í partýinu og hefur smitað öll hin börnin. Það væri mjög leiðinlegt. En sé þetta eyrnabólga þá er hún nú ekki smitandi, minnir mig. En það er annaðhvort heppni eða óheppni að hann á tíma í þriggja ára skoðun á morgun. Heppilegt því að þá getur læknirinn kíkt í eyrun á honum og svona, óheppni ef þetta er svona þroskamat (sem ég held að þetta sé), því að þá er betra að barnið sé vel fyrirkallað. En eins og ég segi, þá er hann frekar hress bara svo að kannski skiptir þetta ekki máli. En nú er ég hætt að byrja setningar á "en", kannski. Þetta kemur allt í ljós á morgun. Þar fyrir utan, ef þetta er eitthvað svona þroskamat þá veit ég ekki alveg hvernig það á eftir að ganga, því að Árni Gunnar er búinn að gleyma næstum allri enskunni. Hef engar áhyggjur af því að það verði ekki fljótt að koma aftur, en ég efast um að hann geti svarað nokkru sem læknirinn spyr hann, þó að ég hugsa að hann geti skilið slatta. Jæja.

Ég held annars að ég sé loksins búin að taka upp úr töskunum. Það er ekki svo auðvelt, ég þurfti að taka til í fataskápunum áður en ég gat farið að raða í þá aftur. Grisjaði slatta, ágætt að fá smá fjarlægð á fötin sem ég skildi eftir, þá sér maður auðveldar hvaða flíkur eru löngu kominn tími á að henda. Ég veit samt ekki alveg hvar ég get gefið föt sem kannski einhver getur nýtt. Vantar rauðakrossgáma hér. En ég hlýt að geta komist að því. Svo hefur drengurinn, eins og fyrr sagði, verið iðinn við það að dreifa dóti vel og vandlega út um öll gólf; púslum, bókum, kubbum, bílum ... allt í bland úti um allt. Svo að það er eiginlega ekki alveg nógu snyrtilegt hérna, miðað við það að ég hef ekki gert annað síðustu daga en að ganga frá. Hm.

2 ummæli:

Nanna sagði...

Jeeeij! þú ert komin aftur!

ella sagði...

Segi sama.