miðvikudagur, janúar 11, 2017

1049.færsla. Píta.

Eitt það besta við að hafa pítu í kvöldmatinn er að þá getur maður (oft) fengið sér pítuafganga í hádegismatinn næsta dag. Það er hins vegar verra þegar maður er búinn að rista brauðið, hita kjötið, raða öllu í pítuna, setjast niður og opna munninn - og þá, auðvitað þá - heyrist væl í barninu (/börnunum ef maður er tvíburamamma) sem eru sofandi í kerrunni inni í stofu. Þá er maður allt í einu að reyna að borða pítu, með sósu út á kinn,á ferð á meðan maður keyrir tvíburakerruna með olnbogunum um stofuna. Hafið þið reynt að borða pítu á meðan þið keyrið tvíburakerru um stofuna með olnbogunum? Ég skal segja ykkur það að það er ekki hægt. Jú, kannski ef maður yfirfyllir ekki pítuna ... en af hverju ætti maður að setja lítið í pítuna?? Það væri nú bara skrítið.

laugardagur, janúar 07, 2017

1048.

Í dag gerðist það helst markvert að ég náði mér í ókeypis (barna-) ferðarúm af gefins, allt gefins á facebook. YES. Vel gert.

Og það að mér skrikaði fótur á koddainniskónum sem Einar fékk í jólagjöf og flaug mjúklega á rassinn. Auðvitað með kaffibolla í höndunum. Og skvetti innihaldi hans vel og vandlega yfir andlitið á mér. Við erum að tala um kaffi í nösunum og alles. Enn á ný er ég þakklát fyrir ylvolgt kaffi.

föstudagur, janúar 06, 2017

1047. Kaffi

Fékk þá góðu hugmynd að fá soninn, 5 ára, til að vekja pabba sinn með því að færa honum heitt kaffi í rúmið. Áttaði mig svo á því að þetta var ekki alveg nógu vel úthugsað hjá mér þegar ég heyrði þreytt óp úr myrkvuðu svefnherberginu og við mér blasti eiginmaður með hálfan kaffibolla, hálflukt augu og kaffislettur í hvítum rúmfötunum. "Þú ættir að kveikja ljósið og vekja pabba áður en þú réttir honum kaffið" byrjaði ég en hætti svo við. Sem betur fer var þetta ekki sjóðandi heitt kaffi, segi ég nú bara.

1046. Aftur

Er að hugsa um að snúa aftur með sögur úr fæðingarorlofinu.

miðvikudagur, febrúar 04, 2015

2015

Hátíðirnar koma og fara og ekkert blogga ég. Síðast á Hallóvín.

Byrjun árs ruglar mig alltaf. Já og haust líka. Ég rugla þessu endalaust saman, þ.e. ég veit ekki hvort nýtt ár er að byrja eða nýtt skólaár. Þannig fannst mér í gær eins og Hallóvín væri á næsta leyti.

Það er ekki eins kalt í vetur og í fyrra. Og það hefur verið lítill sem enginn snjór. Allavega ekki nægilega mikið til þess að fara að renna sér í garðinum, þrátt fyrir hástemmdar aðvaranir um ægilegan "snjóstorm" og blizzard og ég veit ekki hvað sem átti að vera í síðustu viku. Þetta var voða fyndið. Almenningsskólum var lokað í einn og hálfan dag út af veðrinu sem aldrei kom, það kom í mesta lagi sentimetri af snjó hérna. Ég fór út í búð daginn áður en veðrið átti að koma, því að það vantaði kvöldmat, og búðin var full af fólki sem var að byrgja sig upp af mat til að lifa af óveðrið. Hvað er eiginlega að fólki - jafnvel þó að það hefði komið eitthvað ægilegt veður (ég sá nú aldrei að spáin væri ægileg, en veðurfræðingarnir hér voru á öðru máli), þá hefði fólk komist út í búð tveimur dögum seinna! Drama drama. Ég var svo guðslifandi fegin að leikskólanum hans Árna Gunnars var ekki lokað. Hann hafði verið heima lasinn í viku á undan og var loksins orðinn skólafær, hefði orðið verulega svekkt ef hann hefði svo þurft að vera heima tvo daga í viðbót út af smá snjókuski.

Ég er að borða granatepli. Þau eru í algjöru uppáhaldi hjá mér núna. Ég held að það sé fyrst og fremst af því að mér finnst gaman að borða þau, en ekki bragðið endilega, þó að þau séu reyndar mjög góð á bragðið.

Jólin voru mjög yndæl. Þetta voru svona náttfatajól, því að við höfðum engin jólaboð eða slíkt til að sinna. En við borðuðum góðan mat, spiluðum, horfðum á vídeó og svona.

Sá litli er duglegur á leikskólanum. Mér finnst enn pínu skrítið að hann geti bara verið "aleinn" á einhverjum stað án okkar, að litla barnið mitt geti verið svo sjálfstætt:) Hann er samt bara hálfan daginn á leikskólanum, svo að við erum enn megnið af deginum að hanga saman. Hann elskar að leika sér með dýr, og vill þá helst vera í hlutverkaleik með manni og leikirnir snúast ýmist um að bjarga einhverju dýri úr vandræðum, eða að einhver rándýr reyna að ráðast á önnur dýr. Ég hef ekki alveg jafnmikið úthald í þessa leiki og hann. Aftur á móti gæti ég föndrað allan daginn, en því nennir hann í mesta lagi í 30 sekúndur.

Í dag fórum við í feluleik. Ég byrjaði á að fela mig. Þegar Árni Gunnar fann mig, sagði hann "þetta var ekki góður staður!!". Ég var hálfmóðguð og stóð upp en þá sagðist sonurinn ætla að fela sig á þessum stað og sagði mér að fara inn á bað og telja. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að hann ætti ekki að segja mér hvar hann ætlaði að fela sig, en allt kom fyrir ekki, hann vildi bara endilega fela sig á sama stað og ég hafði falið mig og fannst ekkert að því að ég sæi hann fela sig áður en ég fór svo inn á bað að telja. Svo þegar ég "finn" hann, eftir mjög stutta leit, segir hann "þetta var mjög góður staður!!". Svona gekk þetta fyrir sig nokkrum sinnum, hann valdi alltaf sama stað og ég hafði falið mig á, og fannst staðurinn alltaf góður eftir að hann hafði falið sig þar.






laugardagur, nóvember 01, 2014

1044. færsla. Halloween

Það er skítakuldi í húsinu. Sonur minn sefur vært í flísgalla undir þykkri dúnsæng og er alveg mátulega hlýtt. Ég sit í stofunni við ylinn af ótal kertum. Viðeigandi að fyrsta kalda kvöldið sé einmitt á Hrekkjavöku. Graskersluktir og samansafn af mismunandi tegundum af rauðum og appelsínugulum kertum skapa einmitt réttu stemninguna. Á svona kvöldum er best ef maður getur bakað eitthvað í ofni, til að ná upp smá hita. Heppilegt að ég átti einmitt graskersfræ til að rista, fyrst ég náði ekki að skera graskersluktirnar fyrr en í dag. Ótrúlegt magn af fræjum sem eru í svona graskerjum

Ég er gras(kers?)ekkja þessa helgina. Skyldan kallaði eiginmanninn á ráðstefnu í öðru fylki. Nú þegar haustar fyrir alvöru, eiginmaðurinn er í burtu og, tjah, það eru draugar á hverju götuhorni, finn ég örla á myrkfælni. Veröldin er undarlega þögul svo að hið óþreytandi sírenuvæl stórborgarinnar hættir að vera ógreinilegt bakgrunnshljóð og verður að undirspili fyrir dans flöktandi kertaloganna. Merkilegt annars hvað nærvera þriggja ára barns slær mikið á myrkfælni.

Síðustu vikuna hef ég setið sveitt við flest kvöld og handsaumað grímubúning á barnið. Endilega minnið mig á það á næsta ári þegar ég ætla að gera slíkt hið sama, að þetta er ekki eins lítið mál og ég held það sé. Ég var alveg komin í kapphlaup við klukkuna og varð að sleppa ýmsum smáatriðum sem ég hafði ætla mér að gera. Fíllinn varð til að mynda tannlaus, greyið. Fyrir utan smávesen eins og það að skottið leit út eins og skottið á Eyrnaslapa og eyrun voru frekar eins og músareyru og svo hið algjörlega óþolandi smáatriði að sonur minn, sem hefur í nokkrar vikur sagt í hvert einasta skipti sem hann er spurður að hann ætli að vera FÍLL, vaknaði skyndilega í gær harður á því að hann ætlaði að vera API (eins og í fyrra). Ég þorði að sjálfsögðu ekki að hætta við að klára fílabúninginn, svona ef hann myndi jafnsnögglega skipta aftur um skoðun og himin og jörð myndu farast ef hann gæti ekki fengið að vera fíll, og sat einbeitt við að sauma (og horfa á Netflix) til klukkan 1 í nótt. Svo gat ég auðvitað ekki sofnað því að heilinn hélt áfram að sauma þegar ég lokaði augunum. Ég vaknaði því með fullkomið litarhaft afturgöngu í morgun. Barninu fannst réttara að fresta þessari hátíð, enda er hann rétt að komast á aldur til að hafa vit á því að vera smeykur við ógnvekjandi hluti, og fannst fílabúningur hin mesta vitleysa. Hann ákvað reyndar á síðustu stundu að fara sem fíll á leikskólann og bjargaði þar með geðheilsu móðurinnar, sem ætlaði auðvitað ekki að setja pressu á barnið að vera fíll ef það vildi það ekki (þetta snérist víst allt um að hann hefði gaman, þó að stundum sé ekki alveg ljóst hvort okkar fær meira út úr svona hátíðum, eða jú, það er örugglega ég, en ég vona samt að mér takist að yfirfæra ekki mínar væntingar yfir á hann eða eitthvað) en allt þetta maus við þennan hálfmismheppnaða búning hefði bara verið eitthvað svo sorglegt ef hann hefði svo ekki einu sinni viljað prófa að fara í hann. Ekki það, handavinna fyrir framan skemmtilega sjónvarpsþætti er nú ekki sorgleg tímaeyðsla, eiginlega alveg frábær tímaeyðsla ef satt skal segja. En eftir leikskólann vildi hann ekki vera fíll lengur og fékk (með glöðu geði) að vera sami api og í fyrra.

Hann mætti á leikskólann fyrir hádegi til að taka þátt í afmælisveislu og hallóvínveislu, var þar sína fjóra klukkutíma, svo slökuðum á heima í smá stund og fórum svo út í skrúðgöngu og að trick-or-treata. Ég held við séum mjög heppin að það sé svona frábær Hrekkjavökuviðburður akkúrat í hverfinu okkar. Það eru bara einhver íbúasamtök sem skipuleggja þetta - skreyta allt og svo fær maður fullt fullt af kökum, eplacider, og ís frá tveimur mismunandi ísbúðum í hverfinu. Og mjög margir gefa nammi líka. Fyrsta árið var ég dauðhrædd um að týna barninu í mannfjöldanum og var því fegin að hann var í beisli, enda vildi hann hlaupa burt frá mér. Í fyrra var þetta líka svolítið þannig - en núna í ár vildi hann ekki sleppa hendinni af mér, hræddari um að týna mér en ég honum. Það er talsvert auðveldara þannig:) Svo komum við heim og hann bað fljótlega um að fá að fara að sofa, fyrir klukkan sjö! Nátthrafninn minn! Vona innilega að hann sé ekki að verða veikur, því að hann er kvefaður. Ég tel mér trú um að það sé eðlilegt að barn sem vaknaði snemma og tók svo þátt í svona mikilli dagskrá og spennu og útiveru, sé þreytt óvenjusnemma. Bara að honum hafi ekki orðið meint af allri spennunni og dagskránni og útiverunni, verandi með kvef. Annars skrúfast mammviskubitið sjálfkrafa í botn.

Mér finnst eins og tónninn í þessari bloggfærslu sé drungalegri en ég ætlaði mér. Það er líklega stemmingin, kvöldið og kertaljósið.

- Frábær dagur með apa og fíl. Hrekkavakan er uppáhalds bandaríski hátíðisdagurinn minn. Þar á efir kemur Thanksgiving og páskaeggjaleitin um páskana-

Og p.s. Það er ekki svo kalt úti, bara inni. Það eru tíu gráður úti núna klukkan 11 um kvöld. En það er greinilegt að við þurfum að tala við leigusalann um að láta kveikja á hitanum, þetta er alveg við þolmörk sko. Maður er svo góðu vanur.

mánudagur, október 20, 2014

1043.færsla. Haust í Philly

Þessi síðasti mánuður hefur verið pínu kreisí. Kreisí góður samt sko.

Í raun og veru hefur verið brjálað að gera frá því að við komum aftur hingað út í lok ágúst. Samt hef ég ekki gert neitt af viti, þ.e. unnið. En ég hef verið mjög busy í lífinu. Nokkrum dögum eftir að við komum heim veiktist Árni Gunnar. Ekki mikið en það tók hann rúma viku að lagast. Undir lokin af veikindum fórum við í helgarferð að heimsækja vini í annarri borg. Við vorum löngu búin að kaupa miða í lestina og heimsóttum lækni um morguninn sem gaf okkur grænt ljós á að fara með barnið í svona ferðalag. Eftir á að hyggja var hann kannski ekki orðinn alveg nógu hress í svona ferðalag, samt gekk þetta vel og honum varð ekki meint af. Svo að líklega var þetta í lagi, þó að ég hafi verið með mömmusamviskubit. Svo liðu tvær vikur og þá byrjaði barnið á leikskóla. Húrra fyrir því:) Löngu kominn tími á það, fyrir okkur bæði, held ég. Mér fannst það samt hræðilega erfitt, mér leið eins og ég væri fyrsta mamman í heiminum sem hefði þurft að skilja barnið svona eftir. Og hann grét, að sjálfsögðu, eins og ég væri að skilja hann eftir í ljónagryfju fyrstu dagana. Það kom mér ekki á óvart, því að hann lét líka svona á Íslandi í sumar ef einhver átti að passa hann, og þá var hann þó hjá fólki sem hann þekkir mjög vel og elskar. Og svo hef ég líka unnið sjálf á leikskóla og veit að mörg börn gráta í kveðjustundinni en taka fljótt gleði sína þegar foreldrarnir eru farnir. En það er allt annað að vita þetta eða vera í aðstæðunum sjálfur. En svo gekk aðlögunin eiginlega fáránlega vel, sérstaklega miðað við það hvað hann er feiminn og háður mér (enda hef ég verið svo mikið með hann, sérstaklega eftir að við fluttum út, þar sem hann er sárasjaldan í pössun) og við nýkomin aftur frá Íslandi, þar sem hann gleymdi talsverðu af enskunni (sem hann talaði auk þess ekki fullkomlega fyrir). Strax á fimmta degi grét hann ekki, í vikunni á eftir grét hann stundum og stundum ekki, og svo eftir tvær vikur hefur hann alltaf kvatt mig sáttur, húrra fyrir því:) Mér finnst það samt alveg ótrúlega fyndið að hann eigi sér líf sem ég er ekki hluti af og veit eiginlega ekki hvað er í gangi í. Hann á vini sem hann talar um, en ég veit ekki einu sinni hvernig þeir líta út. En ég mun nú fljótlega kynnast þessu betur - leikskólinn hans býður foreldrum nefnilega upp á að vinna einn dag í mánuði á leikskólanum og fá í staðinn smá afslátt af skólagjöldunum. Mér finnst það ótrúlega sniðugt, þá kynnist maður starfinu miklu betur og svo hlýtur þetta að veita skólanum aðhald, ef það eru "alltaf" einhverjir foreldrar á svæðinu þá getur varla eitthvað mjög vafasamt viðgengist. Ég verð samt að segja að ég skildi ekki alveg hvernig þetta ætti að ganga upp og gat ekki alveg séð fyrir mér að það væri þægilegt að hafa alltaf foreldra inni á deildinni, sem kunna ekki á starfið og trufla örugglega barnið. En svo er þetta þannig að foreldrarnir eiga fyrst og fremst bara að vera þarna til að eyða tíma með barninu sínu, það er sem sagt ekki ætlast til þess að maður sé á fullu við að vinna eitthvað, heldur bara að vera með og hjálpa eitthvað til ef maður getur. Ég má bara ekki gleyma að mæta í þetta, maður ræður alveg sjálfur hvenær maður gerir þetta.

Þegar ÁG var búinn að vera eina viku á leikskólanum mætti pabbi á svæðið. Það var roslega gaman og við gerðum mjög margt, nýttum það til fulls að vera með bíl og keyrðum mikið út fyrir borgina. Pabbi var hér í níu daga, held ég.

Svo þremur dögum eftir að hann fór, kom Eysteinn frændi í heimsókn. Hann ætlaði upphaflega bara að vera stutt (hann var að ferðast á milli borga að hitta vini sína frá því að hann var í high school í Boston í fyrra) en svo breyttust plönin hans og hann endaði á því að vera líka í níu daga hjá okkur. Það var rosa gaman að fá hann, við túristuðumst aðeins um borgina milli þess sem hann hitti vini sína. Svo eldaði hann rooosalega góðan mat fyrir okkur, namm.

Daginn eftir að Eysteinn fór frá okkur komu mamma og Anna svo til okkur. Það var yndislegt að fá þær, við áttum margar góðar mæðgnastundir, túristuðumst, BORÐUÐUM og versluðum. Og þær fóru í gær. Svo að, í rúmlega fjórar vikur vorum við næstum stanslaust með gesti í litlu íbúðinni. Þau voru öll svo sannarlega aufúsugestir og frábært að fá þau, en það er líka pínu gott að fá smá rólegan tíma núna:) Sérstaklega líka af því að síðasta vika var brjáluð vinnutörn hjá Einari.

Haustið er komið hér í Philly. Hitinn er aðeins farinn að lækka, vindurinn blæs og laufið á trjánum er litríkt. Það er samt enn svona í kringum 15 stiga hiti flesta daga hér, en maður finnur fyrir haustinu í loftinu. Og hrekkjavakan er á næsta leyti, en það er líklega uppáhalds bandaríska hátíðin mín hér. Ég er búin að lofa barninu að sauma á hann fílabúning - ég þarf að fara að vinda mér í það, enda þarf ég að sauma þetta í höndunum, eins og ég gerði í fyrra. Það var reyndar minna mál en ég hélt, mjög auðvelt að vinna með flís. En svo klúðrast þetta örugglega þetta árið. Kannski ekki samt.

fimmtudagur, september 18, 2014

1042. færsla.

Ég er sífellt að lenda í hræðilegum vandræðum vegna leti. Núna snýst þetta um að a) ég nenni ekki að elda b) ég nenni ekki út til að kaupa eitthvað sem ég þarf ekki að elda.

Hræðilegt. Og ég er mjög svöng. Og þreytt. Og á eftir að hengja upp fullt af þvotti og vaska fullt upp. Og Einar er ekki heima.

Ég gæti látist úr leti eða hungri einn daginn. Nema hvort tveggja sé.

þriðjudagur, september 16, 2014

1041. færsla. Drep

Ég er alveg hreint gjörsamlega að drepast úr leiðindum í augnablikinu. Held það sé vegna þess að ég ætti að vera að taka til (sjá síðustu færslu). Vatnsmelónuísinn sem ég er að borða hjálpar samt aðeins. Þetta er bara frosin vatnsmelóna á priki. Elska þetta og sonur minn líka. Oh, þarna stal hann mínum af mér af því að hann var búinn með sinn. Kannski fæ ég mér þá bara annan, nóg til sko. Og þetta getur maður borðað með góðri samvisku.

Ég þarf samt að taka til, þetta er ekkert grín. En svo þarf líka að elda. Og borða. Og ganga frá eftir matinn. Og koma barni í háttinn. Ég tek það fram að ég er ekki ein í þessu. Einar hefur samt talsvert meira að gera en ég, svo að það er eðlilegt að ég kannski taki smá til á meðan hann er í skólanum eða eitthvað. Ef það bara væri ekki svona drepleiðinlegt.

Pabbi kemur á föstudaginn. Hlakka mjög til þess. Svo þann 2. október kemur Eysteinn (bróðursonur minn). Húrra fyrir því. Svo um miðjan okt koma mamma og Anna. Jibbí - skemmtilegir tímar framundan. En það er morgunljóst að ég verð að taka til áður en gestatímabilið hefst. Sem sagt, ég hef tvo daga.

mánudagur, september 15, 2014

1040. færsla. armæða og kveinstafir

Ég held ég bara verði að ráða mér heimilishjálp þegar ég verð fullorðin. Ég verð að segja það að mér finnst það rýra lífsgæði mín verulega að þurfa sífellt að vera að taka til, þrífa, þvo þvott o.s.frv. Þetta er svo mikið streð! Maður þarf eilíflega að vera á tánum að vinna á hverju smáatriði, rétt til að halda í horfinu, og um leið og maður slær slöku við í örlitla stund þá er allt gjörsamlega komið á hvolf aftur. Á sama tíma finnst mér það rýra lífsgæði mín svolítið að búa í drasli. Oh þetta er svona vandamál sem er engin góð lausn á. Milli steins og sleggju. Ömó alveg hreint. (þ.e. ekki hreint). Virkilega þunglyndislegt að hugsa um þetta. Ég ætti að vera einhvers konar aristókrati (mig langaði frekar að segja "aristókrat", fannst það eiginlega meira töff, en fann það ekki í orðabók svo að ég notaði frekar "aristókrati" og finnst það miklu meira lummó). Það væri líka mjög vel þegið að einhver hjálpaði mér að klæða mig á morgnana. Og eldaði fyrir mig. Já.